Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Skógardagur á 50 ára afmæli Mógilsár

Með Ýmislegt

Hálfrar aldar vísindastarfi á Rannsóknastöð skógræktar Mógilsá verður fagnað í skóginum við stöðina sunnudaginn 20. ágúst. Haldinn verður skógardagur að skógarmanna sið og gestir fá að kynnast þeim spennandi verkefnum sem starfsfólk stöðvarinnar vinnur að.

Lögð verður áhersla á starfið á Mógilsá og starfsfólk kynnir verk sín og verkefni. Sýndar verða trjámælingar, pöddur, klipping stiklinga, efni um kolefnisbindingu og margt fleira. Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, sýnir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að spreyta sig með hnífinn. Bakaðar verða lummur og hitað ketilkaffi með meiru eins og skylt er á skógardegi. Skógrækt er ekki bara ræktun heldur líka nytjar og því er líka við hæfi að kljúfa við og saga, jafnvel að fara í axarkast og annað sem skógarmönnum kann að detta í hug. Í tilefni hálfrar aldar afmælisins verða líka gróðursettar 50 eikur.

Allt áhugafólk um skógrækt, skógarnytjar, skógarmenningu og skógarvísindi er boðið velkomið á afmælishátíðina milli klukkan 14 og 17 sunnudaginn 20. ágúst.

Skógardagur Norðurlands

Með Ýmislegt

Skógardagur Norðurlands verður haldinn laugardaginn 19. ágúst kl. 13-16 í Kjarnaskógi, í tilefni 70 ára afmælis Kjarnaskógar. Nýtt útivistar- og grillsvæðið á og við Birkivöll verður formlega tekið í notkun. Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri ávarpar afmælisbarnið og skrifað verður undir samning um nýjan Yndisgarð sem fyrirhugað er að koma upp í skóginum með úrvali skrautrunnategunda.

Fræðsla verður um Yndisgarðinn í „fundarsal“ sem útbúinn hefur verið undir greinum stórra grenitrjáa í skóginum. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur sýnir ýmsar sveppategundir sem lifa í skóginum. Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktarinnar, kennir réttu handbrögðin við tálgun og fólk fær að prófa að tálga töfrasprota og fleira. Skátar kynna hátíð sem fer fram á Hömrum um kvöldið og svo verður auðvitað ketilkaffi, lummur, popp, svaladrykkir, sveppasúpa, ratleikur, fræðsluganga um Birkivöll og nágrenni ásamt fleiru. 

Að Skógardegi Norðurlands standa Skógræktarfélag Eyfirðinga, Skógræktin, Félag skógarbænda á Norðurlandi, Sólskógar og Akureyrarbær.

Kynningarspjald (pdf)

Ljóðasamkeppni Yrkjusjóðs 2017

Með Ýmislegt

Árið 2017 fagnar Yrkjusjóður 25 ára afmæli. Í tilefni þess efndi sjóðurinn, í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands, til ljóðasamkeppni meðal grunnskólabarna, undir þemanu: Skógurinn minn. Mjög góð þátttaka var í samkeppninni en rúmlega 450 ljóð bárust.

Verðlaunaafhending í samkeppninni var haldin þriðjudaginn 23. maí í sal Garðyrkjufélags Íslands. Veitt voru verðlaun í tveimur flokkum, fyrir besta ljóð 5. – 7. bekkjar og besta ljóð 8. – 10. bekkjar. Fyrir ljóð á miðstigi hlaut Álfdís Jóhannsdóttir, Breiðagerðisskóla, verðlaun fyrir ljóð sitt Tónaskógur, en besta ljóð efsta stig þótti ljóðið Haust eftir Sóleyju Önnu Jónsdóttur, Hrafnagilsskóla.

