Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Tré ársins 2011

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands útnefnir Tré ársins 2011 við hátíðlega athöfn að Greniteigi 9 í Reykjanesbæ, þriðjudaginn 13. september kl. 12. Þetta er í fyrsta skipti sem tré á Suðurnesjum verður fyrir valinu en þetta tiltekna tré þykir fyrirtaks dæmi um hvernig trjágróður getur vaxið og dafnað suður með sjó þrátt fyrir erfið skilyrði. Tré ársins er af harðgerðri tegund sem myndar falleg blóm síðsumars og hefur því notið mikilla vinsælda meðal garðeigenda hér á landi.

Ávörp flytja Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Þá mun Magnús veita Sigrúnu Guðjónsdóttur, eiganda trésins, viðurkenningu.

Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega Tré ársins. Er útnefningunni ætlað að beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.

Dr. Jón Geir Pétursson

Með Ýmislegt

Jón Geir Pétursson varði nýlega doktorsritgerð sína í umhverfis- og þróunarfræði við norska Lífvísindaháskólann að Ási.  Jón Geir var lengi vel starfsmaður hjá Skógræktarfélagi Íslands (kom fyrst til starfa 1989 sem sumarstarfsmaður), en lét af störfum hjá félaginu haustið 2008, þegar hann hóf störf á skrifstofu stefnumótunar og alþjóðamála hjá umhverfisráðuneytinu.

Titill ritgerðarinnar er Stofnanir og stjórnun verndarsvæða sem spanna landamæri: Mt. Elgon, Úganda og Kenía (Institutions and transboundary protected area management: The case of Mt. Elgon, Uganda and Kenya).

Ritgerðin fjallar um þær stofnanatengdu áskoranir sem felast í stefnumálum og stjórnun verndarsvæða sem spanna landamæri (TBPAM: transboundary protected area management), með sérstakri áherslu á samfélög heimamanna. Er Elgon fjall á landamærum Úganda og Kenía notað sem viðfangsefni til að prófa og greina stefnumótun TBPAM í Austur-Afríku.

Í ritgerðinni er sýnt fram á að stjórnun verndarsvæða á Elgon innifelur flókið samspil formlegra og óformlegra stofnana á ýmsum stigum stjórnsýslu, sem hefur haft mikil áhrif á stefnumótun og niðurstöðu stjórnunar.

Nánari útdrátt úr ritgerðinni (á ensku) má lesa á heimasíðu Lífvísindaháskólans að Ási (hér).

Skógræktarfélag Íslands óskar Jóni Geir hjartanlega til hamingju með doktorsvörnina!

drjongeir
Jón Geir í góðum félagsskap á toppi Elgon-fjalls (Mynd: JGP).

Skógar þýðingarmeiri í baráttu gegn loftslagsbreytingum en áður var talið

Með Ýmislegt

Ný rannsókn undirstrikar mikilvægi skóga í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, þar sem hún sýnir fram á að skógar taka upp mun meira af gróðurhúsalofttegundum vegna losunar jarðefnaeldsneytis en áður var talið.

Samkvæmt rannsókninni taka skógar upp um 800 milljón tonn af 2,4 milljörðum tonna kolefnis vegna brennslu jarðefnaeldsneytis, eða um 1/3 af heildarlosuninni. Ef skógareyðing myndi hætta í dag myndu núverandi og vaxandi skógar taka upp um helming losunarinnar.

Rannsóknin undirstrikar einnig mikilvægi þess að vernda núverandi skóglendi. Til þessa hefur verið áætlað að 12-20% af losun gróðurhúsalofttegunda mætti rekja til eyðingar skógar, en samkvæmt rannsókninni er talan nær 25%.

Einnig sýndi rannsóknin fram á að endurheimt skóglendis getur skipt miklu, en komið hafi á óvart hve mikið kolefni svæði þar sem skógur vaxi á ný bindi. Talið er að endurheimt skóglendis í hitabeltinu taki upp um 1,6 milljarða tonna kolefnis árlega, sem samsvari mörg hundruð milljarða virði á markaði fyrir losunarkvóta.

Nánar:

http://www.visir.is/skograekt-mun-thydingarmeiri-en-adur-var-talid/article/2011110718964

http://www.mirroraty.com/science-tech/new-study-stresses-role-of-forests-in-fossil-fuel-emission-absorption.html

 

skogurkina

(Mynd: RF).

