Jón Geir Pétursson varði nýlega doktorsritgerð sína í umhverfis- og þróunarfræði við norska Lífvísindaháskólann að Ási. Jón Geir var lengi vel starfsmaður hjá Skógræktarfélagi Íslands (kom fyrst til starfa 1989 sem sumarstarfsmaður), en lét af störfum hjá félaginu haustið 2008, þegar hann hóf störf á skrifstofu stefnumótunar og alþjóðamála hjá umhverfisráðuneytinu.
Titill ritgerðarinnar er Stofnanir og stjórnun verndarsvæða sem spanna landamæri: Mt. Elgon, Úganda og Kenía (Institutions and transboundary protected area management: The case of Mt. Elgon, Uganda and Kenya).
Ritgerðin fjallar um þær stofnanatengdu áskoranir sem felast í stefnumálum og stjórnun verndarsvæða sem spanna landamæri (TBPAM: transboundary protected area management), með sérstakri áherslu á samfélög heimamanna. Er Elgon fjall á landamærum Úganda og Kenía notað sem viðfangsefni til að prófa og greina stefnumótun TBPAM í Austur-Afríku.
Í ritgerðinni er sýnt fram á að stjórnun verndarsvæða á Elgon innifelur flókið samspil formlegra og óformlegra stofnana á ýmsum stigum stjórnsýslu, sem hefur haft mikil áhrif á stefnumótun og niðurstöðu stjórnunar.
Nánari útdrátt úr ritgerðinni (á ensku) má lesa á heimasíðu Lífvísindaháskólans að Ási (hér).
Skógræktarfélag Íslands óskar Jóni Geir hjartanlega til hamingju með doktorsvörnina!
Jón Geir í góðum félagsskap á toppi Elgon-fjalls (Mynd: JGP).