Þann 14. desember setti umhverfisráðuneytið í kynningu tillögur nefndar að breytingum á náttúruverndarlögum.
Skógræktarfélag Íslands sendi ráðuneytinu bréf ásamt athugasemdum við uppgefnar tillögur og má lesa athugasemdir félagsins hér (pdf).
Samantekt:
Frumvarpið er ekki unnið í samráði við hagsmunaaðila, þvert á fögur fyrirheit þar að lútandi við upphaf starfs þeirrar nefndar sem vann drögin.
Nefndin hefur ekki leitað samráðs út fyrir hópinn, er einsleit að samsetningu og hugmyndafræðilega einsýn. Í nefndinni sitja m.a. forstöðumenn tveggja stofnana sem leggja sem slíkir til víðtækar gjaldtökur sem renna eiga sem sértekjur til viðkomandi stofnana. Er það óviðunandi í ljósi ákalls um breytt og siðleg vinnubrögð í stjórnkerfinu.
Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni er ranglega túlkaður í frumvarpinu þar sem horft er eingöngu á eina grein samningsins, 8(h), og hún tekin úr samhengi við heildarmarkmið samningsins. Samningurinn fjallar fyrst og fremst um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda, aðgang þjóða að þeim og samvinnu þeirra um réttláta skiptingu arðs af þeim og verndun þessara auðlinda til hagsbóta fyrir manninn. Samninginn ber að túlka í því ljósi en ekki valinna atriða sem varða vernd lífvera eða búsvæða þeirra.
Frumvarpið í óbreyttri mynd heggur í lögbundin ákvæði Stjórnarskrár Íslands.
Þörfin fyrir breytingar á 41. gr. núgildandi laga er órökstudd og óþörf. Ef vísindaleg rök hníga að því að ein eða fleiri tegund jurta sé á góðri leið með að útrýma einni eða fleiri tegundum eða vistgerðum á landsvísu þá gætu það verið gild rök til að bregðast við. Engin dæmi eru hins vegar þekkt um tjón af völdum ágengra framandi plantna sem hefur orðið á gildistíma núgildandi náttúruverndarlaga og tilgátur um yfirvofandi tjón og ógn hafa ekki verið rökstuddar. Ekkert bendir til þess að stærð vandamálsins réttlæti þær verulegu skerðingar á athafnafrelsi og eignarrétti manna til að rækta framandi plöntur á Íslandi sem felst í frumvarpsdrögunum. Ekkert bendir til að núverandi athafnafrelsi ræktenda ógni stöðugleika, jafnvægi og fjölbreytni lífríkis landsins.
Frumvarpið, í óbreyttri mynd, leggur íþyngjandi kröfur á alla ræktendur í landinu, skaðar allt ræktunarstarf á Íslandi, en er jafnframt óþarft og ólíklegt til að ná því óljósa markmiði sem að er stefnt, þ.e. verndun líffjölbreytni Íslands.