Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Fuglavernd: fræðslufundur 17. febrúar

Með Ýmislegt

Miðvikudaginn 17. febrúar verður fimmti fræðslufundur vetrarins hjá Fuglavernd. Þá mun Sigurður Ægisson flytja í máli og myndum erindi um fugla í íslenskri þjóðtrú. Einnig mun hann koma inn á önnur svið sem tengjast þjóðtrúnni, svo sem alþýðuheiti fugla.

Sigurður er guðfræðingur og þjóðfræðingur að mennt og hefur um margra ára bil safnað heimildum um íslensku varpfuglana í menningarsögunni. Í erindi sínu mun hann fjalla um þetta áhugamál sitt, einkum það sem lýtur að hlut þjóðtrúarinnar og mun hann leiða viðstadda inn í þennan mjög svo athyglisverða heim.

Fundurinn byrjar kl. 20:30 og er haldinn í húsakynnum Arion-banka í Borgartúni 19. Fundurinn er öllum opinn svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 300 krónur fyrir aðra.

Nánar upplýsingar á vefsíðu Fuglaverndar.

Andlát: Björn Jónsson

Með Ýmislegt

bjornjonsson1
Björn Jónsson (Mynd: www.mbl.is)

Björn Jónsson, fyrrverandi skólastjóri Hagaskóla, lést á líknardeild Landspítalans á Landakoti 3. febrúar. Björn var 77 ára að aldri, fæddur á Ytra-Skörðugili í Skagafirði þann 3. júlí 1932. Björn lætur eftir sig tvö uppkomin börn, en kona hans, Guðríður Sigríður Magnúsdóttir, lést 2005.

Björn var mikill áhugamaður um skógrækt og stundaði hana á jörðinni Sólheimum í Landbroti um áratugaskeið. Hann hélt til fjölda ára vinsæl og vel sótt námskeið um ræktun áhugamannsins á vegum Skógræktarfélags Íslands og fékk hann viðurkenningu félagsins fyrir framlag til skógræktar árið 2006. Auk þess fékk hann viðurkenningu umhverfisráðuneytisins fyrir störf að umhverfismálum og riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til uppeldismála, menningar og skógræktar.

Eftir Björn liggja fjöldi áhugaverðra greina í Skógræktarritinu – Ársriti Skógræktarfélags Íslands, meðal annars því nýjasta sem kom út núna fyrir jólin.

Skógræktarfélag Íslands sendir fjölskyldu og vinum Björns sínar innilegustu samúðarkveðjur, með þökk fyrir áratuga langt og gott samstarf.

bjornjonsson2
Björn að kenna á námskeiði Skógræktarfélags Íslands árið 2005 (Mynd: JFG).

Ný heimasíða Skógfræðingafélags Íslands

Með Ýmislegt

Heimasíðan er mjög einföld að allri gerð, en það er samt von stjórnar félagsins að hún muni nýtast félagsmönnum og öðrum sem áhuga hafa á málefnum sem varða skógrækt á Íslandi. Það er hverju félagi nauðsynlegt að hafa einhvern miðil til að geta átt stöðug og góð samskipti bæði við félagsmenn sína og aðra sem félagið vill ná til. Skortur á slíkum miðli hefur staðið annars góðu starfi Skógfræðingafélagsins fyrir þrifum.

Síðuna má skoða hér. Ábendingar eða fréttir á síðuna má senda til stjórnar – stjorn@skogfraedingar.is

Fuglaverndarfélag Íslands: Garðfuglaskoðun

Með Ýmislegt

Dagana 29. janúar til 1. febrúar stendur Fuglaverndarfélag Íslands fyrir garðfuglaskoðun, þar sem landsmenn eru hvattir til að skoða og skrá fjölda og tegundir fugla í einn klukkutíma í görðum.  Markmiðið er að afla upplýsinga um hvaða tegundir eru til staðar og fjölda innan hverrar tegundar.

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Fuglaverndar – www.fuglavernd.is.

Af þessu tilefni býður Fuglavernd til fuglaskoðunar laugardaginn 30. janúar. Mæting er á bílastæðinu við Fossvogskirkjugarð kl. 14. Allir velkomnir.

gardfuglaskodun
Fuglavernd vill vekja áhuga á fuglum og töfrum þeirra  en á myndinni er auðnutittlingur (Mynd: Örn Óskarsson).

