Jólatrjáasala verður á Fossá í Hvalfirði helgarnar 7.-8. og 14.-15. desember, kl. 11-15.
Einstaklingum sem og starfsmannafélögum eða öðrum hópum gefst nú, eins og undanfarin ár, frábært tækifæri til að koma að Fossá í Kjós og ná sér í jólatré.
Jólatrén eru seld eftir hæð:
Að 1,5 m: kr. 6.700
1,5-2 m: kr. 8.900
2-2,5 m: kr. 13.700
Þegar komið er að Fossá er hægt að fá lánaða sög og leiðbeiningar starfsfólks um hvar megi sækja tré og hvernig skuli bera sig að (ef þið eigið góða sög endilega taka hana með!).
Þegar tréð hefur verið valið og fellt stendur til boða aðstoð við að pakka trénu inn í net sé þess óskað. Hægt er að greiða fyrir tréð/ trén hvort sem er með peningum, korti eða leggja beint inn á reikning. Öll vinna við sölu trjánna er unnin í sjálfboðavinnu og er afrakstur sölunnar notaður til að gróðursetja fleiri tré á Fossá og styrkja svæðið enn frekar sem útivistarsvæði.
Skógurinn að Fossá er Opinn skógur og öllum velkomið að njóta hans árið um kring.
Hvernig kemst ég að Fossá?
Jörðin Fossá er frekar innarlega í Hvalfirði. Beygt er af Vesturlandsveginum inn í Hvalfjörð að sunnanverðu, skammt frá Hvalfjarðargöngunum. Leiðin liggur inn Hvalfjörðinn og er farið yfir Laxá, framhjá Hálsi í Kjós , Hvammsvík, og Hvítanesi þar sem gamla Breta-bryggjan hangir enn uppi. Næsta jörð við Hvítanes er Fossá og er svæðið vel merkt þegar komið er að.
Allir eru velkomnir í ævintýraland jólatrjáa að Fossá. Nánari upplýsingar er hægt að fá í gegnum síma 839-6700 eða í gegnum netfangið skogkop@gmail.com
Eigendur jarðarinnar eru skógræktarfélögin í Kópavogi, Mosfellsbæ, á Kjalarnesi og í Kjósarhreppi.