Skip to main content

Skógræktarfélag Íslands hefur um áratugaskeið safnað saman tölulegum upplýsingum um afmarkaða þætti skógræktarstarfsins hér á landi, svo sem fjölda gróðursettra plantna, fræsöfnun, seld jólatré og viðarafurðir og margt fleira. Í þessum tölum má finna ýmsar áhugaverðar upplýsingar um umfang og eðli skógræktar hér á landi.

Árið 1999 birtist grein í Skógræktarritinu eftir Jón Geir Pétursson, er nefndist „Skógræktaröldin“ og var skrifuð í tilefni þess að þá voru 100 ár liðin frá formlegu upphafi skógræktar hér á landi. Í greininni var birt yfirlit yfir afhentar gróðursetningar fyrstu hundrað áranna. Hér má sjá hvernig fjöldi plantna hefur þróast síðan greinin kom út. Árið 1999 var mikil uppsveifla í fjölda plantna í gangi, í kjölfar Landgræðsluskógaátaksins 1990 og tilkomu bændaskógræktar í gegnum landshlutabundin skógræktarverkefni undir lok áratugarins. Bankahrunið 2008 hafði svo slæm áhrif, því fjöldi gróðursettra plantna dróst saman um nær helming á tímabilinu á eftir. Aukinn áhugi á kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu og fyrsti vísir að vinnslu efniviðar úr skógum hefur svo hin síðari ár skilað sér í auknum fjölda gróðursettra plantna.

Jólatré fóru fyrst að sjást á íslenskum heimilum á seinni hluta 19. aldar. Á þeim tíma voru lifandi tré innflutt, enda engin barrtré sem uxu þá á Íslandi, utan einis, sem hefur hvorki hefðbundna jólatrjáalögun né stærð. Um leið og ræktun barrtrjáa hófst fóru að koma jólatré úr íslenskum skógum. Heildarmarkaður fyrir jólatré hérlendis er í kringum fimmtíu þúsund tré og hafa íslensk tré verið um fimmtungur þeirra. Lengi vel var það Skógræktin (áður Skógrækt ríkisins) sem framleiddi mest af trjánum, en það breyttist um síðustu aldamót. Hafa skógræktarfélögin tekið töluvert við keflinu og á allra síðustu árum eru svo skógarbændur að koma inn líka.

Meðal fyrstu afurða sem komu úr íslenskum skógum voru jólatré. Framan af var það rauðgreni sem var „íslenska“ jólatréð enda töluvert sett niður af greni á fyrstu áratugum 20. aldar. Samsetningin hefur hins vegar breyst töluvert – nú er það stafafura sem er komin í fyrsta sætið, en rauðgreni verður að sætta sig við „silfrið“. Aðrar helstu tegundir eru blágreni, sitkagreni og fjallaþinur, en samanlagt eru þessar fimm tegundir með rúmlega 96% markaðarins. Restin er svo samsafn ýmissa trjátegunda, meðal annars síberíuþins og lindifuru. Meira að segja eru til dæmi um fólk sem nýtt hefur lerki sem jólatré, með því að taka það snemma inn með rót og láta það lifna við inni!

 

Skógrækt hefur nú verið stunduð hér á landi í á aðra öld, en skógræktargeirinn var lengst af smár í sniðum miðað við aðrar atvinnuvegi hérlendis og mikið af starfi innan geirans unnið í sjálfboðaliðavinnu hjá skógræktarfélögum. Skógræktargeirinn hefur hins vegar verið almennt vaxandi undanfarna áratugi og þar með fjölgað störfum innan hans. Safnað hefur verið gögnum um launuð störf innan skógræktar, sem hluta þeirrar tölfræði skógræktar sem birt er árlega í Skógræktarritinu. Frá og með árinu 2017 störfum einnig verið safnað upplýsingum um kynjahlutfall starfanna. Konur eru um þriðjungur þeirra sem starfa (á launum) innan skógræktar og hefur hlutfallið haldist þrátt fyrir breytingar í fjölda starfa. Reyndar er þetta álíka hlutfall og þekkist í ýmsum nágrannalöndum, t.d. Kanada og Skotlandi.