Skip to main content

Lög félagsins

1. GREIN
Nafn félagsins er Skógræktarfélag Íslands. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. GREIN
Félagið er samband skógræktarfélaga í landinu. Það starfar sjálfstætt, er málsvari félaganna, gætir hagsmuna þeirra og kemur fram fyrir þeirra hönd þegar þörf krefur.

3. GREIN
Markmið félagsins er að vinna að framgangi skógræktar og trjáræktar í landinu og stuðla að hverskonar umhverfisbótum.

Þessu verði náð með því að:

a) Efla og styrkja skógræktarfélögin.
b) Hvetja til og stuðla að gróðurvernd og landgræðslu.
c) Veita fræðslu um skógrækt og trjárækt og gildi hvors tveggja fyrir þjóðfélagið.
d) Hvetja til, eiga frumkvæði að og taka að sér framkvæmdir að verkefnum í samvinnu við opinbera- og/eða einkaaðila til þess að efla skógrækt í landinu.
Félagið skal gefa út fræðslurit, svo og önnur rit um skógrækt og skyld málefni auk fræðslurita eftir því sem þurfa þykir. Félaginu er heimilt að eiga aðild að skógræktarframkvæmdum í samráði við skógræktarfélög á viðkomandi svæðum.

4. GREIN

Aðild að Skógræktarfélagi Íslands geta átt:

a) Skógræktarfélög og önnur félög, sem hafa skógrækt á stefnuskrá sinni, og stjórn Skógræktarfélags Íslands samþykkir. Þau skulu greiða árstillög er aðalfundur ákveður.
b) Heiðursfélagar kosnir af aðalfundi.

5. GREIN
Aðalfundur kýs stjórn félagsins. Í stjórninni skulu vera formaður, sex stjórnarmenn og þrír í varastjórn. Formaður félagsins skal kosinn beinni kosningu á aðalfundi til þriggja ára í senn en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum, það er kýs varaformann, ritara og féhirði úr hópi stjórnarmanna. Kjörtímabil stjórnarmanna er þrjú ár og ganga tveir úr stjórn á hverju ári. Kjörtímabil varamanna er eitt ár og skal afl atkvæða í kosningum ráða því, hver þeirra er kallaður til stjórnastarfa, ef aðalmaður forfallast. Aðalfundur kýs enn fremur tvo skoðunarmenn rekstar- og efnahagsyfirlits fyrir félagið og tvo til vara. Stjórnin annast rekstur félagsins og tekur ákvarðanir fyrir þess hönd milli aðalfunda.

6. GREIN
Aðalfundur félagsins skal haldinn árlega og ákveður stjórnin stað og fundartíma. Boða skal til fundarins bréflega með minnst mánaðar fyrirvara.

Á dagskrá aðalfundar skal vera:

a) Skýrsla um störf félagsins á liðnu starfsári.
b) Lagður fram rekstrar-og efnahagsreikningur til samþykktar. Endurskoðandi skal veita faglega aðstoð við gerð reiknings Skógræktarfélags Íslands. Reikningur skal hafa að geyma skýrslu stjórnar, rekstrarreikning, efnahagsreikning, yfirlit um breytingu á eigin fé, yfirlit um sjóðstreymi, upplýsingar um mikilvægar reikningsskilaaðferðir, aðrar skýringar og sundurliðanir í samræmi við lög um ársreikninga nr. 3/2006. Reikningurinn miðast við almanaksár..
c) Lögð fram mál og tillögur.
d) Skipað í nefndir.
e) Umræða og afgreiðsla mála.
f) Lagabreytingar.
g) Kosningar samkv. lögum félagsins.
h) Önnur mál, sem upp kunna að verða borin.

Aðalfundur kýs heiðursfélaga að fengnum tillögum stjórnar. Stjórn félagsins er heimilt að boða til aukafundar telji hún þess þörf.

7. GREIN

Á aðalfundi eiga sæti:

a) Kjörnir fulltrúar héraðsskógræktarfélaga og annarra félaga í Skógræktarfélagi Íslands sbr. 4 . gr., einn fyrir hverja eitt hundrað ( -100 -) félaga eða færri.
b) Stjórn og starfsfólk Skógræktarfélags Íslands og aðrir sem stjórn félagsins ákveður að bjóða hverju sinni, sbr. 8. grein.
c) Heiðursfélagar Skógræktarfélags Íslands.

8. GREIN
Heimilt er að veita félagsmönnum í skógræktarfélögum, starfsmönnum skógræktarfélaga, starfsmönnum skógræktarverkefna og fulltrúum félagasamtaka, sem vinna að skógrækt, rétt til fundarsetu. Ósk um slíka fundarsetu þarf að berast stjórn Skógræktarfélags Íslands a.m.k. tveimur vikum fyrir fund. Fjöldi fundarmanna skal háður samþykki stjórnar samkvæmt reglum sem stjórnin setur.

9. GREIN
Kjörnir fulltrúar samkvæmt a) lið 7. gr., hafa kosningarrétt. Aðrir fulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt.

10. GREIN
Stjórn félagsins ræður starfsmenn þess og setur þeim erindisbréf. Hún gætir eigna félagsins og sjóða sem kunna að vera í vörslu þess.

11. GREIN
Stjórn Skógræktarfélags Íslands er skylt að fylgjast með störfum aðildarfélaganna og aðstoða þau eftir því sem tilefni gefst. Hún getur að eigin frumkvæði boðað til aðalfundar aðildarfélags hafi hann ekki verið haldinn tvö síðustu ár. Stjórninni er heimilt að boða til formannafunda.

12. GREIN
Lögum þessum verður eigi breytt nema á aðalfundi og þarf til þess 2/3 atkvæða fulltrúa á fundinum. Tillögur til lagabreytinga skulu kynntar með fundarboði.

13. GREIN
Komi fram tillaga þess efnis að slíta félaginu þarf að leggja hana fram á aðalfundi og skal tillagan fylgja fundarboði. Áður skal ræða tillöguna á félagsfundi sem ekki skal haldinn skemur en tveimur mánuði fyrir aðalfundinn.  Félaginu verður ekki slitið nema með samþykki ¾ hluta greiddra atkvæða á aðalfundinum.  Stjórn skipar 3ja manna skilanefnd úr sínum hópi sem ráðstafar eignum félagsins til aðildarfélaga Skógræktarfélags Íslands samkvæmt ákvörðun skilanefndar og gögnum til Þjóðskjalasafns.

Samþykkt á aðalfundi í Neskaupstað í september 2024.