Áhugavert efni um vind og landslag

Með Ýmislegt

Alexander „Sandy“ Robertson er mörgu skógræktarfólki hér að góðu kunnur. Sandy er fæddur og uppalinn í Skotlandi, en vann lengst af í skógargeiranum á  Nýfundnalandi í Kanada, þar sem hann er búsettur. Hann er sannkallaður Íslandsvinur – kom fyrst hingað til lands árið 1962 og hefur komið margoft síðan, þar á meðal til námskeiðahalds við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.

Sandy opnaði fyrir nokkru vefsíðu titlaða Wind and Landscape, en samspil vinds, landslags og skóga hefur verið eitt aðal rannsóknarefni hans í gegnum tíðina. Á síðunni er margvíslegur fróðleikur um helstu áhugamál og viðfangsefni Sandys – rannsóknir hans,  Ísland, Nýfundnaland, Skotland, útskurð í við og sekkjapípur,  en eins og sönnum Skota sæmir er Sandy liðtækur sekkjapípuleikari.

Nú er búið að bæta efni á íslensku á síðuna – Lesið í vindinn, en það er íslensk útgáfa á samsafni skyggna um vind og landslag. Skyggnurnar hafa verið notaðar í námskeiðum sem haldin hafa verið hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, meðal annars námskeiðinu Skjól, skógur og skipulag (Landscape and Shelterwood), þar sem fjallað var um hinar ýmsu hliðar vinds og samverkun hans við landslag, meðal annars áhrif veðurfars, skjólmyndun, uppbyggingu skjólbelta, hönnun í sátt við umhverfið og líf-og jarðfræðilegan fjölbreytileika.  Er hér um fjársjóð fróðleiks að ræða, fyrir alla sem kljást við skógrækt í vindasömum löndum, eins og Ísland vissulega er á köflum.

Hér má finna tengil á síðuna – www.windandlandscape.com.

 

Sandy með sekkjapípuna (Mynd: BJ). 
sandy

 

Margir Íslendingar hafa komið að Lesið í vindinn með einum eða öðrum hætti gegnum árin – fólk frá Skógræktarfélagi Íslands, Skógrækt ríkisins og Landbúnaðarháskóla Íslands. Þýðing á Lesið í vindinn (Wind reader) var kostuð af Landgræðslu ríkisins og Ingvi Þorsteinsson náttúrurfræðingur annaðist þýðinguna. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Áhugaverð námskeið hjá Sumarhúsinu og garðinum

Með Ýmislegt

Sumarhúsið og garðurinn bjóða upp á ýmisleg námskeið nú í ár, sem áhugaverð gætu verið fyrir skógræktarfólk.  Má þar meðal annars nefna námskeið um ræktun ávaxtatrjáa og ræktun berjarunna, sem hefjast nú um mánaðamótin.

Framundan eru svo fleiri áhugaverð námskeið fyrir trjá- og skógræktendur, meðal annars námskeiðið Klipping trjáa og runna og viðarnytjar, Einn, tveir og tré, Skipulag og ræktun í sumarhúsalandinu og Skjólmyndun í garðinum.

 Nánari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Sumarhússins og garðsins (hér).

namskeid-sg
Það er hægt að rækta ýmsa ávexti hérlendis, eins og sjá má á þessu girnilega íslenska epli! (Mynd: RF).

Maður skógarins – áhugavert myndband

Með Ýmislegt

Árið 1992 var bókin Maður skógarins (L’homme qui plantait des arbres – Maðurinn sem plantaði trjám), eftir Jean Giono, gefin út í íslenskri þýðingu og rann hluti söluandvirðis hennar til skógræktar og landgræðslu. Er bókin skrýdd með fallegum tréristum.

Sagan segir frá fjárhirðinum (og síðar býflugnabóndanum) Elzéard Bouffier, sem einn síns liðs plantar trjám og endurheimtir skóg í dalverpi nokkru í Provence, í upphafi 20. aldar. Hefur sagan verið þýdd á fjölda tungumála.

