Föstudaginn 21. maí komu börn frá grunnskólum á öllu höfuðborgarsvæðinu saman innan síns sveitarfélags til að gróðursetja tré undir hatti Grænu bylgjunnar (Green Wave), sem er alþjóðlegt verkefni sem Samningurinn um líffræðilegan fjölbreytileika stendur fyrir í tengslum við dag líffræðilegs fjölbreytileika 22. maí. Þennan dag gróðursetja börn um víða veröld tré og mynda þannig Græna bylgju um allan heiminn, en viðburðinum er ætlað að vekja athygli á hugtakinu líffræðilegur fjölbreytileiki og leyfa skólabörnum að hafa áhrif, eitt tré og eitt skref í einu.
Skógræktarfélag Íslands, Yrkjusjóður – sjóður æskunnar til ræktunar landsins – og umhverfisráðuneytið efndu til þessa viðburðar á höfuðborgarsvæðinu, en þar var gróðursett innan hvers sveitarfélags – við Varmárskóla í Mosfellsbæ, við Gufunesbæ í Reykjavík, við Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi, við skógarreit við Tungu (rétt hjá Lindaskóla) í Kópavogi, á Smalaholti í Garðabæ, á Víðistaðatúni í Hafnarfirði og við Álftanesskóla á Álftanesi. Tókst þetta vel til, en gróðursetjarar voru á öllum aldri, frá fyrsta upp í tíunda bekk.
Fjölmennasti viðburðurinn var í Reykjavík, enda flestir skólar innan þess sveitarfélags, og mættu þangað Vigdís Finnbogadóttir, fyrir hönd Yrkjusjóðs og Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra. Auk þess mættu nemar (fullorðnir) í Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna og tóku þátt í að gróðursetja með börnunum.
Gróðursetningin er komin á heimasíðu Grænu bylgjunnar (sjá hér).
Vigdís Finnbogadóttir, ásamt nokkrum hressum krökkum við gróðursetningu við Gufunesbæ (Mynd: BJ).
Gróðursetning á Víðistaðatúni í Hafnarfirði (Mynd: RF).
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra (3. f.v.) ásamt nemum í Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna (Mynd: BJ).
Hressir krakkar í 5. bekk í Álftanesskóla við trén tvö sem sett voru niður (Mynd: RF).