Fyrsta Opna hús ársins 2010 verður þriðjudagskvöldið 9. febrúar og hefst kl. 20:00, í fundarsal á jarðhæð Arion-banka, Borgartúni 19. Gengið er inn um aðaldyr að austanverðu og er salurinn svo á vinstri hönd.
Brynjólfur Jónsson og Johan Holst munu segja í máli og myndum frá skógarferð til Noregs, sem Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir síðasta haust, en hún var farin í tilefni þess að 60 ár voru liðin frá því Skógræktarfélag Íslands stóð fyrst fyrir fræðsluferð á erlenda grundu.
Ferðasagan verður rakin og fjallað um skóga, trjátegundir og skógarnytjar, en Norðmenn eru mikil skógaþjóð. Undanfarin ár hefur Skógræktarfélagið staðið fyrir vinsælum kynnisferðum til annarra landa. Þetta hafa verið fjölsóttar ferðir, þar sem leið ferðalanga liggur oft um óhefðbundnar slóðir, fela í sér mikla náttúruskoðun og góða leiðsögn
Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.
Firðir, skógar og hefðbundin hús í Noregi (Mynd: RF).