Skip to main content
Fréttir

Jólatrjáasölur skógræktarfélaganna síðustu daga fyrir jól

Með Fréttir

Það er enn hægt að nálgast falleg jólatré hjá nokkrum skógræktarfélögum nú síðustu dagana fyrir jól.

Skógræktarfélag Árnesinga er með jólatrjáasölu á Snæfoksstöðum helgina 21.-22. desember  kl. 11-16. Sjá nánar: https://www.facebook.com/snaefokstadir

Skógræktarfélag Borgarfjarðar er með jólatrjáasölu hjá Kaupfélagi Borgarfjarðar fram að jólum. Sjá nánar: https://www.facebook.com/skograektarfelagborgarfjardar

Skógræktarfélag Eyfirðinga er með jólatrjáasölu í Kjarnaskógi til 23. desember, kl. 10-18 (nema 10-12 á Þorláksmessu). Sjá nánar: https://www.kjarnaskogur.is/jolatre

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar í Gróðrarstöðinni Þöll við Kaldárselsveg til 23. desember kl. 10-18. Sjá nánar á: https://www.skoghf.is

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar, í Hamrahlíð til 23. desember. Opið um helgar og á Þorláksmessu kl. 10-16 en kl. 12-17 virka daga. Sjá nánar: https://www.facebook.com/SkogMos/

Skógræktarfélag Reykjavíkur  á jólamarkaðinum á Heiðmörk helgina 20.-21. desember kl. 12-17, á Lækjartorgi til 22. desember kl. 15-19 á virkum dögum og kl. 14-18 um helgar. Sjá nánar: https://www.heidmork.is

Skógræktarfélag Skilmannahrepps er með jólaskóg í Álfholtsskógi laugardaginn 21. desember kl. 12-15:30.

Skógræktarfélag Stykkishólms er með jólatrjáasölu í Sauraskógi sunnudaginn 22. desember kl. 12-15.  Sjá: https://www.facebook.com/skograekt.stykkis

 

Nánari upplýsingar á http://www.skog.is/jolatrjaavefurinn/

Skógræktarritið, 2. tbl. 2024, komið út

Með Fréttir

Annað tölublað Skógræktarritsins 2024 er nú komið út. Að venju er fjallað um hinar ýmsu hliðar skógræktar í ritinu. Að þessu sinni eru meðal annars greinar um Tré ársins 2024, gerð og gildi skógarjaðra, hvað lesa má út úr snjónum í skóginum, íslensku blæöspina, aðalfund Skógræktarfélags Íslands og helstu skógartölur fyrir árið 2023.

Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Skógræktarritið kemur út tvisvar á ári og er selt í áskrift og í lausasölu. Hægt er að gerast á áskrifandi með því að hafa samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551 8150 eða með því að senda póst á netfangið skog@skog.is. Í boði er bæði hefðbundin áskrift og rafræn.

 

Skógræktarfélag Íslands í samstarf við Endurvinnsluna

Með Fréttir

Skógræktarfélag Íslands er nú komið í samstarf við Endurvinnsluna. Viðskiptavinum Endurvinnslunnar býðst frá og með 1. desember að styrkja Skógræktarfélag Íslands með gjafakorti sem gefur þeim kost á að gefa innlegg sitt til félagsins með því að skanna QR-kóða á völdum starfsstöðvum félagsins (Köllunarklettsvegi, Knarrarvogi, Skútahrauni og Dalvegi).

Forseti Íslands gróðursetur í Vinaskógi

Með Fréttir

Í tilefni þess að 75 ár eru frá fyrstu gróðursetningu vinaþjóðanna Noregs og Íslands á Þingvöllum verður haldin athöfn í Vinaskógi á Þingvöllum miðvikudaginn 18. september nk. í samvinnu við sendiráð Noregs á Íslandi.

Af þessu tilefni mun Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, gróðursetja tré í Vinaskógi ásamt sendiherra Noregs og formanni Skógræktarfélags Íslands.

Athöfnin hefst kl. 13:00 en að gróðursetningu lokinni verður skoðaður skógarlundur á Þingvöllum þar sem Norðmenn hófust handa árið 1949.

Frá því að stofnað var til Vinaskógar á Þingvöllum árið 1990, að frumkvæði Vigdísar Finnbogadóttur, hafa forsetar landsins tekið þar þátt í viðburðum af ýmsu tagi, m.a. komið með erlenda gesti og þjóðhöfðingja sem hingað hafa komið.

Birkifræsöfnun þjóðarinnar fram undan

Með Fréttir

Árlegt átak Lands og skógar í samvinnu við skógræktarhreyfinguna og fleiri samtök og fyrirtæki hefst formlega á degi íslenskrar náttúru 16. september. Fyrsti viðburðurinn verður á vegum Lionsklúbbsins Sifjar í Reykhúsaskógi í Eyjafjarðarsveit klukkan sautján í samvinnu við Skógræktarfélag Eyfirðinga og skógarbændur í Reykhúsum.

Birkifræsöfnun 2024

Gott fræár er nú á birki um allt land sem er nokkuð óvenjulegt því gjarnan er fræmyndun á birki mjög misjöfn á landinu frá ári til árs. Í fyrra var mjög lítið um birkifræ nema í Vesturbyggð og þá var áhersla lögð á það svæði í átakinu Söfnum og sáum birkifræi sem nú hefur staðið yfir frá árinu 2020.

