Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Andlát: Sigurður Blöndal

Með Ýmislegt

Sigurður Blöndal, fyrrverandi skógræktarstjóri, lést á Egilsstöðum í gær, þriðjudaginn 26. ágúst, á nítugasta aldursári. Sigurður var ötull talsmaður skógræktar á Íslandi og studdi við skógræktarfélögin með ráð og dáð. Hann var reglulegur gestur á aðalfundum Skógræktarfélags Íslands í áratugi og skrifaði tugafjöld greina í Skógræktarritið, auk þess að vera ritstjóri þess um tíma. Hann var gerður að heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands árið 1989.

Skógræktarfélag Íslands sendir fjölskyldu og vinum Sigurðar sínar innilegustu samúðarkveðjur, með þökk fyrir áratuga langt og gott samstarf.

sblo

(Mynd: JFG)

Skógardagur Norðurlands

Með Ýmislegt

Líf og fjör verður í Kjarnaskógi á Akureyri laugardaginn 5. júlí þegar þar verður í fyrsta sinn haldinn Skógardagur Norðurlands. Gestir fá að fræðast um skógrækt og skógarnytjar, sjá skógarhöggsmenn að verki og skoða tækjabúnað þeirra en einnig verður í boði leiksýning, ratleikur, skákmót og fleira.

Það eru Félag skógarbænda á Norðurlandi, Norðurlandsskógar, Skógfræðingafélag Íslands, Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélag Eyfirðinga, og gróðrarstöðin Sólskógar sem taka höndum saman um þennan viðburð. Deginum er ætlað að vekja athygli á skógum og skógrækt ásamt því fjölbreytta gagni og nytjum sem af skógunum má hafa.

Dagskráin hefst  kl. 13:00 á leiksýningu fyrir alla fjölskylduna. Frumsýnt verður verk sem verið hefur í undirbúningi síðustu vikur í hópi ungmenna í skapandi sumarstörfum á vegum Akureyrarbæjar. Spennandi verður að sjá útkomuna. Sýningin verður í hlýlegum hvammi skammt frá sólúrinu í Kjarnaskógi, þekktu og áberandi kennileiti þar.

Dagskráin fer öll fram þar í kring, til dæmis skógarhöggssýning þar sem sýnd verða handtökin við skógarhögg og þær vélar og búnaður sem notaður er við skógarhögg með handverkfærum. Sett verður upp sýning sem kallast „Frá fræi til fullunninnar vöru“ þar sem fólk getur áttað sig á umbreytingunni úr pínulitlu fræi yfir í hráefni eins og trjáboli og planka. Einnig verða til sýnis skógarvélar og annar búnaður.

Meðan skipulögð dagskrá stendur yfir (kl. 13:00-16:00) verður hægt að fara í ratleik um Kjarnaskóg og taka þátt í skákmóti og að sjálfsögðu verður logandi eldur og hitað ketilkaffi, steiktar lummur, grillað pinnabrauð og poppað sem er sérlega skemmtilegt að sjá gert yfir eldi úti í skógi.

Allir eru velkomnir á Skógardag Norðurlands við sólúrið í Kjarnaskógi. Gestum er bent á að leggja bílum sínum á aðalbílastæðum við veginn gegnum skóginn og ganga upp eftir ef þess er nokkur kostur.


skogardagurnordurlands
Sólúrið í Kjarnaskógi (Mynd:RF).

Minnisvarði um fyrsta skógræktarstjórann afhjúpaður

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands, ásamt Skógræktarfélagi Reykjavíkur, Skógrækt ríkisins, og Landgræðslu ríkisins stóðu að gerð minnisvarða í skógarlundi í Heiðmörk í virðingarskyni við starf fyrsta skógræktarstjóra landsins, Agner Francisco Kofoed-Hansen en hann vann ötullega að skógrækt og sandgræðslu á Íslandi. Var minnisvarðinn afhjúpaður við hátíðlega athöfn þann 18. júní.

Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra Íslands, hafði óbilandi trú á skógrækt til að vinna gegn umfangsmikilli landeyðingu í upphafi síðustu aldar. Hann vann að því að sett yrðu lög um skógrækt og voru þau samþykkt á Alþingi haustið 1907. Fyrsti skógræktarstjóri Íslands, Agner Francisco Kofoed-Hansen, var ráðinn til starfa ári síðar og starfaði til 1935.

Fyrirmyndin að gagnsemi skógræktar til að takast á við sandfok og landeyðingu var sótt til Danmerkur. Þar hafði mikill árangur náðst við að stemma stigu við landeyðingu á jósku heiðunum. Danir höfðu frumkvæði að því að efla áhuga Íslendinga á skógrækt og sandgræðslu.

