Í tilefni þess að 75 ár eru frá fyrstu gróðursetningu vinaþjóðanna Noregs og Íslands á Þingvöllum verður haldin athöfn í Vinaskógi á Þingvöllum miðvikudaginn 18. september nk. í samvinnu við sendiráð Noregs á Íslandi.
Af þessu tilefni mun Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, gróðursetja tré í Vinaskógi ásamt sendiherra Noregs og formanni Skógræktarfélags Íslands.
Athöfnin hefst kl. 13:00 en að gróðursetningu lokinni verður skoðaður skógarlundur á Þingvöllum þar sem Norðmenn hófust handa árið 1949.
Frá því að stofnað var til Vinaskógar á Þingvöllum árið 1990, að frumkvæði Vigdísar Finnbogadóttur, hafa forsetar landsins tekið þar þátt í viðburðum af ýmsu tagi, m.a. komið með erlenda gesti og þjóðhöfðingja sem hingað hafa komið.