Í sumar var unnið að ýmsum verkum á skógræktar- og útivistarsvæðum í Garðabæ, undir leiðsögn Skógræktarfélags Garðabæjar. Var það hluti af atvinnuátaksverkefni Skógræktarfélags Íslands, í samvinnu við Skógræktarfélag Garðabæjar og Garðabæ. Unnið var að ýmsum verkefnum, svo sem ruslatínslu, áburðargjöf á trjáplöntur og heftingar útbreiðslu lúpínu, en stærsti verkþátturinn var stígagerð. Borið var ofan í eldri stíga og lagður nýr stígur í Smalaholti.
Mánudaginn 21. september var nýi stígurinn í Smalaholti vígður formlega og mættu á fjórða tug manna til vígslunnar. Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar flutti ávarp og því næst opnaði hún stíginn formlega með því að klippa á borða yfir hann. Naut hún við það aðstoðar Magnúsar Gunnarssonar, formanns Skógræktarfélags Íslands. Að klippingu lokinni var stígurinn blessaður af séra Hans Guðberg Alfreðsson og fengu gestir eftir það að prófa stíginn og ganga hringinn eftir honum. Í lokin var gestum boðið upp á heitt kakó í tilefni dagsins og flutti Magnús Gunnarsson þá stutt ávarp.
Stígurinn er vel gerður uppbyggður stígur og er alls á annan kílómetra á lengd. Er hann fyrsti áfangi af innstígum í Smalaholti, sem félagið lét skipuleggja ásamt áningarstöðum í tilefni 20 ára afmælis félagsins.
Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Erla Bil Bjarnardóttir, formaður Skógræktarfélags Garðabæjar, klippa á borða og opna þar með formlega nýja stíginn (Mynd: Sk. Garðabæjar).