Að auki ákvað dómnefnd að veita sérstaka viðurkenningu fyrir sjö ljóð til viðbótar, fimm á miðstigi og tvö á efsta stigi. Á miðstigi hlutu sérstaka viðurkenningu Ástvaldur Mateusz Kristjánsson, Grunnskólanum á Þingeyri, Breki Hlynsson, Hofsstaðaskóla, Emelía Óskarsdóttir, Grunnskóla, Seltjarnarness, Leifur Jónsson, Hofsstaðaskóla og Sigurþór Árni Helgason, Hvolsskóla. Á efsta stigi hlutu svo Kría Sól Guðjónsdóttir og Dagmar Ýr Eyþórsdóttir, Lágafellsskóla og Sana Salah Karim, Lindaskóla viðurkenningu. Fengu þau öll trjáplöntu að gjöf.

yrkjuverdlaun

Verðlauna- og viðurkenningarhafar ljóðasamkeppninnar. F.v. Sana, Álfdís, Breki, Sigurþór Árni, Kría Sól og Dagmar Ýr. Emelía var farin þegar myndin var tekin og Sóley Anna, Leifur og Ástvaldur gátu ekki komið á afhendinguna (Mynd: HE).

Vinningsljóð 5. – 7. bekkur

Tónaskógur

Skógurinn er fagur.
Það er eins og hann syngi.
Tónarnir streyma upp og niður
trommusláttur þegar vatnið skvettist,
hörputónar þegar greinarnar hreyfast
bjöllur klingja þegar laufin falla
og kórinn byrjar þegar grasið vex.

Álfdís Jóhannsdóttir, Breiðagerðisskóla

 

Vinningsljóð 8. – 10. bekkur

Haust

Ég sveif upp í rjóður,
andaði að mér ilmi trjánna.
Ég hljóp framhjá krökkum að ærslast,
hló með þeim er hár þeirra fauk til.
Ég fór út til regnsins og hjálpaði því að vökva blómin.
Þegar nóttin kom faldi ég mig í skóginum og lék mér þar.
„Ég er Golan,“ hvíslaði ég til laufanna áður en ég vaggaði þeim í svefn.

Sóley Anna Jónsdóttir, Hrafnagilsskóla


Allir krakkar sem sendu inn ljóð fengu sent viðurkenningaskjal með þökk fyrir þátttökuna og styrkti prentsmiðjan Oddi prentun á þeim, sem og prentun á skjölum verðlauna- og viðurkenningahafa.



Opið fyrir styrkumsóknir: Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson

Með Ýmislegt

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða 4,2 milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 10. janúar 2017. H

jálmar R. Bárðarson, f.v. siglingamálastjóri, ánafnaði Landgræðslusjóði 30% af eigum sínum, en hann lést 7. apríl 2009. Óskaði hann eftir því að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar, „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“, eins og segir í erfðaskránni.

Ákveðið var að verja hluta arfsins til stofnunar sjóðs, sem starfa mun í 10 ár, með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðsla ríkisins, sem erfði Hjálmar til jafns við Landgræðslusjóð, lagði sjóðnum einnig til fé. Er sjóðnum ætlað að heiðra minningu Hjálmars og konu hans Else Sörensen Bárðarson, sem andaðist 28. maí 2008.

Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar.

Umsóknareyðublað, ásamt reglum um úthlutun styrkja og skipulagsskrá sjóðsins má nálgast hér.

Jólaskógurinn í Brynjudal – opið fyrir bókanir

Með Ýmislegt

Eins og undanfarin ár tekur Skógræktarfélag Íslands á móti skipulögðum hópum sem efna til fjölskylduferða í jólatrjáaskóginn í Brynjudal. Í flestum tilvikum er um að ræða fyrirtæki eða starfsmannafélög þeirra, sem mörg hver koma á hverju ári og er heimsókn í jólaskóginn orðinn ómissandi þáttur í jólahaldinu hjá mörgum fjölskyldum.

Byrjað er að taka niður bókanir fyrir jólin í ár, en tekið verður á móti hópum helgarnar 3.-4., 10.-11. og 17.-18. desember, auk  sunnudagsins 27. nóvember. Athugið að hér gildir fyrstur kemur – fyrstur fær. Nú þegar eru dagar að verða fullbókaðir, þannig að það er betra að bóka dag og tíma fyrr frekar en síðar til að vera viss um að fá tíma sem hentar.