 

Blóm í bæ – garðyrkju- og blómasýningin 2011

Með Ýmislegt

Garðyrkju- og blómasýningin Blóm í bæ verður haldin í þriðja sinn í Hveragarði dagana 23.-26. júní. Þema sýningarinnar að þessu sinni er „Skógur“, í tilefni af alþjóðaári skóga 2011 og munu skreytingar sýningarinnar því verða í skógarstíl og verður ævintýralegt að skoða þær. Skógræktarfélag Íslands er gestur sýningarinnar í ár.

Nánar má lesa um sýninguna á heimasíðu hennar (hér).

Veistu um merkileg tré í Reykjavík?

Með Ýmislegt

Merk tré í Reykjavík, menningarsaga reykvískra trjáa, er vinnuheiti lokaritgerðar Bjarkar Þorleifsdóttur í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands.

Er hún að leita að gömlum trjám, sérstökum og sjaldgæfum tegundum, trjám sem eru stór, bein, kræklótt og síðast en ekki síst trjám sem hafa sögulegt gildi og hafa sérstaka merkingu fyrir íbúa í nágrenni. Þetta geta t.d. verið leiktré, tré sem var plantað fyrir nýfædd börn, plantað af þekktum einstaklingum eða tré sem setja mikinn svip á götumynd eða umhverfi sitt og þar fram eftir götunum.

Búið er að stofna Facebook-síðu utan um verkefnið undir nafninu „Merk tré í Reykjavík“ og vonast Björk til að þangað safnist upplýsingar sem koma að gagni við rannsóknina.Einnig er hægt að senda henni línu á bth79@hi.is.

Landbúnaðarháskóli Íslands: Opið hús hjá garðyrkjubrautum

Með Ýmislegt

Næstkomandi laugardag, þann 16. apríl, verður opið hús hjá garðyrkjubrautum LbhÍ á Reykjum í Ölfusi (gamla Garðyrkjuskóla ríkisins) frá kl. 10-18.  Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá allan daginn (sjá neðar) og má með sanni segja að öll fjölskyldan geti fundið eitthvað við sitt hæfi.  Fyrir börnin verður boðið upp á andlitsmálun og þau geta fengið að fara á hestbak auk þess sem umhverfið í bananahúsinu er töfraveröld sem börnin kunna vel að meta.  Fyrir fullorðna fólkið má nefna fræðsluerindi um ræktun aldintrjáa kl. 13 og fræðslu um ræktun kryddjurta kl. 15:30.

Hátíðardagskrá
Fundarstjórn: Björgvin Örn Eggertsson
14:00 – 14:05 Setning Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari Reykjum
14:05 – 14:25 Garðyrkjuverðlaun 2011 – Menntamálaráðherra Katrín Jakobsdóttir
14:25 – 14:30 Tónlistaratriði
14:30 – 14:50 Umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar – Forseti Ísland Ólafur Ragnar Grímsson
14:50 – 14:55 Tónlistaratriði

Námið á Reykjum
Á Reykjum í Ölfusi starfar Starfs– og endurmenntunardeild Landbúnaðarháskólans. Þar er boðið upp á garðyrkjutengt nám á fjórum brautum: blómaskreytinga-, garðplöntuframleiðslu-, skógar- og umhverfis- og skrúðgarðyrkjubraut. Einnig er boðið upp á fjölbreytt endurmenntunarnámskeið bæði fyrir fagfólk og almenning. Næst verða teknir nemendur á þessar brautir haustið 2012. Leitið upplýsinga á heimasíðu skólans
eða í síma 433 5000.

Endurmenntun
Kynnt verða endurmenntunarnámskeið á vegum Landbúnaðarháskólans. Í boði er fjöldi námskeiða (sjá einnig hér), hvort sem er fyrir fólk innan landbúnaðarins og áhugafólk. Komið og fáið allar upplýsingar um þau námskeið sem framundan eru.

Sala og kaffiveitingar
Í skólabyggingunni er markaðstorg þar sem seldar eru garðyrkjuafurðir. Allt eru þetta úrvals vörur frá íslenskum framleiðendum. Í mötuneyti skólans er boðið upp á kaffi og heimabakað meðlæti. Kaffiveitingarnar á Reykjum eru fastur liður í sumarkomunni hjá mörgum.

