Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Umsókn í Minningarsjóð Hjálmars R. Bárðarsonar og Else Bárðarson

Með Ýmislegt

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða um fjórar milljónir króna. Umsóknum skal skila eigi síðar en 25. janúar 2016.

Umsóknareyðublöð er að finna á heimasíðum Skógræktarfélags Íslands, Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins. Umsókn ásamt fylgigögnum skal skila í einu pappírseintaki og á tölvutæku formi. Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá.

Nánari upplýsingar gefur formaður sjóðsins, Guðbrandur Brynjúlfsson, í síma 844-0429, netfang buvangur@emax.is.


Umsóknum skal skila til:

Landgræðslusjóður
b/t Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson
Þórunnartúni 6
105 Reykjavík

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2015

Með Ýmislegt

Jóla- og tækifæriskort Skógræktarfélags Íslands árið 2015 er komið út. Kortið prýðir mynd eftir Ágúst Bjarnason og prýðir sú mynd einnig forsíðu 2. heftis Skógræktarritsins 2015.

Ekkert er prentað inn í kortin, þannig að þau nýtast áfram eftir jól sem afmæliskort, boðsmiðar eða hvað sem fólki dettur í hug.

Kortin eru seld 10 saman í pakka með umslögum á kr. 2.000.

Hægt er að nálgast kortin á skrifstofu Skógræktarfélags Íslands, í Þórunnartúni 6, 2. hæð (næsti inngangur við antikbúðina). Einnig eru til nokkrar gerðir af eldri kortum (sjá hér), á kr. 1.000.

Þá er einnig hægt að panta kortin í síma 551-8150 eða með tölvupósti til skog (hjá) skog.is og fá þau póstsend en þá bætist við póstburðargjald.

tkort2015-max

Hátíð og gróðursetning í tilefni 35 ára afmælis forsetakjörs Vigdísar Finnbogadóttur

Með Ýmislegt

Þann 29. júní verða liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna til að verða þjóðkjörin forseti, og 100 ár frá því konur hér á landi fengu kosningarétt. Af þessu tilefni hefur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Alþingi og Reykjavíkurborg, ásamt á fjórða tug félagasamtaka og stofnana, þar á meðal Skógræktarfélag Íslands, tekið höndum saman og efna til hátíðardagskrár sunnudaginn 28. júní, undir yfirskriftinni Þjóðin sem valdi Vigdísi.

Skógrækt, landgræðsla og náttúruvernd hafa verið Vigdísi afar hugleikin og hefur hún haldið þeim málefnum á lofti á opinberum vettvangi. Eitt besta dæmið þar að lútandi er að snemma í forsetatíð sinni tók hún upp þann sið að gróðursetja þrjú tré á þeim stöðum sem hún heimsótti – eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir komandi kynslóðir. Þótti því upplagt að skógræktarfélögin myndu marka þessi tímamót með gróðursetningu og fylgja fordæmi Vigdísar um trén þrjú.

Skógræktarfélögin og sveitarfélög um land allt, með stuðningi Skógræktarfélag Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga, ásamt Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Yrkjusjóði og Landgræðslusjóði munu því standa saman að gróðursetningu laugardaginn 27. júní í tengslum við hátíðina daginn eftir. Fyrirhugað er að gróðursetja þrjár trjáplöntur á hverjum stað og verður um að ræða stæðileg birki af yrkinu Embla, um 1,5-2,0 m á hæð.

Á Facebook-síðu viðburðarins  Gróðursetning í tilefni 35 ára afmælis forsetakjörs Vigdísar Finnbogadóttur verða settar inn nánari upplýsingar um gróðursetningu á hverjum stað, eftir því sem þær berast.