Til að bóka heimsókn eða fá nánari upplýsingar hafið samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551-8150 eða á netfangið rf (hjá) skog.is.

brynjud2016

Grasagarður Reykjavíkur: Reyniviður að hausti

Með Ýmislegt

Í Grasagarði Reykjavíkur er mikið reynisafn sem skartar sínu fegursta á haustin með fögrum litbrigðum laufanna og reyniberjum sem spanna allt frá hvítu yfir í bleikt og eldrautt.

Reynitrén í Grasagarðinum telja nokkra tugi tegunda og koma meðal annars frá Íslandi og Grænlandi, Nýfundnalandi, Pakistan og Japan svo fátt eitt sé talið.

Laugardaginn 1. október kl. 14 mun Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður Grasagarðsins, leiða fræðslugöngu um reynisafn garðsins. Gangan hefst við aðalinngang Grasagarðsins við Laugatungu.

Aðgangur ókeypis og allir velkomnir!

Umhverfissjóður Íslenskra Fjallaleiðsögumanna: Opið fyrir umsóknir

Með Ýmislegt

Íslenskir Fjallaleiðsögumenn stofnuðu á 20 ára afmæli sínu Umhverfissjóð til að fjármagna verndun íslenskrar náttúru og er styrkjum úthlutað úr sjóðnum á tveggja ára fresti. Með því vill fyrirtækið stuðla að því að komandi kynslóðir getið notið gæða náttúrunnar um ókomin ár.

Hægt er að sækja um verkefni til uppbyggingar, viðhalds og endurbóta mannvirkja, í stígagerð og til uppgræðslu. Fyrirtæki, einstaklingar, eignarhaldsfélög, félagasamtök, sveitarfélög og opinberar stofnanir geta fengið framlög frá sjóðnum.

Umsóknum skal skilað fyrir 10. apríl í tölvupósti á netfangið umhverfissjodur@fjallaleidsogumenn.is. Þeim gögnum sem ekki er unnt að skila rafrænt má skila bréfleiðis til Umhverfisjóðs ÍFLM, Stórhöfða 33, 110 Reykjavík. Úthlutað er úr sjóðnum fyrir 10. maí.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Íslenskra Fjallaleiðsögumanna – https://www.fjallaleidsogumenn.is/um-okkur/frettir/opid-er-fyrir-umsoknir-ur-umhvefissjodi-iflm/

Garðyrkjuverðlaunin 2016 – tilnefningar óskast!

Með Ýmislegt

Garðyrkjuverðlaunin verða afhent í þrettánda sinn á sumardaginn fyrsta þann 21. apríl nk. við hátíðlega athöfn á opnu húsi hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum. Með verðlaunaveitingunni vill Landbúnaðarháskóli Íslands heiðra þá sem staðið hafa sig vel í að vinna að framgangi garðyrkjunnar á ýmsum sviðum hennar. Sú hefð hefur skapast að afhenda verðlaun í þremur flokkum en fleiri en einn geta fengið verðlaun í hverjum flokki, það er í höndum dómnefndar í hvert skipti að ákveða það.

Dómnefndina skipa eftirtaldir starfsmenn skólans: Björgvin Eggertsson, verkefnisstjóri Grænni skóga, Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður Starfs- og endurmenntunardeildar og Guðrún Þórðardóttir, bókasafnsfræðingur.

Það er metnaður skólans að sem flestir komi að því að velja þá aðila sem við viljum heiðra hverju sinni. Með þessu bréfi er óskað eftir tilnefningum frá öllum þeim sem láta sig málið skipta í þessa þrjá flokka. Hverri tilnefningu þarf að fylgja örstutt röksemdafærsla fyrir því af hverju viðkomandi á verðlaun skilið.

Verðlaunaflokkarnir eru eftirfarandi:

1) Heiðursverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir tilnefningum um einstaklinga sem skarað hafa fram úr á sviði garðyrkjunnar að mati stéttarinnar og skólans.

