Skip to main content

Til hamingju Vigdís!

Með 15. apríl, 2020apríl 16th, 2020Fréttir

Vigdís Finnbogadóttir fagnar í dag 90 ára afmæli sínu og óskar Skógræktarfélag Íslands henni hjartanlega til hamingju með stórafmælið!

Vigdís hefur verið einn ötulasti talsmaður skógræktar og landgræðslu hérlendis, bæði í forsetatíð hennar og síðar. Fyrir framlag sitt til skógræktar var Vigdís gerð að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands árið 1984 og hefur hún ávallt sinnt félaginu mjög vel – verið reglulegur gestur á aðalfundum þess og mætt til þeirra viðburða og verka sem félagið hefur óskað eftir, ávallt með ljúfri lund. Má skógræktarhreyfingin hérlendis sannarlega þakka fyrir að eiga slíkan liðsmann.

Skógræktarfólki um allt land sem vill gleðja og heiðra Vigdísi á þessum tímamótum er bent á Styrktarsjóð Stofnunar Vigdísar https://vigdis.hi.is/stofnunin/styrktarsjodur/ en Vigdís er formaður sjóðsins og hefur verið frá upphafi. Vigdís hefur oft látið þess getið að Stofnun Vigdísar og starfsemi hennar sé henni afar hugleikin.

Þess má til gamans geta að Vigdís og Skógræktarfélag Íslands eru jafnaldrar, en félagið fagnar 90 ára afmæli þann 27. júní næst komandi.

 

 

 

Vigdís Finnbogadóttir við gróðursetningu í Borgarnesi árið 2015, en það ár var efnt til gróðursetninga um land allt í tilefni þess að þá voru 35 ár frá því að hún var kosin forseti (Mynd: RF).

Vigdís Finnbogadóttir við gróðursetningu í Borgarnesi árið 2015, en það ár var efnt til gróðursetninga víða um land í tilefni þess að þá voru 35 ár liðin frá því hún var kosin forseti (Mynd: RF).