Skip to main content

Samningur um Opinn skóg

Með 28. júní, 2016febrúar 13th, 2019Skógræktarverkefni

Undirritaður hefur verið samningur á milli Skógræktarfélags Íslands og Icelandair Group um stuðning til þriggja ára við verkefnið Opinn skóg, en það lýtur að uppbyggingu aðstöðu til útivistar á skógræktarsvæðum. Icelandair Group mun styrkja verkefnið um 4 milljónir króna á ári eða alls 12 milljónir króna á tímabilinu. Nú þegar hafa verið opnaðir fimmtán skógar undir merkjum Opins skógar. Á svæðunum hefur verið komið fyrir útivistaraðstöðu, s.s. skógarstígum, merkingum og leiðbeiningum.

Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands: „Stuðningur Icelandair Group er mikilsverður og gerir skógræktarfélaginu kleift að halda verkefninu áfram af fullum krafti og vinna að viðhaldi og uppbyggingu fleiri svæða. Markmiðið með samningnum er meðal annars að veita almenningi gott aðgengi að skógræktarsvæðunum, og miðla og kynna almenningi alhliða upplýsingar um tré og skóg.“

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group segir Skógræktarfélag Íslands hafa unnið ómetanlegt starf við uppbyggingu Íslands um áratugaskeið. „Með því að styrkja skógræktarstarf í landinu sýnum við þakklæti okkar í verki og stuðlum að því að almenningur og ferðamenn hafi greiðan aðgang að skógi á fjölmörgum stöðum um land allt.“

 

samninguros

Samninginn undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands (t.v.) og Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.