Skógræktarfélagið Dafnar, skógræktarfélag nemenda og starfsmanna við Landbúnaðarháskóla Íslands, stendur fyrir opnu fræðsluerindi þriðjudaginn 28. janúar um Náttúruskóga og skógrækt í Chile í S-Ameríku. Fyrirlesari er Bjarni Diðrik Sigurðsson, en hann dvaldi í Chile í rúmar tvær vikur í nóvember og desember síðast liðinn, þar sem hann tók þátt í að kenna alþjóðlegt doktorsnemanámskeið í skógvistfræði, sem haldið var í samvinnu skógfræðideildar Sænska landbúnaðarháskólans (SLU), háskólans í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum og háskólans í Concepcion í Chile. Í þeirri ferð fékk hann einstakt tækifæri til að kynnast skógarmálum í þessu fjarlæga landi.
Erindið er opið öllum og er haldið í Ásgarði, aðalbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, kl. 17:00-17:45.