Hvatningarverðlaun skógræktar 2024 voru afhent við hátíðlega athöfn á Fagráðstefnu skógræktar, sem haldin er á Akureyri dagana 20.-21. mars og er þetta í fyrsta sinn sem verðlaunin eru afhent.
Kallað var eftir tilnefningum að verðlaununum í febrúar. Alls bárust tilnefningar að 24 aðilum og valdi dómnefnd úr þrjá aðila til kosninga á vef. Niðurstaða úr því lá fyrir nú í mars og var það Sigurður Arnarson sem fékk flest atkvæði. Fékk Sigurður til eignar forláta viðarskál, sem verðlaunagrip. Til gamans má geta að skálin er gerð úr grisjunarviði af Tré ársins 2006, sem er gráösp í Hafnarfirði.
Sigurður hefur skrifað fræðandi og áhugaverðar greinar um trjátegundir, skóga og skógrækt, sem birtar hafa verið á heimasíðu Skógræktarfélags Eyfirðinga og víðar. Með því hefur hann stuðlað að aukinni þekkingu fyrir bæði almenning og fólk innan skógræktargeirans. Einnig er hann höfundur bókar um belgjurtir og hefur verið virkur í umræðu um skógartengd málefni.