Dagana 11. -20. ágúst 2005 gekkst Skógræktarfélag Íslands fyrir kynnisferð til Nýfundalands í Kanada. Góð þátttaka var í ferðinni, eða 86 manns. Lögð var áhersla á að skoða fjölbreytta náttúru þessa áhugaverða lands, þjóðgarða, skóga og skógrækt.
Um skipulagningu ferðarinnar á Nýfundnalandi sá Íslandsvinurinn Alexander (Sandy) Robertson í samvinnu við starfsmenn Skógræktarfélags Íslands. Var Sandy einnig íslenskum fararstjórum innan handar alla ferðina, en þeir voru Jón Geir Pétursson og Einar Gunnarsson hjá Skógræktarfélagi Íslands og Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknarstöðvar Skógræktar á Mógilsá, sem sá einnig um túlkun.
Þetta var einstakt tækifæri til þess að ferðast um Nýfundnaland undir leiðsögn heimamanna og kynnast náttúrufegurð og sagnaslóðum (sjá má kort yfir leiðina í tengli hér til hægri). Ferðin hófst á austurströnd Nýfundnalands, en flogið var beint til höfuðborgarinnar St. John’s. Næstu tvo daga var ekið til vesturs til Grand Falls og Corner Brook og margt áhugavert skoðað á leiðinni tengt skógrækt og skógariðnaði og sögu, laxveiði og almennri sögu. Eftir það var haldið norður á bóginn, þar sem skoðaðir voru skógar og skógrækt og ýmis merkileg náttúrufyrirbrigði innan og utan þjóðgarða og náttúruverndarsvæða. Þar má helst nefna til þá tvo staði á Nýfundnalandi sem eru á Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna – Gros Morne þjóðgarðinn og L’Anse aux Meadows eða Leifsbúðir. Seinni staðurinn er náttúrulega betur þekktur Íslendingum og öðrum afkomendum víkinga, en þar eru einu minjarnar sem fundist hafa um byggðir norrænna manna í Norður-Ameríku.
Því næst var haldið nær sömu leið til baka til St. John’s, en á leiðinni voru skoðaðir skógar, merkileg jarðfræði og nokkrir hefðbundnari „túristastaðir”, s.s. fiðrildasafn og víngerð. Seinasti dagurinn var svo frjáls og nýtti fólk sér það vel til að skoða það sem því fannst áhugaverðast í nágrenni St. John’s. Ferðin gekk í alla staði vel. Sólskin og blíða var nær alla ferðina og alls staðar var vel tekið á móti gestunum, en Nýfundlendingar reyndust vera einstaklega gestrisið og rausnarlegt fólk og kom fólk því brúnt og sællegt heim.
Í 2. tbl. Skógræktarritsins 2005 er grein um ferðina og má lesa hana hér (pdf).