30 ár eru liðin frá því byrjað var að planta í reit Skógræktarfélags V-Húnvetninga að Kirkjuhvammi. Í tilefni þess stóð Skógræktarfélagið fyrir skógargöngu frá Hvammstanga upp í Hvamm fimmtudaginn 6. Ágúst og leiddu Þorvaldur Böðvarsson, formaður Skógræktarfélagsins, og Karl Sigurgeirsson gönguna. Á leiðinni var margt áhugavert skoðað undir leiðsögn þeirra félaga, auk þess sem minnst var ýmissa atburða í sögu skógræktar á svæðinu.
Að lokinni göngu um Kirkjuhvamm voru afhjúpuð tvö upplýsingaskilti um skógarsvæðið og gerðu það Þorvaldur Böðvarsson og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands. Einnig færði Magnús Skógræktarfélagi V-Húnvetninga að gjöf þrjú tré – gráelri og alaskaepli – sem vonandi koma til með að dafna jafn vel og önnur tré sem sett hafa verið þarna niður. Dagskránni lauk svo með grillveislu með ýmsu góðgæti.
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og Þorvaldur Böðvarsson, formaður Skógræktarfélags V-Húnvetninga, afhjúpa nýtt skilti í skóginum (Mynd: Sk. V-Húnvetninga). |
Þorvaldur Böðvarsson, Karl Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri og athafnamaður á Hvammstanga og Haraldur Tómasson, læknir, en hann var ötull í skógræktinni við upphaf ræktunar í Hvamminum (Mynd: Sk.V-Húnvetninga). |