Kynningar – skemmtun – fræðsla
Í garðskála er að finna kynningarbása frá ýmsum aðilum. Þar er hægt að kaupa ýmsar vörur og fræðast um margt. Nemendur í blómaskreytingum verða við vinnu og útbúa skreytingar. Stutt fræðsluerindi verða í kennslustofum og hægt verður að spyrjast fyrir um það sem heitast brennur á ræktendum. Í Bananahúsinu er hægt að skoða hitabeltisgróður og sjá bananana þroskast á trjánum. Í verknámshúsi skrúðgarðyrkjunnar eru fyrirtæki á garðyrkjusviðinu að kynna nýjungar fyrir sumarið. Þarna má t.d. sjá (kl. 13) kynningu á rósarækt undir LED lömpum í klefa 9 í tilraunagróðurhúsinu. Einnig verða kynntir nýir LED lampar. Sjá nánar hér. Pottaplöntusafn skólans verður til sýnis. Einnig er margt um að vera á útisvæðum skólans. Ýmis afþreying verður í boði fyrir börnin.

Annað skemmtilegt í Hveragerði á laugardaginn!
Kl. 10 Ljóðalestur við sundlaugina
Kl. 12 Páskaeggjaleit við sundlaugina
Hádegið: Tveir fyrir einn í hádegisverð á Heilsustofnun NLFÍ. Frítt í mat fyrir yngri en 12 ára. Frítt í sund í baðhúsi Heilsustofnunar NLFÍ.
Kl. 16 Leiðsögn um sýningar í Listasafni Árnesinga, Austurmörk 21.

Stormföllnu lævirkjatré bjargað

Með Ýmislegt

Eitthvað er um að tré hafi brotnað eða oltið um koll í óveðrinu sem gekk yfir landið í fyrradag, 10 apríl. Húsráðendur í húsi einu í Vogahverfinu höfðu samband við Skógræktarfélag Íslands og leituðu ráða vegna lerkitrés sem slitnað hafði upp frá rótum og vildu þau fyrir alla muni bjarga trénu. Starfsmaður Skógræktarfélagsins fór á staðinn og lagði á ráðin með eigendum trésins. Tréð er tvístofna frá rót og kann það að hafa valdið því að svo fór sem fór. Ákveðið var fjarlægja annan stofninn, grafa undan trénu og setja hrossaskítur í botninn, auk þess sem holan verður víkkuð og tréð togað í rétta stöðu og stagað niður.

stormfall1
Andri Páll Alfreðsson vill leggja sitt af mörkum til að bjarga lerkitrénu í garðinum (Mynd: EG).

stormfall2
Flatrótarkerfið hefur látið undan veðurofsanum enda taka tvístofna tré mikið veður á sig (Mynd: EG).

stormfall3
Helga Rún Pálsdóttir trjáeigandi og búningahönnuður og Einar Gunnarsson skógfræðingur vinna við fyrsta áfanga björgunaraðgerða (Mynd: Andri Páll Alfreðsson).

Ný skógafrímerki

Með Ýmislegt

Pósturinn hefur gefið út sérstök frímerki í tilefni Alþjóðlegs árs skóga 2011. Í tilkynningu frá Póstinum segir um frímerkin:

Fyrra frímerkið sýnir þversnið af trjábol og er táknrænt fyrir skóginn sem auðlind, þ.e. sem framleiðanda trjáviðar. Seinna frímerkið sýnir nærmynd af laufblaði og táknar vistkerfisþjónustu sem skógar veita, sérstaklega þá að binda kolefni úr andrúmsloftinu.

Nútíma Íslendingar hafa tilhneigingu til að líta á skóg sem þátt í landslagi en síður sem auðlind. Skógar fortíðar framleiddu byggingarefni, eldivið, viðarkol til járnsmíða og fóður fyrir búfé.

Með nútíma skógrækt eru Íslendingar að byggja upp sína eigin skógarauðlind á ný. Skógar veita einnig margskonar  vistkerfisþjónustu, svo sem að vernda vatn og jarðveg og vera búsvæði fyrir fjölda lífvera. Laufblöð og nálar draga koltvísýring (CO2) úr andrúmslofti og þannig hjálpa skógar til við að draga úr gróðurhúsáhrifum í andrúmsloftinu.

