Skógræktarfélag Borgarfjarðar efnir til skógardags laugardaginn 16. júní í Reykholti í Borgarfirði. Skógræktarfélagið stendur fyrir ýmsum uppákomum á árinu og hvetur almenning til þátttöku í mótun umhverfisins, til að fegra það og bæta.
Á laugardaginn er ætlunin að sjálfboðaliðar taki þátt í að gróðursetja nokkur þúsund trjáplöntur í skóginum við Reykholt. Hann er ört vaxandi og vænlegur til að bæta veðurskilyrði til búnaðar og indælla mannlífs í Reykholtsdal innan fárra ára ásamt fleiri skógum sem bændur hafa verið að hlúa að og rækta undanfarin ár. Byrjað verður að gróðursetja kl. 16 á laugardaginn og stjórnar Friðrik Aspelund þessum starfsdegi sem Skógræktarfélag Borgarfjarðar efnir til og hvetur samborgarana til að taka þátt.
Stjórn Skógræktarfélags Borgarfjarðar