2) Verknámsstaður ársins => Hér er óskað eftir að tilnefndur verði verknámsstaður ársins 2015, staður sem hefur staðið sig sérlega vel við að leiðbeina nemendum skólans í verknámi.

3) Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir að tilnefndir verði aðilar sem eru að vinna að athyglisverðum og framsæknum nýjungum í greininni og eiga skilið að fá hvatningu til að halda áfram á sömu braut.

Tilnefningar þurfa að berast skólanum í síðasta lagi fimmtudaginn 7. apríl 2016 á netfangið bjorgvin (hjá) lbhi.is.

Ályktun vegna nýrra búvörusamninga

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands, Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands hafa sent frá sér sameiginlega ályktun í tengslum við nýja búvörusamninga. Telja félögin það grundvallaratriði að ríkisstuðningur við bændur í nýjum búvörusamningum verði skilyrtur við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og að komið verði í veg fyrir beit á örfoka landi.

Síðustu mánuði hafa fulltrúar bænda og ríkisins setið við samningaborðið vegna nýrra búvörusamninga, m.a. um starfsskilyrði sauðfjárframleiðslu á Íslandi. Rætt er um tíu ára samninga og þar með að skuldbinda ríkissjóð til a.m.k. 50 milljarða króna greiðslu til sauðfjárræktar á tímabilinu sé tekið mið af árlegum beinum stuðningi um þessar mundir.

Undirrituð samtök hafa fullan skilning á því að styðja þurfi við hinar dreifðu byggðir landsins til þess m.a. að tryggja byggð í sveitum þar sem sauðfjárrækt hefur verið undirstaða búsetu, varðveita fornnorrænt sauðfjárkyn og tryggja framboð á lambakjöti fyrir innanlandsmarkað. Samtökin leggja hinsvegar ríka áherslu á að skilyrða verði slíkan stuðning við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og tryggja framfylgd slíkrar stefnu. Algert lykilatriði er að gerður sé greinarmunur á landi sem er í góðu ástandi til beitar og landi sem þolir ekki beit. Styrkjakerfið þarfnast uppstokkunar í takti við hugmyndafræði um sjálfbæra landnýtingu og grænt hagkerfi. Sátt þarf að nást um að friða þá afrétti sem ekki þola beit, og um ný beitarviðmið sem tryggja vernd og styrkingu gróðurs og jarðvegs og efla ímynd landbúnaðarins á sama tíma. Í núgildandi samningi er vissulega ákvæði sem kveður á um sjálfbærni, sbr: „1.3. Að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu.“ Þessu ákvæði þarf að framfylgja með virku eftirlits- og gæðastýringarkerfi.

Undirrituð samtök hafa sett fram nokkur grundvallaratriði sem þau beina til samningsaðila að líta til við lokagerð nýrra búvörusamninga. Í stuttu máli eru þau:

1. Frumskilyrði fyrir ríkisstuðningi við sauðfjárrækt verði að nýting gróður- og jarðvegsauðlindarinnar standist kröfur um sjálfbæra landnýtingu. Beit á auðnum, rofsvæðum og illa förnum hálendissvæðum á gosbeltinu á ekki að njóta ríkisstuðnings.
2. Auka þarf fjölbreytni atvinnutækifæra í byggðarlögum þar sem sjálfbær nýting afrétta er erfið eða ógerleg og beina ríkisstyrkjum til annars konar aðgerða til styrktar landsbyggðinni.
3. Breyta þarf úreltri löggjöf á sviði skógræktar og landgræðslu þannig að hið opinbera geti brugðist við og komið í veg fyrir ósjálfbæra nýtingu. Þá þarf að breyta lögum þannig að vörsluskylda búfjár verði meginregla en lausaganga undantekning.
4. Á sumum svæðum hefur gæðastýring stuðlað að ábyrgari landnýtingu. Þetta starf verður að styrkja til að tryggja að beit valdi ekki skaða á beitilöndum.
5. Sátt þarf að nást um algera friðun verst förnu afréttanna og styrkjakerfið verður að tryggja hana.
6. Huga þarf að alþjóðlegum samningum á sviði umhverfismála sem gera ráð fyrir að spornað sé gegn landeyðingu og illa farin vistkerfi endurheimt. Bændur spila þar lykilhlutverk sem þátttakendur í landbótaverkefnum.
7. Á meðan kjötframleiðsla byggir á ósjálfbærri nýtingu á hluta landsins verður öll markaðssetning því marki brennd að gengið sé á gróðurauðlindina. Þannig orkar sannarlega tvímælis að kjöt af fé sem að hluta til er alið á svæðum sem ekki þola beit sé niðurgreitt til útflutnings.
8. Samkvæmt forsetaúrskurði frá árinu 2012 skal umhverfis- og auðlindaráðuneytið fara með málefni sjálfbærrar þróunar, þ.m.t. ráðgjöf um nýtingu auðlinda. Ráðuneytið þarf að koma að gerð samninganna.
9. Hinn alþjóðlegi Árósasamningur, sem Ísland er aðili að, á að tryggja aðkomu félagasamtaka að ákvarðanatöku er varðar umhverfismál. Samningsaðilar eru hvattir til að taka tillit til krafna undirritaðra samtaka.


