Skógræktarfélag Reykjavíkur efnir til Skógarleika laugardaginn 1. júlí, þeirra þriðju í röðinni. Eins og fyrri ár verður ævintýraleg stemning í Furulundi þar sem gestir á öllum aldri njóta töfra skógarins. Skógarhöggsmenn leiða saman hesta sína og keppa í hefðbundnum skógarhöggsgreinum svo sem axarkasti, sporaklifri, bolahöggi og afkvistun trjábola. Gestir fá tækifæri til að spreyta sig á axarkasti og Orri arboristi sýnir trjáklifur í línu.
Í ár verður gestum einnig boðið í upplifunargöngu um skóginn undir leiðsögn Ólafs Oddssonar þar sem leyndardómar skógarins verða afhjúpaðir. Þá geta yngstu gestirnir spreytt sig á að tálga nýhöggvinn við og fylgst með eldsmiði hamra heitt járnið yfir logandi eldi. Teepee tjald verður reist og þar verður hægt að kjarna sig undir seiðandi stemmningu.
Gestum er svo að sjálfsögðu boðið í grillveislu þar sem skógarbrauð á priki, pylsur og annað góðgæti verður grillað yfir varðeldi og rjúkandi ketilkaffi verður einnig á boðstólum.
Skógræktarfélagið bíður alla hjartanlega velkomna í Furulund!
Laugardaginn 1. júlí frá kl. 13 – 17 í Furulundi í Heiðmörk
Fylgist með okkur:
Facebook: Skógræktarfélag Reykjavíkur – https://www.facebook.com/events/145926465968925/
Snapchat: heidmork
Allar frekari upplýsingar veitir Guðfinna Mjöll Magnúsdóttir í síma 690-9874.