Garðurinn Skrúður í Dýrafirði á aldarafmæli þann 7. ágúst næst komandi. Af því tilefni er verður efnt til sérstakrar hátíðar í garðinum frá kl. 14-17 á laugardaginn, 8. ágúst. Hátíðin er öllum opin og verður fjölbreytt dagskrá í anda þeirra hugmynda og gilda sem garðurinn hefur staðið fyrir í 100 ár.
Skrúður er einn elsti skrúðgarður landsins og var upphaflega komið á fót af séra Sigtryggi Guðlaugssyni, prófasti að Núpi, sem kennslugarði fyrir nemendur í ungmennaskólanum að Núpi. Garðinn átti að nýta til kennslu í jurtafræði og garðrækt, sem og til að koma nemendum á bragðið með neyslu garðávaxta, en séra Sigtryggur lagði mikla áherslu á mikilvægi ræktunar garðjurta til fæðubótar og heilbrigðis. Var hann í þeim málum að vissu leyti á undan sinni samtíð.
Auk gróðursins er margt forvitnilegt að sjá í garðinum. Reistur hefur verið þar minnisvarði um þau hjónin séra Sigtrygg og Hjaltlínu Guðjónsdóttur á Núpi og í garðinum eru kjálkabein af einni stærstu steypireyði sem fönguð hefur verið við Ísland. Einstök staðsetning Skrúðs, í náttúru snarbrattra fjallshlíða Dýrafjarðar, kemur einnig mörgum á óvart. Það var líka ætlun stofnandans á sínum tíma að sýna hvað hægt væri að rækta í hrjóstrugum jarðvegi við þessar aðstæður.
Nýlegar athugasemdir