Ályktunin í heild fylgir hér á eftir:

Ályktun Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Skógræktarfélags Íslands um búvörusamninga og náttúruvernd

Ályktunin er send landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, formanni og framkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands og formanni og framkvæmdastjóra Landssamtaka sauðfjárbænda. Afrit er sent umhverfis- og auðlindaráðherra.

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Skógræktarfélag Íslands telja það grundvallaratriði að ríkisstuðningur við bændur í nýjum búvörusamningum sé skilyrtur við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og að komið verði í veg fyrir beit á örfoka landi.

Síðustu mánuði hafa fulltrúar bænda og ríkisins setið við samningaborðið vegna nýrra búvörusamninga, m.a. um starfsskilyrði sauðfjárframleiðslu á Íslandi. Rætt er um tíu ára samninga og þar með að skuldbinda ríkissjóð til a.m.k. 50 milljarða króna greiðslu til sauðfjárræktar á tímabilinu sé tekið mið af árlegum beinum stuðningi um þessar mundir.

Undirrituð samtök hafa fullan skilning á því að styðja þurfi við hinar dreifðu byggðir landsins til þess m.a. að tryggja byggð í sveitum þar sem sauðfjárrækt hefur verið undirstaða búsetu, varðveita fornnorrænt sauðfjárkyn og tryggja framboð á lambakjöti fyrir innanlandsmarkað. Samtökin leggja hinsvegar ríka áherslu á að skilyrða verði slíkan stuðning við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda og tryggja framfylgd slíkrar stefnu. Algert lykilatriði er að gerður sé greinarmunur á landi sem er í góðu ástandi til beitar og landi sem þolir ekki beit. Styrkjakerfið þarfnast uppstokkunar í takt við hugmyndafræði um sjálfbæra landnýtingu og grænt hagkerfi. Sátt þarf að nást um að friða þá afrétti sem ekki þola beit, og um ný beitarviðmið sem tryggja vernd og styrkingu gróðurs og jarðvegs og efla ímynd landbúnaðarins á sama tíma. Í núgildandi samningi er vissulega ákvæði sem kveður á um sjálfbærni, sbr: „1.3. Að sauðfjárrækt sé stunduð í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og sjálfbæra landnýtingu“. Þessu ákvæði þarf að framfylgja með virku eftirlits- og gæðastýringarkerfi.

Hér eru sett fram nokkur grundvallaratriði sem neðangreind samtök telja að hafa verði í huga við gerð nýrra búvörusamninga. Samningsaðilar eru hvattir til að taka tillit til þessara atriða.

