Skógurinn í Skarðdal á Siglufirði var formlega opnaður sem Opinn skógur föstudaginn 14. ágúst. Var opnunin hluti af Aðalfundi Skógræktarfélags Íslands, sem haldinn var á Akureyri dagana 14. -16. ágúst. Einnig fagnar Skógræktarfélag Siglufjarðar, sem ræktaði upp skóginn í Skarðdal, 75 ára afmæli á árinu.
Af þessu tilefni var efnt til hátíðardagskrár í skóginum. Fjöldi manns, bæði fundargestir aðalfundar og heimamenn á Siglufirði, mættu á opnunina í blíðskaparveðri. Hófst athöfnin með því að Kristrún Halldórsdóttir, formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar, bauð gesti velkomna. Að loknum lúðraþyt var skógurinn svo formlega opnaður þegar Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra og hjónin Páll Samúelsson og Elín Jóhannesdóttir klipptu á borða við stíg inn í skóginn.
Gestir gengu því næst í Árhvamm þar sem efnt var til hátíðardagskrár. Ávörp fluttu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Fjallabyggðar og Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra. Páll Helgason flutti svo frumsamið afmælisljóð, í tilefni afmælis Skógræktarfélags Siglufjarðar og hljómsveitin Heldri menn spilaði fyrir gesti. Einnig var boðið upp á kaffihressingu og sérstaka dagskrá fyrir börn. Gestir nýttu einnig tækifærið til að skoða sig um í skóginum, en í honum er gott stígakerfi og margt fallegt að sjá.
Markmiðið með verkefninu Opinn skógur er að opna skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaganna og gera þau aðgengileg almenningi.