Skip to main content

Fyrsti Öskjuhlíðardagurinn

Með 9. maí, 2011febrúar 13th, 2019Fréttir frá skógræktarfélögum

Fyrsti Öskjuhlíðardagurinn var haldinn hátíðlegur í blíðskaparveðri síðast liðinn laugardag. Tilefni hans var undirritun samkomulags um stofnun starfshóps sem móta á samstarf Reykjavíkurborgar, Háskólans í Reykjavík og Skógræktarfélags íslands um útivistarsvæðið í Öskjuhlíð með það að markmiði að styrkja svæðið sem náttúruperlu, útivistar- og kennslusvæði.
 
Formleg dagskrá hófst með því Jón Gnarr borgarstjóri setti hátíðina kl. 11 í Sólinni, aðalbyggingu Háskólans í Reykjavík. Því næst undirrituðu Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Jón Gnarr borgarstjóri og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, undir samkomulagið. Að því loknu tók hver viðburðurinn af öðrum við, en mörg hundruð manns mættu á hátíðina og skemmtu sér vel, enda veður eins og best varð á kosið.

Við Háskólann í Reykjavík sýnd Jón Gnarr borgarstjóri gestum hvernig ætti að búa til moltu, en hann hefur gert það á sínu heimili í áraraðir og Kristinn Þorsteinsson veitti ráðgjöf og fræðslu um fræsáning og vorverkin í garðinum. Nemendur HR og Listaháskólans sýndu gagnvirk listaverk, sem vöktu mikla lukku meðal yngri kynslóðarinnar.

Rúmlega 60 manns tóku þátt í rathlaupsleik Vals og Heklu og mátti finna börn og fullorðna um alla Öskjuhlíð að reyna að fara uppgefnar brautir á sem skemmstum tíma.

Tvær fjölskyldugöngur voru farnar um Öskjuhlíðina undir leiðsögn Stefáns Pálssonar sagnfræðings, Yngva Þórs Loftssonar landslagsarkitekts og Steinar Björgvinssonar skógfræðings. Gönguferðunum lauk við stríðsminjar í hlíðinni, þar sem ljóðalestur tók við. Í fyrri göngunni voru það ljóðskáldin Gerður Kristný og Þórarinn Eldjárn sem fóru með ljóð, en í þeirri seinni Vilborg Dagbjartsdóttir og Sigurður Pálsson.

Sjá mátti skógarmenn  grisja í skóginum og einnig var stór sög á svæðinu til að saga efniviðinn sem til féll í planka.

Í Nauthólsvíkinni bauð Hjálparsveit skáta í Kópavogi upp á siglingu með bátum sveitarinnar um Fossvoginn og nýttu fjöldi barna og fullorðinna tækifærið. Auk þess fóru nokkrir í sjóbað í Nauthólsvíkinni.

Opið hús var í Opið hús var í Barnaskóla Hjallastefnunnar þar sem nemendur sýndu gestum uppáhaldsstaðina sína í Öskjuhlíðinni.

Fjölbreytt tónlist var einnig í boði. HR-bandið hitaði upp fyrir hátíðina í byrjun dags, um hádegisbil tók Ragnar Bjarnason lagið ásamt Þorgeiri Ástvaldssyni og í lok hátíðarinnar tróð Gleðisveit lýðveldisins upp.

Myndasyrpu frá hátíðinni má sjá á fésbókarsíðu Skógræktarfélags Íslands (hér).

oskjuhlid-undirskrift

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, Jón Gnarr borgarstjóri og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, skrifuðu undir samkomulag um samstarf (Mynd: RF).

oskjuhlidardagur

Boðið var upp á tvær skógargöngur með leiðsögn um Öskjuhlíðina (Mynd: RF).