Þetta árið ríður Lionsklúbburinn Sif í Eyjafjarðarsveit á vaðið og efnir til fræsöfnunar í Reykhúsaskógi í Eyjafjarðarsveit á degi íslenskrar náttúru, mánudaginn 16. september, klukkan 17. Öllum er þar velkomið að koma og taka þátt í söfnuninni með klúbbfélögum og fulltrúum frá Skógræktarfélagi Eyfirðinga sem tekur þátt í viðburðinum. Reykhúsaskógur er samliggjandi Kristnesskógi til norðurs og gengið inn í hann norðan við Kristnesspítala.

Þrátt fyrir gott útlit um birkifræ í öllum landshutum þetta haustið ber að benda á að fræið hefur þroskast heldur hægt víðast hvar sökum þess hve sumarið hefur verið rysjótt og sólarlítið. Víða eru fræreklarnir á birkinu enn grænir en þó er farið að fréttast af reklum sem orðnir eru ljósbrúnir, til dæmis á Austfjörðum. Þar sem þeir eru enn grænir og harðir viðkomu gæti verið rétt að bíða með fræsöfnun. Birkifræi má safna langt fram á haust, svo lengi sem fræið hangir á trjánum.

Eins og undanfarin ár verða söfnunarkassar í Bónus-verslunum um allt land og á Olís-stöðvum. Sömuleiðis er tekið við fræi á starfstöðvum Lands og skógar sem eru nítján talsins í öllum landshlutum. Þessa dagana er verið að koma söfnunarkössunum upp og því verki ætti að vera lokið kringum 20. september. Pappaöskjur sem Prentmet Oddi framleiðir fyrir átakið verða fáanlegar til að safna fræinu í en einnig er gott að safna fræinu í bréfpoka eða tauskjóður. Aðalatriðið er að fræið nái að þorna í umbúðunum því að annars er hætta á að það mygli og skemmist.

Fólk er hvatt til að leggja birkiskógum landsins lið við að breiðast út á ný, annað hvort með því að safna fræi og senda inn í söfnunina eða með því að dreifa á eigin spýtur því fræi sem sáð er. Leita má til Lands og skógar, sveitarfélaga eða skógræktarfélaga eftir ábendingum um svæði sem vert er að sá í.

Kristinn H. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Kópavogs, hefur yfirumsjón með söfnunarátakinu á birkifræi. Hann veitir nánari upplýsingar í netfanginu birkiskogur@gmail.com eða í síma 839 6700.

Tré ársins 2024 formlega útnefnt

Með Fréttir

Tré ársins 2024 var útnefnt við hátíðlega athöfn sunnudaginn 8. september. Um er að ræða skógarfuru (Pinus sylvestris) í skógarlundi sunnan við Mánaþúfu í Varmahlíð í Skagafirði og er það í fyrsta sinn sem skógarfura er valin sem Tré ársins. Skógarfura var mikið gróðursett á 6. og fram á 7. áratug síðustu aldar, en varð fyrir miklum skakkaföllum af völdum furulúsar, sem grandaði henni að mestu, og er hún því sjaldgæf hérlendis nú.

Hófst athöfnin á því að söngkvartettinn Vorvindar glaðir flutti vel valin lög. Jónatan Garðarsson, formaður skógræktarfélags Íslands, ávarpaði svo gesti, en auk hans fluttu ávörp Ragnheiður Guðmundsdóttir, formaður Skógræktarfélags Skagfirðinga og Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga ehf., sem er bakhjarl Trés ársins. Var Skógræktarfélagi Skagfirðinga afhent viðurkenningaskjal sem eigenda trésins og skilti sem markar tréð afhjúpað.

Að venju var tréð mælt við athöfnina og sá skógfræðingurinn og heimamaðurinn Johan Holst um það. Reyndist tré vera 13,9 m á hæð með þvermál upp á 30,5 cm í brjósthæð.

Athöfninni lauk svo með kaffihressingu í matsal Hótels Varmahlíðar, þar sem söngkvartettinn flutti einnig nokkur lög.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

F.v. Hafberg Þórisson, eigandi Lambhaga ehf., sem er bakhjarl Trés ársins, Ragnheiður Guðmundsdóttir, formaður Skógræktarfélags Skagfirðinga og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, við útnefninguna.

Tré ársins 2024

Með Fréttir

Tré ársins 2024 verður útnefnt formlega við hátíðlega athöfn sunnudaginn 8. september í Varmahlíð í Skagafirði. Að þessu sinni er um að ræða merkilega trjátegund sem var mikið gróðursett á árunum 1950 fram til 1970 og hefur sú gleymda trjátegund ekki verið útnefnd áður. Athöfnin fer fram í skógarlundi sunnan við Mánaþúfu og hefst kl.16:00. Lundurinn er í eigu Skógræktarfélags Skagfirðinga.

Dagskrá:

  1. Skagfirska sveitin „Vorvindar glaðir“ flytur nokkur vel valin lög.
  2. Ávarp: Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands.
  3. Ávarp: Ragnheiður Guðmundsdóttir, formaður Skógræktarfélags Skagfirðinga.
  4. Mæling á Tré ársins – heimamaðurinn Johan Wilhelm Holst.
  5. Afhending viðurkenningarskjals.
  6. Ávarp: Hafberg Þórisson, styrktaraðili Trés ársins.
  7. Veitingar í boði Skógræktarfélags Íslands – Hótel Varmahlíð.

Tónlist leikin af fingrum fram.

Allir velkomnir!

Styrktaraðili Tré ársins er Lambhagi ehf.

Google-tengill: https://maps.app.goo.gl/zPWxz4CuvyeZpGc