Hofsstaðaskógur varð Opinn skógur árið 2005.
Lýsing
Hofsstaðaskógur er helsti skógur á sunnanverðu Snæfellsnesi. Hann er skammt vestan Hofstaðabæjarins, jaðar hans við aðalþjóðveginn og hann því mjög aðgengilegur. Þar eru fánar og skilti og gott bifreiðastæði. Skógurinn hefur verið grisjaður, settar upp merkingar, borð og bekkir og lagðir göngustígar, þannig að aðstaða almennings til áningar og útivistar er til fyrirmyndar.
Skógrækt
Fyrst var plantað í Hofsstaðaskóg vorið 1956 undir forystu Þórðar Gíslasonar á Ölkeldu, sem var formaður Skógræktarfélags Heiðsynninga um langt árabil. Landið, um 12,5 ha spildu, gáfu hjónin Eggert Kjartansson og Sigríður Þórðardóttir skógræktarfélaginu. Skógurinn var formlega vígður sem Opinn skógur í tengslum við aðalfund Skógræktarfélags Íslands, þann 27. ágúst 2005. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra opnaði skóginn formlega með því að höggva í sundur væna birkigrein.
Hofsstaðaskógur er í landi Hofsstaða. Það eru þeir sömu Hofsstaðir og skáldið og náttúrufræðingurinn Eggert Ólafsson ætlaði að byggja ásamt brúði sinni. Þangað var ferðinni heitið, eftir vetrarvist hjá mági hans, séra Birni Halldórssyni í Sauðlauksdal, á tveim skipum, sem lögðu upp frá Skor á Barðaströnd, en flestir vita hvernig fór um sjóferð þá.
Það er ekki að efa að Hofsstaðaskógur mun verða með vinsælli áningarstöðum á Snæfellsnesi í framtíðinni.
Skógræktarfélag Heiðsynninga
Félagið var stofnað árið 1952. Auk Hofsstaðaskógar hefur félagið staðið fyrir ræktun Landgræðsluskóga í Hrossholti.