Garðyrkjuverðlaun ársins verða veitt samkvæmt venju á sumardaginn fyrsta, þann 24. apríl nk. við hátíðlega athöfn á opnu húsi í Garðyrkjuskólanum á Reykjum sem nú er starfræktur undir hatti Fjölbrautaskóla Suðurlands, FSu. Með verðlaunaveitingunni vill Garðyrkjuskólinn – FSu heiðra þá sem staðið hafa sig vel í að vinna að framgangi garðyrkjunnar á ýmsum sviðum hennar. Sú hefð hefur skapast að afhenda verðlaun í þremur flokkum en fleiri en einn geta fengið verðlaun í hverjum flokki, það er í höndum dómnefndar hverju sinni að ákveða það.
Dómnefndina skipa eftirtaldir starfsmenn skólans: Björgvin Örn Eggertsson, brautarstjóri skógar og náttúru, Guðríður Helgadóttir, fagstjóri garðyrkjunáms og Guðrún Þórðardóttir, bókasafnsfræðingur.
Það er skólanum kappsmál að sem flestir komi að því að benda á þá aðila sem kemur til greina að heiðra með garðyrkjuverðlaununum. Með þessu bréfi er óskað eftir tilnefningum í þá þrjá flokka sem taldir eru upp hér fyrir neðan. Hverri tilnefningu þarf að fylgja örstutt röksemdafærsla fyrir því af hverju viðkomandi á verðlaun skilið.
Verðlaunaflokkarnir eru eftirfarandi:
- Heiðursverðlaun garðyrkjunnar. Hér er óskað eftir tilnefningum um einstaklinga sem skarað hafa fram úr á sviði garðyrkjunnar að mati atvinnulífsins og skólans.
- Verknámsstaður ársins. Hér er óskað eftir að tilnefndur verði verknámsstaður ársins 2025, staður sem hefur staðið sig sérlega vel við að leiðbeina nemendum skólans í verknámi.
- Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar. Hér er óskað eftir að tilnefndir verði aðilar sem eru að vinna að athyglisverðum og framsæknum nýjungum í greininni og eiga skilið að fá hvatningu til að halda áfram á sömu braut.
Tilnefningar þurfa að berast skólanum í síðasta lagi þriðjudaginn 8. apríl 2025 á netfangið boe@fsu.is