Skógræktarfélag Íslands er nú með starfsnema. Elisabeth Bernard er franskur mannfræðingur sem var sjálfboðaliði hjá félaginu í tvær vikur síðasta sumar gegnum verkefnið „Working abroad“. Hún hefur búið hérlendis áður og hefur brennandi áhuga á skógræktargeiranum á Íslandi.
Elisabeth er útskrifuð með BS og MA gráðu í menningarfræðilegri mannfræði frá París Nanterre háskólanum og er nú að nema norðurheimskautsfræði (MA) með áherslu á umhverfismál og menningu. Hóf hún sitt starfsnám hjá Skógræktarfélagi Íslands við upphaf júlí mánaðar og verður hjá félaginu fram í október.
Hún vinnur nú að rannsókn á skógræktarfélögunum (enda afar merkilegt fyrirbæri alþjóðlega) sem hluta af sínu námi og verður gagnasöfnun framkvæmd með skoðunarkönnunum og viðtölum við formenn skógræktarfélaganna.
Markmið rannsóknarinnar er að fá mynd af stöðu félaganna, hverjar eru menningarlegar undirstöður þeirra, sambönd þeirra við nærumhverfið, skoða hvata og áskoranir og horfa til framtíðar, meðal annars hvernig ný skógræktarlög og landsáætlun í skógrækt geta haft áhrif á félögin. Einnig verður safnað almennri endurgjöf frá formönnum um ýmis málefni er varða starf félaganna.
Glöggt er gests augað og verður því spennandi að lesa niðurstöðurnar.
Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa og vonum að allir taki vel á móti henni er hún fer um landið!