Skip to main content

Skógræktarfélag Íslands stóð fyrir ferð til Bretaníu og Normandí í Frakklandi dagana 28. september til 6. október 2023.

Flogið var til Parísar laugardaginn 28. september og lent þar síðdegis. Ekki var annað gert þann dag en að koma hópnum til fyrsta gististaðar í bænum  Étretat en þar var gist fyrstu tvær næturnar.

Sunnudaginn 29. september gafst ferðalöngum að mestu frjáls tími til að skoða sig um í bænum en það eina á dagskrá var heimsókn í Les Jardins d’Étretat garðinn í bænum með leiðsögn og var hópnum skipt í þrjú holl til þess.

Daginn eftir var byrjað á því að heimsækja La Ferme de Billy búið en þar eru ræktuð epli og framleiddur hefðbundinn síder úr afurðunum. Að sjálfsögðu var boðið upp á smakk á þeim. Þaðan var haldið til  Bayeux til að skoða Bayeux refilinn og safnt tengt honum, en að því loknu var haldið til næsta gististaðar í Paimpol þar sem gist var næstu þrjár nætur.

Þriðjudaginn 1. október var gefinn frjáls tími fyrir hádegi og mátti nýta hann til að kíkja á markað í bænum sem haldin er þar á hverjum þriðjudegi. Eftir hádegi var svo haldið í heimsókn til Grunda.Pol félagsins, sem er vinabæjarfélag Paimpol og Grundarfjarðar og sýndu þau ferðalöngunum meðal annars Musée Mémoire d’Islande safnið, sem tileinkað er sögu sjómanna frá svæðinu sem sigldu áður til Íslands til þorskveiða.

Miðvikudaginn 2. október var byrjað á því að heimsækja Pleubian þar sem fræðst var um „örskóga“ ræktaða með Miyawaki aðferð, en þaðan var haldið til Beauport klaustursins þar sem skógarvörður staðarins leiddi göngu um svæðið, auk þess sem klaustrið var skoðað.

Daginn eftir var fyrst farið í heimsókn til Menez Meur verndarsvæðisins og fræðst um svæði og helstu verkefni, en meðal annars hefur verið unnið að endurheimt úlfa á svæðinu og fengu ferðalangar að sjá þá. Næst var haldið til skógar að hitta fulltrúa frá landsmiðstöð skógareigenda og landssamtökum franskra skógareigenda og fengin almenn fræðsla um skóga svæðisins – samsetningu, framvindu, nytjar, helstu áskoranir o.fl. Deginum lauk með ferð til Quimper, þar sem gist var næstu nótt.

Föstudagurinn  4. október hófst á heimsókn í Brocéliande skóginn þar sem fulltrúa frá landsmiðstöð skógareigenda voru aftur mættir til að útdeila fróðleik og sýna fleiri gerðir skóga. Deginum lauk svo með akstri Rennes þar sem gist var næstu nótt.

Föstudaginn 5. október var stefnan tekin aftur í átt til Parísar og farið í Chèvreloup trjásafnið í Versölum sem er eitt það stærsta í Frakklandi með hundruðir trjátegunda. Gist var nágrenninu.

Síðasta daginn varð breyting á dagskránni. Fyrirhugað hafði verið að skoða höllina í Versölum en það reyndist ekki hægt og því var gripið til Plans B – skoðað trjásafnið Arboretum de la Vallée aux Loups og klassískur herragarður í Sceux. Deginum lauk svo með akstri út á flugvöll í París en þaðan var flogið heim að kvöldi dags.