(www.postur.is)

frimerki2frimerki1

Grænir dagar í Háskóla Íslands

Með Ýmislegt

Hinir árlegu Grænu dagar í Háskóla Íslands hefjast miðvikudaginn 30. mars. Grænir dagar eru þriggja daga viðburður þar sem fjallað er um umhverfið á margvíslegan hátt. Meðal þess sem verður í boði í ár eru fyrirlestrar um rafbíla og lunda, kvikmyndasýning, tónleikar, fatamarkaður og barsvar, eða pub quiz,svo fátt eitt sé nefnt. Það er Gaia, nemendafélag meistaranema í umhverfis- og auðlindafræðum, sem skipuleggur Græna daga að venju og í ár verða þeir betri en nokkru sinni fyrr!

Dagskrá Grænna daga er eftirfarandi:

Miðvikudagur 30. mars
Fatamarkaður (clothes swap): kl. 11 – 15 á Háskólatorgi
Fyrirlestur – Puffin in Danger: kl. 12.20 – 13.10 í Öskju, stofu 130
Grænir drykkir: kl. 18.30 – 19.30 í kjallara Norræna hússins
Leiðsögn um Manna sýninguna: kl. 19.30 – 20.30 í Norræna húsinu

Fimmtudagur 31. mars
Fatamarkaður (clothes swap): kl. 11 – 15 á Háskólatorgi
Fyrirlestur – Hvalveiðar á Íslandi: kl. 12.20 – 13.10 í Öskju, stofu 129
Kvikmyndasýning – Carbon Nation: kl. 17 – 19 í Háskólatorgi, stofu 102

Föstudagur 1. apríl
Fatamarkaður (clothes swap): kl. 11 – 15 á Háskólatorgi
Tónleikar – Hljómsveitin Andvari: kl. 13.00 á Háskólatorgi
Fyrirlestur – Rafbílar á Íslandi: kl. 12.20 – 13.10 í Öskju, stofu 130
Barsvar (pub quiz): kl. 20.00 á Dillon (tilboð á drykkjum og á eftir eru tónleikar á staðnum)

Á heimasíðu Gaiu má einnig finna nánari upplýsingar um Græna daga og dagskrána:
http://nemendafelog.hi.is/Gaia

Garðyrkjuverðlaun 2011

Með Ýmislegt

Garðyrkjuverðlaunin verða afhent í áttunda sinn laugardaginn 16. apríl n.k. við hátíðlega athöfn á opnu húsi hjá LbhÍ á Reykjum. Með verðlaunaveitingunni vill Landbúnaðarháskóli Íslands heiðra þá sem staðið hafa sig vel í að vinna að framgangi garðyrkjunnar á ýmsum sviðum hennar. Sú hefð hefur skapast að afhenda verðlaun í þremur flokkum en fleiri en einn geta fengið verðlaun í hverjum flokki, það er í höndum dómnefndar í hvert skipti að ákveða það.

Dómnefndina skipa að þessu sinni eftirtaldir starfsmenn skólans: Björgvin Eggertsson, verkefnisstjóri Grænni skóga, Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður Starfs- og endurmenntunardeildar og  Guðrún Þórðardóttir, bókasafnsfræðingur,

Það er metnaður skólans að sem flestir komi að því að velja þá aðila sem við viljum heiðra hverju sinni.  Hverri tilnefningu þarf að fylgja örstutt röksemdafærsla fyrir því af hverju viðkomandi á verðlaun skilið.

Verðlaunaflokkarnir eru eftirfarandi:

1) Heiðursverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir tilnefningum um einstaklinga sem skarað hafa fram úr á sviði garðyrkjunnar að mati stéttarinnar og skólans.

2) Verknámsstaður ársins =>  Hér er óskað eftir að tilnefndur verði verknámsstaður ársins 2011, staður sem hefur staðið sig sérlega vel við að leiðbeina nemendum skólans í verknámi.

3) Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir að tilnefndir verði aðilar sem  eru að vinna að athyglisverðum og framsæknum nýjungum í greininni og eiga skilið að fá hvatningu til að halda áfram á sömu braut.

Tilnefningar þurfa að berast skólanum í síðasta lagi mánudaginn 4. apríl 2011 á netfangið  bjorgvin (hjá) lbhi.is.