Hvatningaverðlaun skógræktar 2025 voru veitt við hátíðlega athöfn í Kvikunni, menningarhúsi Grindvíkinga, á Alþjóðlegum degi skóga þann 21. mars.
Er þetta í annað sinn sem verðlaunin eru afhent, en þau eru veitt árlega til einstaklinga, hópa, fyrirtækja, félaga eða stofnana sem unnið hafa óeigingjarnt starf í þágu skógræktar á Íslandi. Markmið með afhendingu þeirra er að hvetja skógræktarfólk til áframhaldandi starfa og vekja athygli á því margþætta góða skógarstarfi sem unnið er að um land allt.
Kallað var eftir tilnefningum að verðlaununum í janúar. Alls bárust tilnefningar að 20 aðilum og valdi dómnefnd úr þrjá aðila til kosninga á vef. Niðurstaða kosninga var sú að Pálmar Örn Guðmundsson, formaður Skógræktarfélags Grindavíkur, fékk flest atkvæði og hlýtur því verðlaunin í ár.
Hófst athöfnin á ávarpi Ásrúnar Kristinsdóttur, forseta bæjarstjórnar Grindavíkur, sem bauð gesti velkomna og sagði stuttlega frá stöðu mála í bænum. Því næst tók Hjörtur Bergmann Jónsson, formaður búgreinadeildar skógarbænda hjá Bændasamtökunum við og afhenti Pálmari verðlaunin formlega. Fékk Pálmar sem verðlaunagrip til eignar tvær fallegar skálar úr íslensku birki, sem gerðar eru af handverksmanninum Trausta Tryggvasyni, sem einnig er fyrrverandi formaður Skógræktarfélags Stykkishólms.
Pálmar hefur á eigin spýtur unnið mikilvægt og óeigingjarnt kynningarstarf í þágu skógræktar á Íslandi með Youtube-rás sinni Skógurinn, þar sem hann hefur fjallað um ýmsa þætti skógræktar – einstaka trjátegundir, skóga og skógræktaraðila, svo sem gróðrarstöðvar. Þrátt fyrir að heimabærinn hans og skógar Skógræktarfélags Grindavíkur hafi skemmst vegna eldsumbrotanna á Reykjanesskaga undanfarin ár, þá hefur hann ekki látið deigan síga. Öll vinna við myndböndin er unnin af honum einum án aðkomu annara. Með sinni einlægu og smitandi ástríðu fyrir skógum og náttúru, kveikir Pálmar áhuga hjá hverjum þeim sem uppgötvar myndböndin hans og er sérlega lofsvert hvað hann hefur verið duglegur að setja enska texta við myndböndin, svo fleiri geti notið þeirra.
Að verðlaununum standa Skógræktarfélag Íslands, Land og skógur og Bændasamtök Íslands (búgreinadeild skógarbænda).
Pálmar Örn Guðmundsson, handhafi Hvatningarverðlauna skógræktar 2025. Mynd: EB
Nýlegar athugasemdir