Skip to main content

Hálsaskógur við Djúpavog

Hálsaskógur varð Opinn skógur árið 2008.

Lýsing
Hálsaskógur er á Búlandsnesi, skammt vestan við Djúpavog. Skógurinn hefur verið grisjaður, settar upp trjátegundamerkingar og upplýsingaskilti, borð og bekkir. Þá eru þar ágætir stígar, tilvaldir til léttra gönguferða, þannig að aðstaða almennings til áningar og útivistar er til fyrirmyndar.

halsaskogur2halsaskogur1

Skógrækt
Hálsaskógur er á landi jarðanna Búlandsness og Bjargarréttar. Skógrækt hófst árið 1952 eftir að nýstofnað Skógræktarfélag Djúpavogs girti af Bjargarrétt, sem þá var hluti af Búlandsnestúninu, en hreppsnefnd úthlutaði félaginu landinu. Á upphafsárum var trjám plantað þétt, því þá var almenn þumalputtaregla sú að bara annað hvert tré myndi lifa. Annað kom hins vegar í ljós, en trén hafa þrifist vel og þurfti því töluverða grisjun til að gera skóginn aðgengilegan fyrir almenning. Hálsaskógur var formlega vígður sem Opinn skógur þann 21. júní 2008 er Kristján Þór Júlíusson alþingismaður lauk upp hliði inn í skóginn.

Ýmsir áhugaverðir staðir eru í og við Hálsaskóg. Álfheiðarskúti er hellir rétt fyrir ofan skóginn. Dregur hann nafn sitt af ungri stúlku, sem árið 1627 tókst að sleppa frá ræningjum „Tyrkja“(sem reyndar voru frá Marokkó) með því að fela sig í hellinum. Gatklettur ber nafn sitt af tveimum samsíða götum, sem tengja jarðmyndunina og skóginn, en götin eru leifar af trjástofni sem varð fyrir hrauni. Bergið á svæðinu er frá síð-míósen tíma (8,5-10 milljón ár) og á þeim tíma uxu þar ýmsar tegundir barr- og lauftrjáa, en líklegast er að barrtré hafi myndað götin, vegna þess hversu bein þau eru. Í Hálsaskógi má einnig finna tóftir, fjárrétt og fallega kletta í skóginum.

Skógræktarfélag Djúpavogs
Félagið var stofnað 24. apríl 1952 (á sumardaginn fyrsta) af þeim séra Trausta Péturssyni, Þorsteini Sveinssyni  kaupfélagsstjóra, Þorsteini Sigurðssyni lækni og Kjartani Karlssyni oddvita. Félaginu bárust góðar gjafir og fjölmargir lögðu djörfa hönd á plóg með gjöfum og sjálfboðavinnu sem sjá má að hefur borið ríkan ávöxt.

Kort af svæðinu má skoða hér (.pdf)