Tré ársins 2012 var formlega útnefnt við hátíðlega athöfn að Brekkugötu 8 á Akureyri sunnudaginn 2. september. Tré ársins að þessu sinni er gráösp (Populus x canescens), en gráösp er blendingur milli blæaspar (P. tremula) og silfuraspar (P. alba). Gráösp er vinsælt garð- og borgartré víða í Evrópu, V-Asíu og S- Rússlandi en einungis örfáar fullorðnar gráaspir er að finna hér á landi. Gráöspin að Brekkugötu 8 ber sterkari einkenni silfuraspar hvað blaðform og lit laufblaða varðar. Hún hefur myndað tígulegan stofn og formfagra krónu. Börkur á stofni trésins er afar hrjúfur og myndar þverhandarþykkar hrukkur sem gefa trénu ævintýralegan blæ.
Hófst athöfnin á því að Sigrún Stefánsdóttir, formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga, bauð gesti velkomna. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flutti ávarp og flutti fulltrúum eigenda Brekkugötu 8 viðurkenningarskjal. Einnig flutti Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri Akureyrar ávarp og Hrefna Hjálmarsdóttir, sem starfaði lengi í húsinu, sagði frá því. Tréð var svo formlega mælt. Reyndist það mest 13,55 m á hæð, en ummál stofns í 10 cm hæð frá jörðu var 2,68 m og í brjósthæð 2,3 m. Inn á milli atriða söng svo Kvintettinn Gráösp nokkur lög um land og skóga.
Gráöspin setur mikinn svip á umhverfið (Mynd:EG).
Börkurinn á trénu setur sterkan svip á tréð (Mynd:EG).