30 ár eru liðin frá því byrjað var að planta í reit Skógræktarfélags V-Húnvetninga að Kirkjuhvammi. Í tilefni þess stóð Skógræktarfélagið fyrir skógargöngu frá Hvammstanga upp í Hvamm fimmtudaginn 6. Ágúst og leiddu Þorvaldur Böðvarsson, formaður Skógræktarfélagsins, og Karl Sigurgeirsson gönguna. Á leiðinni var margt áhugavert skoðað undir leiðsögn þeirra félaga, auk þess sem minnst var ýmissa atburða í sögu skógræktar á svæðinu.
Að lokinni göngu um Kirkjuhvamm voru afhjúpuð tvö upplýsingaskilti um skógarsvæðið og gerðu það Þorvaldur Böðvarsson og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands. Einnig færði Magnús Skógræktarfélagi V-Húnvetninga að gjöf þrjú tré – gráelri og alaskaepli – sem vonandi koma til með að dafna jafn vel og önnur tré sem sett hafa verið þarna niður. Dagskránni lauk svo með grillveislu með ýmsu góðgæti.
![]() |
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og Þorvaldur Böðvarsson, formaður Skógræktarfélags V-Húnvetninga, afhjúpa nýtt skilti í skóginum (Mynd: Sk. V-Húnvetninga). |
![]() |
Þorvaldur Böðvarsson, Karl Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri og athafnamaður á Hvammstanga og Haraldur Tómasson, læknir, en hann var ötull í skógræktinni við upphaf ræktunar í Hvamminum (Mynd: Sk.V-Húnvetninga). |