Skip to main content

Daníelslundur í Borgarfirði

Daníelslundur var fyrsti skógurinn sem opnaður var sem Opinn skógur árið 2002.

Daníelslundur er í alfaraleið við þjóðveg nr. 1 og tilvalinn útivistar- og áningarstaður. Tenging er frá þjóðvegi 1 að hringtorgi í skógarjaðrinum, þar sem eru góð bifreiðastæði. Í skóginum eru góðir göngustígar, rjóður með bekkjum og borðum og grill. Mikilvægt er að gönguleiðum sé fylgt og viðkvæmum gróðri hlíft.

Lýsing
Daníelslundur ber nafn Daníels Kristjánssonar, skógarvarðar frá Hreðavatni, sem lengi var forvígismaður í Skógræktarfélagi Borgarfjarðar. Daníelslundur er í landi Svignaskarðs sem eitt sinn var í eigu Snorra Sturlusonar. Um Svignaskarð lágu leiðir margra  og þar var stórbýli og einnig gistihús á fyrri hluta 20. aldar. Daníelslundur er í hjarta Borgarfjarðarhéraðs. Þaðan er víðsýnt um blómlegar sveitir. Í suðri blasa við Hafnarfjall og Skarðsheiði en í norðri rís Baula, eitt af einkennisfjöllum héraðsins, keilumyndað í marglitum líparítmyndum. Í austri má sjá tilkomumikinn Eiríksjökul, móbergsstapa sem orðið hefur til undir jökli. Nokkru fjær að sjá, er Langjökull, annar stærsti jökull landsins. Hér einkennist landslagið af klapparásum og holtum með mýrarsundum á milli. Ásarnir teygja sig frá mynni inndala niður á flatlendi Hvítár og Borgarfjarðar. Víðfeðmir birkiskógar og kjarr er ríkjandi og hafa án efa átt þátt í vinsældum svæðisins en á þessum slóðum eru ein stærstu sumarhúsahverfi landsins.

Skógrækt
Skógræktarfélag Borgarfjarðar hóf skógrækt á svæðinu árið 1961 á 25 hektara spildu. Árið 1978 var landið stækkað enn frekar og nafni svæðisins breytt úr Svignaskarðsgirðingu í Daníelslund, til heiðurs Daníels í tilefni af 70 ára afmæli hans. Árangur ræktunarinnar hefur komið verulega á óvart. Mesta athygli vekur að efst á klapparholtinu, sem margir héldu í upphafi að ekki væri trjáplöntum bjóðandi, vex trjágróður ágætlega. Skilyrði til skógræktar eru mun betri en ætlað var.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar
er fjölmennur félagsskapur áhugafólks um skógrækt og gróðurvernd í Borgarfirði. Skógræktarfélagið var stofnað árið 1948 og hefur starfað af krafti síðan. Bætt aðgengi almennings að skóglendum félagsins er eitt af aðalmarkmiðum félagsins

Gefinn var út vandaður bæklingur með helstu upplýsingum um svæðið, ásamt myndum og korti. Bæklinginn má nálgast hér (.pdf).

Kort af svæðinu má skoða hér (.pdf)