Skógræktarfélag Íslands óskar Helga Hallgrímssyni til hamingju með að hafa hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011 í flokki fræðirita fyrir Sveppabókina.
Helgi hefur unnið að bókinni í hartnær tvo áratugi, en hún kom út nú í haust. Í bókinni er farið yfir það helsta tengt sveppum hérlendis, meðal annars er fjallað um mat- og eitursveppi, ræktun matsveppa, sögu svepparannsókna hérlendis og fjölmörgum íslenskum tegundum lýst í máli og myndum, með áherslu á nytjasveppi og sveppi er geta skaðað fólk, dýr, ræktaðar plöntur eða matvæli. Sveppabókin er byggð á könnun og söfnun Helga á íslenskum sveppum í 50 ár, auk rannsókna fjölmargra annarra fræðimanna í yfir eina öld.
Sveppir eru einn af grundvallarþáttum lífríkisins, en þá er næstum alls staðar að finna þar sem eitthvert líf þrífst. Þeir mynda svepprætur með blómplöntum og trjám og án þeirra væri skógrækt á Íslandi ekki möguleg.
(Mynd: RF).