1. Bændur sem vörslumenn lands
Stuðningur við sauðfjárrækt er mikilvægur til að viðhalda byggð á mörgum svæðum landsins. Slíkan stuðning ber að skilyrða við sjálfbæra nýtingu beitilanda og koma þarf í veg fyrir framleiðslu sem bitnar á landgæðum. Að okkar mati er brýnt að auka fjölbreytni atvinnu- tækifæra í byggðarlögum þar sem sjálfbær nýting afrétta er erfið eða ógerleg og beina ríkisstyrkjum frekar yfir í landvörslu og endurheimt landgæða, aukna skóggræðslu og aðra endurhæfingu illa gróins lands, nýsköpun í náttúru- og menningartengdri ferðaþjónustu og fullvinnslu afurða, svo eitthvað sé nefnt. Benda má á styrkjakerfi til skógarbænda sem einmitt var komið á til að auka fjölbreytni atvinnutækifæra.

2. Stuðningur við sauðfjárrækt verði skilyrtur við sjálfbæra nýtingu
Frumskilyrði fyrir ríkisstuðningi til sauðfjárræktar og annarra búgreina þarf að vera sjálfbær nýting gróður- og jarðvegsauðlindarinnar. Beit tíðkast því miður enn á auðnum, rofsvæðum og illa förnum hálendissvæðum á gosbeltinu, og víðar um land, þrátt fyrir gæðastýringarkerfi í sauðfjárrækt. Bæði Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) og fagaðilar hér heima hafa ítrekað bent á þessa alvarlegu staðreynd. Beit á örfoka landi er ósjálfbær og ekki forsvaranlegt að hún njóti ríkisstuðnings. Fé fjölgar nú aftur í landinu og þótt loftslag sé hagfelldara nú en fyrir 30 árum eru stór landsvæði sem standa ekki undir núverandi beit, hvað þá fjölgun.

3. Löggjöf
Landbúnaðurinn og ríkisfagstofnanir á sviði skógræktar og landgræðslu, landeigendur og raunar landsmenn allir búa við úrelta löggjöf sem ekki virðir stjórnarskrárvarinn eignarrétt og getur með engum hætti brugðist við eða komið í veg fyrir ósjálfbæra nýtingu. Um það ber skýrt vitni m.a. úrskurður ítölunefndar sem leyfði beit á örfoka landi á Almenningum ofan Þórsmerkur. Lög sem móta réttindi og skyldur sauðfjáreigenda veita þeim réttindi umfram aðra landeigendur og borgara sem vilja nýta landið með öðrum hætti. Breyta þarf lögum á þann hátt að vörsluskylda búfjár verði meginregla en lausaganga undantekning, líkt og í öllum þeim löndum sem Íslendingar vilja bera sig saman við. Búfjáreigendur ættu í öllum tilfellum að bera ábyrgð á sínu búfé á því landi sem þeir nýta. Eignarréttur landeigenda sem kæra sig ekki um að gróðurlendi þeirra séu beitt af búsmala annarra skal virtur til jafns við annan eignarrétt. Undirrituð samtök telja afar brýnt að breyta löggjöfinni þannig að hið opinbera geti gripið inn í með afgerandi hætti og stöðvað lausagöngu og beit á örfoka landi.

4. Lausaganga
Lausaganga búfjár hefur í för með sér kostnað sem lendir á öðrum landnotendum. Þeir sem ekki halda sauðfé þurfa að verja land sitt vegna lausagöngu sauðfjár. Sauðfjárgirðingar eru miklu dýrari en girðingar um hross og kýr. Samt þarf að verja tún, skógræktarreiti, sumarhús, akra, skjólbelti, uppgræðslulönd, bæjarfélög o.fl. með sauðfjárgirðingum. Eðlilegra væri að þessi kostnaður yrði til hjá þeim sem halda sauðfé en hinum sem þurfa að verja sig fyrir ágangi þess. Því má telja eðlilegt að hluti styrkja til sauðfjárræktar renni til þeirra sem halda vilja fé sitt í afgirtum, vel grónum hólfum. Aukin vörsluskylda auðveldar öðrum landnotendum að nýta land sitt á þann hátt sem þeir kjósa og stuðlar að gróskumeiri byggðum og nýsköpun.

