Skógræktarfélag Íslands hefur um áratugaskeið staðið fyrir fræðsluferðum til annarra landa
Fyrstu áratugina var um svo kallaðar skiptiferðir að ræða, en þá fór hópur íslensks skógræktarfólks í heimsókn til Noregs til að kynna sér skóga og skógrækt þar og á móti kom norskur hópur til Íslands.
Undanfarna áratugi hafa ferðirnar hins vegar verið almennar kynnisferðir til að fræðast um skóga, náttúru og sögu viðkomandi lands, þótt áhersla sé að sjálfsögðu alltaf lögð á skóga og skógrækt. Hefur verið ferðast til Alaska (Bandaríkjanna), Alberta og Bresku-Kólumbíu (Kanada) Arkhangelsk (Rússlands), Austurríkis, Colorado (Bandaríkjanna), Danmerkur, Finnlands, Frakklands, Færeyja, Írlands, Ítalíu, Kamtsjatka (Rússlands), Króatíu, Marokkó, Noregs, Nýfundnalands (Kanada), Póllands, Spánar, Skotlands, Sviss og Þýskalands.
Ferðirnar hafa heppnast vel og verið vinsælar, enda oft farið á fáfarnari slóðir. Áhersla er lögð á að ferðirnar séu bæði skemmtilegar og fræðandi, en meginmarkmiðið er að fólk fái innsýn í skógrækt og fræðist um skóga, náttúru, sögu og menningu annarra landa.
Ferð ársins 2025 er í vinnslu og er hún til Svíþjóðar. Hægt er að skrá sig á áhugalista fyrir ferðina, til að fá nánari upplýsingar um hana um leið og þær liggja fyrir. Hafið samband í síma 551-8150 eða á netfangið skog@skog.is.