Skógræktarfélagið Dafnar stendur fyrir fræðsluerindi þann 26. apríl n.k. í kjölfar almenns félagsfundar sem verður á undan erindinu. Erindið er haldið í Ásgarði, aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri í Borgarfirði og hefst kl. 18:00.
Framsögumaður verður Valdimar Reynisson, sem er einn þriggja sem fyrstur lauk BS gráðu í skógfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands og tók þátt í því að stofna Skógræktarfélagið Dafnar. Hann hélt síðan til Svíþjóðar til framhaldsnáms og lauk meistaragráðu í skógfræði frá sænska landbúnaðarháskólanum (SLU). Í erindinu mun Valdimar m.a. fjalla um muninn sem er í skógrækt á Íslandi og sunnanverðri Svíþjóð, sem fyrir um 250 árum hafði litlu meiri skógarþekju en Ísland hefur nú. Einnig mun Valdimar fjalla um það veganesti sem hann hafði í slíkt framhaldsnám héðan frá Íslandi, bæði í formi þeirrar starfsreynslu sem hann hafði úr skógargeiranum hérlendis og með því grunnnámi í skógfræði sem hann hafði lokið við LbhÍ. Fræðsluerindið er öllum opið.