Kolviður hefur undirritað samstarfssamning við Lionsklúbb Keflavíkur og Skógræktarfélag Suðurnesja. Samstarfið lýtur að því að Lionsklúbbur Keflavíkur mun hvetja fyrirtæki og einstaklinga á Suðurnesjum til úrbóta í loftslagsmálum með því að kolefnisbinda hjá Kolviði og mun Lionsklúbburinn fá hlutfall af þeim viðskiptum sem til koma vegna hvatningar þeirra. Mun Lionsklúbburinn svo nýta hluta þeirrar upphæðar sem í þeirra hlut kemur til að styðja Skógræktarfélag Suðurnesja til ræktunar á yndisskógi við Seltjörn.
Boðið verður upp á þann möguleika á heimasíðu Kolviðar að merkja kaup á kolefnisbindingu Lionsklúbbnum og er sá möguleiki í vinnslu.
Frá undirritun samningsins: Rafn Benediktsson (sitjandi t.v.) frá Lionsklúbbi Keflavíkur og Berglind Ásgeirsdóttir (sitjandi t.h.) frá Skógræktarfélagi Suðurnesja setja nöfn sín á samninginn, ásamt Reyni Kristinssyni, formanni Kolviðar (lengst til hægri). Mynd: BJ