A. F. Kofoed- Hansen fæddist í Danmörku 1869. Hann var skógfræðingur að mennt og hafði mikla reynslu í stjórnun ræktunarframkvæmda bæði í Svíþjóð og Rússlandi. Hann var skipaður skógræktarstjóri í byrjun árs 1908. Ekki höfðu allir jafn mikla trú á þýðingu skógræktar og Hannes Hafstein og sýndi A.F. Kofoed-Hansen mikla þolinmæði og þrautseigju við að efla skilning á þýðingu þess að vernda og auka umfang skóga í landinu. Meginstefið í starfi hans var friðun og verndun birkiskóga sem voru í mikilli afturför þegar hann tók við starfi. Einkunnarorð sem hann starfaði eftir lýsa þessu vel en þau voru: „Verndaðu vel og rétt kjarrið sem til er og það mun þroskast og verða skógur meðan þú sefur.“

Agner Francisco Kofoed-Hansen lést í Reykjavík 7. júní 1957.

minnisvardi

Bókarkaffi: Heilbrigði trjágróðurs

Með Ýmislegt

Guðmundur Halldórsson og Halldór Sverrisson munu kynna nýútkomna bók sína Heilbrigði trjágróðurs miðvikudaginn 4. júní frá kl. 17:00-19:00. Kynningin verður haldin í sal Garðyrkjufélags Íslands, Síðumúla 1 (gengið inn Ármúlamegin). Boðið verður upp á kaffi og léttar veitingar.

Heilbrigði trjágróðurs er aðgengileg og gagnleg handbók, ætluð þeim sem rækta tré sér til ánægju og nytja og öðrum sem hafa áhuga á náttúru Íslands. Hún bætir úr brýnni þörf því ýmsir nýir trjáskaðvaldar hafa borist til landsins á síðustu árum.

Í bókinni er öllum helstu sjúkdómum og meindýrum sem herja á trjágróður á Íslandi og skaðvöldunum lýst í máli og myndum. Auk þess er fjallað um skemmdir af völdum veðurs og ýmissa annarra umhverfisþátta.

Almennt verð: kr. 3.490,-
Kynningar verð: kr. 2.650,-


bok-heilbrigdi

Sumardagurinn fyrsti hjá Garðyrkjuskólanum á Reykjum

Með Ýmislegt

Opið hús verður sumardaginn fyrsta í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi kl. 10:00-17:30. Hátíðardagskrá hefst kl. 14:00.

Í aðalbyggingu skólans fer fram Íslandsmeistarakeppni í blómaskreytingum, hægt er að heimsækja hitabeltið í bananahúsinu og pottaplöntusafninu, verkefni nemenda í skrúðgarðyrkju verða til sýnis í verknámshúsi og á útisvæði verður námskeið í torf- og grjóthleðslu.

Nýlega kom í hús önnur uppskera af kaffi úr bananahúsi skólans. Hægt verður að kaupa sér bolla af kaffi og smakka hvernig til hefur tekist, en hver bolli er sérmerktur og fylgir með í kaupunum.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands – www.lbhi.is.

Garðyrkjuverðlaunin 2014

Með Ýmislegt

Garðyrkjuverðlaunin verða afhent í ellefta sinn á sumardaginn fyrsta þann 24. apríl n.k. við hátíðlega athöfn á opnu húsi hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum. Með verðlaunaveitingunni vill Landbúnaðarháskólinn heiðra þá sem staðið hafa sig vel í að vinna að framgangi garðyrkjunnar á ýmsum sviðum hennar.

Það er metnaður skólans að sem flestir komi að því að velja þá aðila sem heiðraðir eru. Því er óskað eftir tilnefningum frá öllum þeim sem láta sig málið skipta. Hverri tilnefningu þarf að fylgja örstutt röksemdafærsla fyrir því af hverju viðkomandi á verðlaun skilið. Veitt eru verðlaun í eftirfarandi flokkum:
1) Heiðursverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir tilnefningum um einstaklinga sem skarað hafa fram úr á sviði garðyrkjunnar að mati stéttarinnar og skólans.
2) Verknámsstaður ársins => Hér er óskað eftir að tilnefndur verði verknámsstaður ársins 2014, staður sem hefur staðið sig sérlega vel við að leiðbeina nemendum skólans í verknámi.
3) Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir að tilnefndir verði aðilar sem eru að vinna að athyglisverðum og framsæknum nýjungum í greininni og eiga skilið að fá hvatningu til að halda áfram á sömu braut.

Tilnefningar þurfa að berast skólanum í síðasta lagi fimmtudaginn 10. apríl 2014 á netfangið bjorgvin@lbhi.is.

Skrifstofa Skógræktarfélags Íslands lokuð 4. apríl

Með Ýmislegt

Allt starfsfólk Skógræktarfélags Íslands verður föstudaginn 4. apríl á málþingi um kynbætur á yndisplöntum fyrir Íslands, sem félagið stendur að í samvinnu við Garðyrkjufélag Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands og verður skrifstofan því lokuð þann dag. Skrifstofan opnar aftur að venju á mánudaginn 7. apríl.