Alexander „Sandy“ Robertson og kona hans Geraldine heimsóttu Skógræktarfélag A-Húnvetninga nú í lok ágúst. Páll Ingþór Kristinsson, formaður Skógræktarfélagsins, tók á móti þeim við Blönduóskirkju, þar sem þau hittu svo krakka úr 7. bekk Blönduskóla ásamt kennara. Gengu allir að Hrútey, þar sem var smá móttökuathöfn. Sandy lék á sekkjapípu eins og sönnum Skota sæmir og leyfði svo öllum að prófa sem vildu, með misjöfnum árangri, en það var mikið hlegið þegar illa eða ekki gekk að koma hljóði úr hljóðfærinu. Einnig var gróðursett tré (blágreni), sem hlaut nafnið „sekkjapíputré“. Að lokum færðu krakkarnir þeim hjónum húnverska matarkörfu frá Skógræktarfélaginu.
Síðan var genginn hringur um Hrútey og dáðst að náttúrufegurðinni þar. Eftir kaffihlé var svo haldið fram að Gunnfríðarstöðum á Bakásum og gengið um skóginn þar. Því næst var haldið aftur til Blönduóss og endað á nýsteiktum kleinum og kaldri mjólk hjá formanni Skógræktarfélagsins og konu hans.
Sandy, Geraldine og krakkarnir við gróðursetningu (Mynd: Páll Ingþór Kristinsson).
Misjafnlega gekk hjá krökkunum að ná hljóði úr sekkjapípunni hans Sandys (Mynd: Páll Ingþór Kristinsson).