Yfirlit:
Akranes: Skógræktarfélag Akraness og Akraneskaupstaður gróðursetja í Garðalundi kl. 13:00.
Blönduós: Skógræktarfélag A-Húnvetninga og Blönduósbær gróðursetja í Fagrahvammi (Kvenfélagsgarður) kl. 16:00.
Borgarnes: Skógræktarfélag Borgarfjarðar gróðursetur við íþróttavöllinn í Borgarnesi kl. 12:30. 
Dalabyggð: Skógræktarfélag Dalasýslu og Dalabyggð gróðursetja við Auðarskóla kl. 17:00, sunnudaginn 28. júní.
Djúpivogur: Gróðursett verður í Hálsaskógi kl. 14:00.
Egilsstaðir: Skógræktarfélag Austurlands og Fljótsdalshérða gróðursetja í Tjarnargarði á Egilsstöðum kl. 15:30.
Garðabær: Skógræktarfélag Garðabæjar og Garðabær gróðursetja í Lundamóa kl. 13:00.
Garður: Gróðursett verður á opna svæðinu sunnan við sundlaugina kl. 11:00.
Grindavík: Skógræktarfélag Grindavíkur og Grindavíkurbær gróðursetja í minningarlundi í Sjómannagarði milli Hafnargötu og Mánagötu, kl. 13:00.
Grundarfjörður: Skógræktarfélag Eyrarsveitar og fleiri gróðursetja í Yrkjuhvamminn vestan við vatnstankinn undir Innra Hellnafelli, kl. 14:00.
Hafnarfjörður: Skógræktarfélag Hafnarfjarðar gróðursetur í Vigdísarlund á Víðistaðatúni kl. 10:00.
Hvalfjarðarsveit: Skógræktarfélag Skilmannahrepps gróðursetur við Furuhlíð kl. 11:00.
Höfn í Hornafirði: Skógræktarfélag A-Skaftfellinga gróðursetur við Sundlaugina í Höfn þegar skrúðganga fer hjá (milli kl. 20:30 og 21:00).
Hveragerði: Gróðursett verður í smágörðunum við hlið Hótels Arkar kl. 17:00, föstudaginn 26. júní.
Ísafjörður: Skógræktarfélag Ísafjarðar og Ísafjarðarbær gróðursetja í Karlsárskógi kl. 14:00. 
Kjósarhreppur: Skógræktarfélag Kjósarhrepps og Kjósarhreppur gróðursetja við Ásgarð kl. 11:00.
Kópavogur: Skógræktarfélag Kópavogs gróðursetur í Guðmundarlundi kl. 14:30, föstudaginn 26. júní.
Mosfellsbær: Skógræktarfélag Mosfellsbæjar gróðursetur í Meltúnsreit kl. 11:00.
Raufarhöfn: Gróðursett verður á bletti beint á móti Ráðhúsinu kl. 11:00.
Reykjanesbær: Skógræktarfélag Suðurnesja og Reykjanesbær gróðursetja í Paradís, neðan við Grænás, kl. 11:00.
Reykjavík: Skógræktarfélag Reykjavíkur gróðursetur við Bæjarhólinn á Elliðavatni kl. 14:00.
Siglufjörður: Skógræktarfélag Siglufjarðar og Fjallabyggð gróðursetja við kirkjuna á Siglufirði kl. 11:00.
Skagaströnd: Skógræktarfélag Skagastrandar gróðursetur sunnan við Spákonuhof kl. 11:00.
Skútustaðahreppur: Gróðursett verður í höfða kl. 14:30, mánudaginn 29. júní.
Stykkishólmur: Gróðursett verður í Hólmgarði kl. 11:00.
Þingeyjarsveit: Skógræktarfélag Fnjóskdæla gróðursetur á Hálsmelum í Fnjóskadal kl. 15:00.
Þingeyri: Skógræktarfélag Dýrafjarðar og Grunnskólinn á Þingeyri gróðursetja í svæði Yrkjuskógar skólans kl. 11:00.
Þorlákshöfn: Skógræktarfélag Þorlákshafnar og Ölfuss og Sveitarfélagið Ölfus gróðursetja í Skýjaborgum kl. 11:00. 

 


Landbúnaðarháskóli Íslands: Garð- og landslagsrunnar

Með Ýmislegt

Á vegum verkefnisins Yndisgróður er nú komið út nýtt rit með lýsingu á nítján íslenskum runnayrkjum, sem hafa um langt skeið verið í framleiðslu í ræktun hér á landi.

Ritið má nálgast á ritröð háskólans: http://www.lbhi.is/?q=is/rit_lbhi_0

Hjörtur Þorbjörnsson og Ólafur Sturla Njálsson sáu um yrkislýsingar og er útgáfa ritsins mikilvægur hluti af viðurkenningarferli íslenskra yrkja og liður í að meta gildi mikilvægra valinna garð- og landslagsrunna sem íslenskra úrvalsplantna.

Sumardagurinn fyrsti hjá Garðyrkjuskólanum á Reykjum 2015

Með Ýmislegt

Opið hús verður sumardaginn fyrsta í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi kl. 10:00-17:00. Hátíðardagskrá hefst kl. 14:00.

