Skip to main content

Skógarleikarnir 2019

Með 4. júlí, 2019Fréttir

Skógarleikarnir verða haldnir laugardaginn 6.júlí frá kl. 13.00-17.00 í Heiðmörk. Skógarleikarnir eru nú orðinn árlegur viðburður hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur og stemmningin alltaf einstök.

Að vanda mun fagfólk í skógarhöggi keppa í skógaríþróttum þar sem tekist er á í æsispennandi keppni. Keppt er í hefðbundnum skógarhöggsgreinum svo sem afkvistun trjábola, nákvæmnisfellingu, axarkasti, sporaklifri og bolahöggi.

Samhliða keppninni er ævintýraleg stemmning í lundinum þar sem dregnir verða fram töfrar skógarins á margvíslegan hátt.

Tálgun hefur notið mikilla vinsælda síðustu ár þar sem gestir á öllum aldri geta spreytt sig undir handleiðslu Benedikts Axelssonar. Þátttakendum eru kennd undirstöðu atriðin í því hvernig hægt er að tálga úr ferskum viði.

Orri arboristi og Sebastian Morgenstjerne frá Trjáprýði munu kynna vinnubrögð trjáklifrara á mjög sjónrænan hátt.

Johan Grønlund mun kynna hvernig hægt er að vinna skúlptúra úr trjábolum með keðjusög. Þess má geta að Johan verður með námskeið í skúlptúragerð með keðjusög í vikunni eftir Skógarleikana.

Gústaf Jarl Viðarsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélaginu, mun fræða áhugasama um kolefnisbindingu trjáa með fróðlegri leiðsögn um skóginn

Skógurinn geymir einnig mikið af hráefnum til jurtalitunar. Hulda Brynjólfsdóttir mun kynna fyrir gestum hvaða jurtir gefa hvaða lit og hvernig hægt er að nýta þær til litunar. Hún mun vera með litunarlög mallandi í pottum þar sem gestir geta fylgst með ferlinu

Axarkastið hefur ávallt verið vinsælt og nú munu Berserkir leiðbeina gestum í axarkastinu

Skógarleikjatjaldið verður svo reist að vanda og mun seiðkona taka vel á móti gestum og bjóða upp á töfrastund í tjaldinu.

Eldsmiður mætir á svæðið og hamrar járnið yfir logandi eldinum, ásamt því að rista ilmandi möndlur.

Boðið verður upp á að grilla snúrubrauð yfir varðeldi og boðið upp á rjúkandi ketilkaffi í lundinum ásamt grillveislu í boði Skógræktarfélags Reykjavíkur.

 

Skógarleikarnir eru á instagram: skograektarfelagreykjavikur og á Facebook.