Skip to main content

Samningur undirritaður í Garðabæ um störf eitt hundrað ungmenna í sumar

Með 8. júlí, 2010febrúar 13th, 2019Skógræktarverkefni

Síðast liðinn þriðjudag undirrituðu Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands, og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar, samning um atvinnuátak sem mun skapa 100 ungmennum í Garðabæ vinnu við margvíslega umhirðu og ræktunarverkefni í tvo mánuði á þessu sumri. Samningurinn er hluti af sameiginlegu verkefni sem Skógræktarfélag Íslands í samvinnu við samgönguráðuneytið hóf á síðasta ári.

Verkefnin sem ungmennin vinna að eru ýmis konar ræktunar- og umhirðuverkefni á svæðum Skógræktarfélags Garðabæjar, m.a. í Smalaholti og Sandahlíð. Á umræddum svæðum hefur Skógræktarfélag Garðabæjar unnið að ræktun útivistarskógar á annan áratug. Skógurinn er smám saman að verða að veruleika en þar hafa komið að gróðursetningu og ræktun fjölmargir sjálfboðaliðar, einstaklingar, samtök og stofnanir. Með vinnu og umhirðu á svæðunum, svo sem stígagerð, og uppbygginu á áningarstöðum, er sköpuð enn betri aðstaða fyrir gesti. Eftir því sem trén hafa stækkað hafa íbúar í vaxandi mæli heimsótt svæðin og með betri aðstöðu er hægt að fylgja eftir brýnni þörf á bættu aðgengi.

Atvinnuátak Skógræktarfélags Íslands og samgönguráðuneytisins hófst á síðasta ári og var hugsað sem þriggja ára verkefni árin 2009-2011. Í fyrra voru sköpuð störf fyrir tæpa 400 einstaklinga og það sem af er þessu ári hafa verið sköpuð 230 störf hjá 9 aðildarfélögum með fulltingi og aðkomu jafn margra sveitarfélaga. Vonir standa til að á næsta ári verði hægt að bæta um betur og skapa vinnu fyrir enn fleiri einstaklinga til að slá á ríkjandi atvinnuleysi ungs fólks.

samningurgbr
Barbara Stanzeit, Gunnar Einarsson og Magnús Gunnarsson við undirritun samningsins (Mynd: BJ).