5. Verst förnu afréttirnir og efling gæðastýringar
Góður árangur hefur náðst sums staðar hvað varðar landnýtingarþátt gæðastýringar í sauðfjárrækt. Þannig hefur t.d. dregið úr beit á sumum verst förnu afréttum landsins þar sem bændur hafa friðað stór svæði auðna með beitarstýringu. Því miður dugar það ekki til, sumir þessara afrétta eru að mati fagaðila einfaldlega ekki beitarhæfir. Sátt þarf að nást um algera friðun verst förnu afréttanna og styrkjakerfið verður að tryggja hana. Gera verður þá kröfu til gæðastýringar að hún komi í veg fyrir ósjálfbæra beit og sé beitt sem virku stjórntæki til að verðlauna þá sem vel gera en aftengi stuðning við aðila sem stunda ósjálfbæra nýtingu beitilanda. Þá þarf gæðastýringin að tryggja að eftirlitsaðilar geti framfylgt ákvæðum um sjálfbæra landnýtingu og tryggt að þau svæði sem flokkast sem óbeitarhæft land séu í reynd ekki beitt.

6. Alþjóðlegir samningar og vistspor kjötframleiðslu
Beit á auðnum og rofsvæðum skaðar ímynd sauðfjárframleiðslu og þar með orðspor og afkomu bændastéttarinnar í heild sinni í bráð og lengd. Íslendingar eru aðilar að alþjóðlegum sáttmálum á sviði umhverfismála, m.a. Samningi um varnir gegn eyðimerkurmyndun, Loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna og Samningi S.þ. um líffræðilega fjölbreytni. Allir gera þessir samningar ráð fyrir að spornað sé gegn landeyðingu, fjölbreytni varðveitt og hnignuð vistkerfi endurheimt. Bændur taka víða um land þátt í landbótaverkefnum þar sem unnið er ötullega að vistheimt og bindingu gróðurhúsalofttegunda. Kjötframleiðsla sem byggir á ofbeit eða beit á auðnum og rofsvæðum er í ósamræmi við alþjóðlega samninga og þetta uppbyggingarstarf bænda.

7. Offramleiðsla, markaðssetning og ímynd landbúaðarins
Á meðan kjötframleiðsla byggir á ósjálfbærri nýtingu á hluta landsins verður öll markaðssetning því marki brennd að gengið sé á gróðurauðlinda og því töluverð hætta á að seljendur sem auglýsa vistvæna og hreina afurð verði sakaðir um grænþvott. Kindakjötsframleiðsla árið 2014 var 10.100 tonn, sem er mesta framleiðsla frá árinu 1988. Útflutningur á kindakjöti það sama ár var óvenju mikill eða um 4.700 tonn, en hefur verið nálægt 2.500 tonnum undanfarinn áratug. Það orkar sannarlega tvímælis að kjöt af fé sem að hluta til er alið á svæðum sem ekki þola beit sé niðurgreitt til útflutnings.

8. Aðkoma umhverfisyfirvalda lítil
Samkvæmt forsetaúrskurði frá árinu 2012 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands skal umhverfis- og auðlindaráðuneytið fara með málefni sjálfbærrar þróunar, þ.m.t. skilgreiningar á viðmiðum um sjálfbæra nýtingu auðlinda og stefnumörkun um sjálfbæra þróun og ráðgjöf um nýtingu þeirra. Það er því ekki bara sjálfsögð krafa heldur einnig í samræmi við verkaskiptingu Stjórnarráðs Íslands að umhverfisráðuneytið komi að þessari samningsgerð við bændur. Ekki hefur orðið vart við að sú sé raunin.

9. Árósasamningurinn ekki virtur
Samningsaðilum er bent á mikilvægt hlutverk frjálsra félagasamtaka og réttindi þeirra samkvæmt hinum alþjóðlega Árósasamningni til að taka þátt í ákvarðanatöku er varðar umhverfismál, en í samningnum er sérstaklega hvatt til þátttöku félagasamtaka á fyrstu stigum mála. Samningsaðilar hafa ekki kallað fulltrúa undirritaðra samtaka á sinn fund vegna búvörusamninganna. Það er gagnrýnivert.