Eitthvað er um að tré hafi brotnað eða oltið um koll í óveðrinu sem gekk yfir landið í fyrradag, 10 apríl. Húsráðendur í húsi einu í Vogahverfinu höfðu samband við Skógræktarfélag Íslands og leituðu ráða vegna lerkitrés sem slitnað hafði upp frá rótum og vildu þau fyrir alla muni bjarga trénu. Starfsmaður Skógræktarfélagsins fór á staðinn og lagði á ráðin með eigendum trésins. Tréð er tvístofna frá rót og kann það að hafa valdið því að svo fór sem fór. Ákveðið var fjarlægja annan stofninn, grafa undan trénu og setja hrossaskítur í botninn, auk þess sem holan verður víkkuð og tréð togað í rétta stöðu og stagað niður.
Andri Páll Alfreðsson vill leggja sitt af mörkum til að bjarga lerkitrénu í garðinum (Mynd: EG).
Flatrótarkerfið hefur látið undan veðurofsanum enda taka tvístofna tré mikið veður á sig (Mynd: EG).
Helga Rún Pálsdóttir trjáeigandi og búningahönnuður og Einar Gunnarsson skógfræðingur vinna við fyrsta áfanga björgunaraðgerða (Mynd: Andri Páll Alfreðsson).