Laugardaginn 7. febrúar kl 11:00 – 12:00 verður haldið námskeið á vegum Fuglaverndar og Garðyrkjufélags Íslands um garðfugla. Er námskeiðið haldið í Síðumúla 1 í Reykjavík. Steinar Björgvinsson fuglaskoðari ætlar að fræða börn um hvernig á að fóðra smáfugla í garðinum að vetri til eins og t.d. skógarþresti, snjótittlinga og svartþresti. Steinar sýnir börnunum myndir af garðfuglum, kennir þeim hvernig hægt er að búa til fuglafóður og segir þeim frá hvað fuglar vilja helst éta. Þá verður hugað að hvar best er að skilja fóðrið eftir svo kettirnir nái síður til fuglanna. Einnig verður sagt frá heppilegum hreiðurkössum, fuglaböðum og fleiru.
Foreldrar og aðrir aðstandendur barna eru hvött til að mæta með börnin á fugladag barna og fræðast um þá göfugu iðju að fóðra fugla. Þegar vetrarhörkur ríkja eiga fuglar erfiðara með að finna sér fæðu. Lífsbaráttan er hörð og þeir því oft háðir matargjöfum og þá er gott að eiga sér vin sem færir þeim fóður.
Aðgangur er frír.
Auðnutittlingur sem hefur verið lengi í fóðrum í garði ljósmyndarans Arnars Óskarssonar á Selfossi.