Um 200 ungmenni fá vinnu við skógrækt í Kópavogi og Garðabæ í sumar en samningar um störfin voru undirritaðir á Smalaholti í Garðabæ og í Guðmundarlundi í Kópavogi miðvikudaginn 8. júní. Verkin verða unnin á svæðum í umsjá Skógræktarfélags Garðabæjar og Skógræktarfélags Kópavogs. Skógræktarverkefnin eru liður í atvinnuátaki Skógræktarfélags Íslands og skógræktarfélaga og sveitarfélaga um land allt. Samanlagt nema verkefnin í Garðabæ og Kópavogi hátt í 30 ársverkum og eru þetta stærstu einstöku verkefnin sem unnin verða í nafni atvinnuátaks Skógræktarfélags Íslands. Þegar hafa verið undirritaðir samningar um 45 ársverk um land allt og er vonast til að samningar náist um að minnsta kosti 60 ársverk á þessu ári.
Undanfarin tvö ár hefur Skógræktarfélag Íslands staðið fyrir atvinnuátaksverkefni í samstarfi við samgönguráðuneytið (nú innanríkisráðuneytið), staðbundin skógræktarfélög, sveitarfélög og Vinnumálastofnun.
Árangurinn af átakinu hefur verið góður og í nafni þess hefur verið unnið að mörgum brýnum verkefnum á skógræktarsvæðum um land allt. Um leið hefur tekist að skapa fjölda atvinnulausra og námsmanna vel þegna vinnu á einhverjum mestu atvinnuleysistímum sem þjóðin hefur upplifað.

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar í góðum félagsskap ungmenna sem vinna við skógrækt á svæðum Skógræktarfélags Garðabæjar í sumar.

Friðrik Baldursson, garðyrkjustjóri Kópavogs, Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri Kópavogs og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, virða fyrir sér skógarplöntur sem gróðursettar verða í atvinnuátakinu í sumar.