Eik er sjaldgæf tegund og hefur lengi þótt of hitakær til að geta þrifist hér landi. Því vakti það nokkra furðu starfsmanna Skógræktarfélags Reykjavíkur, þegar þeim var bent á 6,30 metra háa eik í garði við Háagerði 11 hér í borg. Var eikin mæld og skoðuð, kannaður uppruni hennar og saga og ákveðið að efna til leitar að hæstu eik landsins eða einhverri sem gæti þá hugsanlega skákað Háagerðiseikinni.
Eikin í Háagerði var gróðursett 1982 og hafði þá verið í dvala í kjallara hússins í heilan áratug! Upphaflega var hún sótt í skóg utan við borgina Vaxjö í Svíþjóð. Þetta er að öllum líkindum tegund sem Svíar kalla sumareik (Quercus robur).Vaxjö er í Smálöndunum og álíka norðarlega og miðhluti Skotlands.
Þeir sem vita um stæðilegar eikur hér á landi eru vinsamlegast beðnir um að senda Skógræktarfélagi Reykjavíkur upplýsingar um þær. Tengiliður: kristjan(hjá)skograekt.is, sími 856-0058.
Eikin í Háagerði 11 (Mynd: RF).