Áhugaverða stuttmynd eftir sögunni má skoða á vefnum (hér) með ensku tali (myndin er um 30 mínútur á lengd). Fyrir þá sem vilja kynna sér söguna á íslensku á Skógræktarfélag Íslands enn til eintök af bókinni til sölu.

madurskogarins
Maðurinn sem plantaði trjám (úr bókinni Maður skógarins).

Fyrirlestur: Árangur birkisáninga – dæmi frá Gunnarsholti á Rangárvöllum

Með Ýmislegt

Sigurður H. Magnússon gróðurvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun flytur erindi sitt „Árangur birkisáninga – dæmi frá Gunnarsholti á Rangárvöllum“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 20. janúar.

Birki (Betula pubescens Ehrh.) er eina innlenda trjátegundin sem myndar skóglendi hér á landi. Birkið getur komið snemma inn í framvindu og er meðal frumherja á jökulaurum við Skaftafellsjökul.

Áætlað hefur verið að við upphaf landnáms hafi birkiskógar og kjarr klætt meira en fjórðung landsins. Birkiskógarnir eyddust hins vegar hratt á fyrstu öldum Íslandsbyggðar og nú á tímum er birkiskóga aðeins að finna á um 1200 km2 lands. Á síðustu áratugum hefur verið mikill áhugi á að endurheimta hluta þessara fornu skóga. Gróðursetning ungplantna er sú aðferð sem mest hefur verið notuð en fræsáningu hefur einnig verið beitt í minna mæli.

Á fyrri hluta 20. aldar voru nokkrar tilraunir gerðar til að endurheimta birkiskóga með sáningu fræs. Dæmi um árangursríkar sáningar frá þessum tíma má sjá í Haukadal í Biskupstungum, í Vatnsdal og í Gunnlaugsskógi í Gunnarsholti á Rangárvöllum.

Sáning birkis til landgræðslu lá að mestu niðri fram undir 1990 en þá hófust tilraunir með sáningu birkis á ný í margs konar land. Niðurstöður tilraunanna sýndu m.a. að einna bestur árangur náðist þar sem land var hálfgróið eða með mjög þunnu gróðurlagi (<1 cm). Hins vegar var lítill árangur af sáningu í algróið land eða þar sem yfirborð er óstöðugt. Niðurstöður þessara rannsókna bentu einnig til þess að víðiplöntur hefðu mjög jákvæð áhrif á lífslíkur og vöxt ungra birkiplantna.

Í framhaldi af þessum tilraunum hefur birki verið sáð á allmörgum stöðum á landinu til að endurheimta skóglendi. Í erindinu verða sýnd dæmi um árangur sáninga á Hrunamannaafrétti og á Rangárvöllum. Greint verður sérstaklega frá árangri sáningar í Gára í landi Gunnarsholts. Þar blés land upp í lok 19. aldar en var síðar grætt upp með grassáningum og áburðargjöf. Á árunum 1992 og 1994 var birki sáð í Gára og er þar nú kominn vísir að birkiskógi.

Veturinn 2009-2010 fer Hrafnaþing fram í sal söngskólans Domus Vox að Laugavegi 116, 2. hæð frá kl. 12:15-13:00.

birkisaningar1 Vísir að birkiskógi í Gára á Rangárvöllum. Sáð var í svæðið árið 1994. Ljósm. Sigurður H. Magnússon 17. júní 2008.
birkisaningar2 Árangur birkisáningar í uppgrætt land við Reyðarvatnsrétt á Rangárvöllum. Sáð var í landið haustið 1994. Ljósm. Borgþór Magnússon 25. maí 2008.

 

Frétt og myndir: Náttúrufræðistofnun Íslands

 

 

 

 

 

 

 

 

Gleðilegt nýtt ár!

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs!

Þökkum skógræktarfélögum um land allt – og öðrum vinum, samstarfs- og styrktaraðilum – fyrir ánægjulega samvinnu á liðnu ári.

aramotakvedja

Gleðileg jól

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands, landssamband skógræktarfélaganna, óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Sérstakar kveðjur fá aðildarfélög og félagsmenn þeirra, einnig aðrir velunnarar, samstarfs- og styrktaraðilar.

jolakvedja