Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, opnaði Laugalandsskóg á Þelamörk formlega sem Opinn skóg sunnudaginn 26. ágúst. Af því tilefni var efnt til hátíðar- og skemmtidagskrár fyrir alla fjölskylduna í skóginum.
Hófst dagskráin með ávarpi Sigrúnar Stefánsdóttur, formanns Skógræktarfélags Eyfirðinga, en því næst opnaði Vigdís Finnbogadóttir skóginn formlega með því að klippa á borða við stíg inn í skóginn. Var því næst gengið að lundi í skóginum, en þar fluttu ávörp, auk Vigdísar, þau Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Bjarni Guðleifsson, fulltrúi Hörgárbyggðar, Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra og Margrét Sveinsdóttir, fulltrúi Arion-banka, en bankinn er megin styrktaraðili Opinna skóga, ásamt Skeljungi. Einnig flutti Jóhanna Oddsdóttir frumsamið ljóð um skóginn og Helgi og hljóðfæraleikararnir tóku lagið á milli atriða. Lauk samkomunni svo með hressingu í boði Skógræktarfélags Eyfirðinga – dýrindis bakkelsi og ketilkaffi að hætti skógarmanna. Lögðu um hundrað manns leið sína í skóginn af þessu tilefni og áttu ánægjulega stund í blíðskaparveðri.
Markmiðið með verkefninu „Opinn skógur“ er að opna fjölmörg skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaga og gera þau aðgengileg almenningi. Verkefnið nýtur styrkja frá Skeljungi og Arion banka. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi sé góð og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu.
Myndir frá opnun má skoða á Facebook-síðu Skógræktarfélagsins (hér).