Skógræktarfélag Borgarfjarðar heldur ljósagöngu um skógarstíga í Reykholti á laugardaginn 28. október kl. 18:00. Gangan hefst við Höskuldargerði. Þátttakendur eru hvattir til að hafa með sér luktir, kerti eða annað ljós til að glöggva sig á aðstæðum og lýsa upp forvitnilega grósku á leiðinni. Auk þess munu heimamenn, sr. Geir Waage og Óskar Guðmundsson í Véum, gera tilraun til að bregða birtu yfir óljós atriði í myrkviðum skógarins. Fyrir sumum mun þetta kannski verða eina ljósglætan þennan dag – kjördag!
Að lyktum verður kveiktur varðeldur og boðið upp á ljúffenga skógarsnúða og ketilkaffi. Miðað er við að fólk komist heim fyrir kosningavöku í sjónvarpinu.