Sumarið er komið í garðskálanum og hægt er að heimsækja hitabeltið í bananahúsinu og pottaplöntusafninu. Verkefni nemenda í skrúðgarðyrkju verða til sýnis í verknámshúsinu. Kaffiveitingar og markaðstorg með garðyrkjuafurðir. Ýmiss konar afþreying er í boði fyrir börnin, andlitsmálun, ratleikur og fleira óvænt og skemmtilegt

Nánari upplýsingar á heimasíðu Landbúnaðarháskóla Íslands – www.lbhi.is.

Garðyrkjuverðlaunin 2015 – tilnefningar óskast!

Með Ýmislegt

Garðyrkjuverðlaunin verða afhent í tólfta sinn á sumardaginn fyrsta þann, 23. apríl nk., við hátíðlega athöfn á opnu húsi hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum í Ölfusi. Með verðlaunaveitingunni vill Landbúnaðarháskóli Íslands heiðra þá sem staðið hafa sig vel í að vinna að framgangi garðyrkjunnar á ýmsum sviðum hennar. Sú hefð hefur skapast að afhenda verðlaun í þremur flokkum en fleiri en einn geta fengið verðlaun í hverjum flokki, það er í höndum dómnefndar í hvert skipti að ákveða það.

Dómnefndina skipa að þessu sinni eftirtaldir starfsmenn skólans: Björgvin Eggertsson, verkefnisstjóri Grænni skóga, Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður Starfs- og endurmenntunardeildar og Guðrún Þórðardóttir, bókasafnsfræðingur.

Það er metnaður skólans að sem flestir komi að því að velja þá aðila sem við viljum heiðra hverju sinni. Því er óskað eftir tilnefningum frá öllum þeim sem láta sig málið skipta í þessa þrjá flokka. Hverri tilnefningu þarf að fylgja örstutt röksemdafærsla fyrir því af hverju viðkomandi á verðlaun skilið.

Verðlaunaflokkarnir eru eftirfarandi:
1) Heiðursverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir tilnefningum um einstaklinga sem skarað hafa fram úr á sviði garðyrkjunnar að mati stéttarinnar og skólans.
2) Verknámsstaður ársins => Hér er óskað eftir að tilnefndur verði verknámsstaður ársins 2015, staður sem hefur staðið sig sérlega vel við að leiðbeina nemendum skólans í verknámi.
3) Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir að tilnefndir verði aðilar sem eru að vinna að athyglisverðum og framsæknum nýjungum í greininni og eiga skilið að fá hvatningu til að halda áfram á sömu braut.

Tilnefningar þurfa að berast skólanum í síðasta lagi fimmtudaginn 9. apríl 2015 á netfangið bjorgvin@lbhi.is.

Fuglavernd: Fuglarnir í garðinum heima – námskeið ætlað börnum

Með Ýmislegt

Laugardaginn 7. febrúar kl 11:00 – 12:00 verður haldið námskeið á vegum Fuglaverndar og Garðyrkjufélags Íslands um garðfugla. Er námskeiðið haldið í Síðumúla 1 í Reykjavík. Steinar Björgvinsson fuglaskoðari ætlar að fræða börn um hvernig á að fóðra smáfugla í garðinum að vetri til eins og t.d. skógarþresti, snjótittlinga og svartþresti. Steinar sýnir börnunum myndir af garðfuglum, kennir þeim hvernig hægt er að búa til fuglafóður og segir þeim frá hvað fuglar vilja helst éta. Þá verður hugað að hvar best er að skilja fóðrið eftir svo kettirnir nái síður til fuglanna. Einnig verður sagt frá heppilegum hreiðurkössum, fuglaböðum og fleiru.

Foreldrar og aðrir aðstandendur barna eru hvött til að mæta með börnin á fugladag barna og fræðast um þá göfugu iðju að fóðra fugla. Þegar vetrarhörkur ríkja eiga fuglar erfiðara með að finna sér fæðu. Lífsbaráttan er hörð og þeir því oft háðir matargjöfum og þá er gott að eiga sér vin sem færir þeim fóður.

Aðgangur er frír.

fuglavernd  barnanamskeid

Auðnutittlingur sem hefur verið lengi í fóðrum í garði ljósmyndarans Arnars Óskarssonar á Selfossi.

Samningur um birkikynbætur undirritaður

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands, Skógrækt ríkisins og Garðyrkjufélag Íslands undirrituðu samning þann 3. febrúar um frærækt og viðhaldskynbætur á birkiyrkinu ´Emblu´.
Birkikynbætur hófust með formlegum hætti innan samstarfshóps sem kenndi sig við Gróðurbótafélagið snemma árs 1987, en þar í voru fulltrúar frá Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, Garðyrkjufélags Íslands, Garðyrkjuskóla ríkisins og Gróðrarstöðvarinnar Mörk, auk áhugamanna um bætt erfðaefni til garðyrkju og skógræktar í landinu. Árangur þess starfs er yrkið Embla, sem hefur reynst jafnbesta yrkið sem völ er á til ræktunar á innlendu birki í landinu. Fjallað var um upphaf verkefnisins og tilurð yrkisins í grein í Skógræktarritinu árið 1995.

Þorsteinn Tómasson plöntuerfðafræðingur hefur frá upphafi stýrt verkefninu sem hefur orðið hvatning til margvíslegra annarra verkefna sem lúta að erfðafræði íslenska birkisins. Í ljósi þeirrar þekkingar sem fékkst í framkvæmd þessa verkefnis var ákveðið árið 2009 að halda áfram kynbótum birkisins að mestu innan erfðamengis Emblu, með nokkrum viðbótum. Einnig að tryggja framtíðarskipulag um frærækt og áframhaldandi bötun yrkisins með formlegum hætti. Í því augnamiði var ákveðið að Skógræktarfélag Íslands og Garðyrkjufélag Íslands yrðu rétthafar yrkisins og bæru formlega ábyrgð á því en Þorsteinn ynni áfram að kynbótunum í umboði þessara félagssamtaka.

Garðyrkjufélag Íslands, Skógræktarfélag Íslands, Landgræðslusjóður, Framleiðnisjóður og Reykjavíkurborg hafa stutt verkefnið með fjárframlögum. Miklu munar um þátttöku Gróðrarstöðvarinnar Markar sem hefur veitt verkefninu mikinn stuðning og aðstöðu frá upphafi. Skógrækt ríkisins lagði til aðstöðu á Mógilsá. Þá hefur Skógrækt ríkisins einnig lagt verkefninu til mikilvæga fræræktaraðstöðu frá vordögum 2013 í gróðurhúsi á Tumastöðum í Fljótshlíð og vinnu við alla umönnun trjánna í fræræktinni. Öll vinna Þorsteins og annarra aðstandenda verkefnisins hefur verið framlag þeirra.

Samningurinn tryggir að áfram verði unnið að kynbótum á íslensku birki og eykur möguleika trjáræktenda á að fá til ræktunar úrvalsbirki sem er bæði harðgert, beinvaxið og hraðvaxta. Skógrækt ríkisins sér um frærækt hins kynbætta birkis og miðlun fræsins til ræktenda.

birkikynbaetur

F.v. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Þuríður Bachmann, formaður Garðyrkjufélags Íslands og Jón Loftsson skógræktarstjóri við undirritun samningsins.

Opið hús – nýjar bækur fyrir ræktunarfólk

Með Ýmislegt

Sumarhúsið og garðurinn hefur í ár gefið út tvær bækur í bókaflokknum Við ræktum. Verður opið hús sunnudaginn 14. desember kl. 14:00 – 18:00 að Fossheiði 1, Selfossi, til að fagna útgáfu Belgjurtabókarinnar sem kom út í byrjun mánaðarins. 

Höfundur bókarinnar, Sigurður Arnarson, fjallar um hina stóru og fjölbreyttu ætt belgjurta af þekkingu og reynslu sem garðeigandi og fyrrum skógarbóndi.

Í bókinni er ítarleg og vönduð umfjöllun um heila ætt plantna sem er jöfnum höndum nefnd belgjurtaætt og ertublómaætt á íslensku. Innan þessarar ættar eru tré, runnar og jurtir sem gæddar eru þeim eiginleika að geta nýtt gerla til að binda nitur andrúmsloftsins sér til hagsbóta. Slíkar plöntur spara áburðargjöf og stuðla að gróskumeira vistkerfi.

Á Íslandi má nýta þær í landbúnaði, skógrækt, garðrækt og landgræðslu. Fjallað er um tegundir innan ættarinnar sem einhver reynsla er af á Íslandi en einnig aðrar áhugaverðar plöntur sem margar hverjar eru líklegar til að geta þrifist hér á landi.

Einnig verður kynnt bókin Aldingarðurinn, eftir Jón Guðmundsson garðyrkjufræðing, sem kom út í sömu ritröð fyrr á árinu.

Nánari upplýsingar á heimasíðu Sumarhússins og garðsins, www.rit.is.

belgjurtir cover-2014