Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Mesta skógrækt sögunnar

Með Ýmislegt

Á vef Morgunblaðsins má lesa áhugaverða frétt um skógrækt í Kína, en samkvæmt kínverskum stjórnvöldum munu þau ná því markmiði að þekja 20% yfirborðs landsins skógi fyrir lok þessa árs. Það sem meira er þá stefna þau að því að skógur þeki 42% landsins árið 2050. Miðað við að Kína er fjórða stærsta land í heimi verða þessi markmið að teljast mjög metnaðarfull, enda mun þetta vera mesta skógrækt sögunnar.

Markmið kínverskra stjórnvalda með þessum áætlunum er meðal annars að sporna gegn vaxandi eyðimerkurmyndun og stuðla að bindingu gróðurhúsalofttegunda frá kínverskum iðnaði.

Mættu íslensk stjórnvöld hiklaust taka þau kínversku sér til fyrirmyndar í þessum málum og leggja miklu meiri áherslu á endurheimt skógar hérlendis.

Sjá nánar á vef Morgunblaðsins –www.mbl.is.

kina-skograekt

Erlendum gestum er boðið í gróðursetningu í Kína (Mynd: BJ).

Sveppabókin – Handbók um íslenska sveppi og sveppafræði

Með Ýmislegt

Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur á Egilsstöðum, hefur síðan um 1990 hefur unnið að bók um sveppi og kemur hún út núna í haust. Í bókinni er farið yfir það helsta tengt sveppum hérlendis, meðal annars er fjallað um mat- og eitursveppi, ræktun matsveppa, sögu svepparannsókna hérlendis og fjölmörgum íslenskum tegundum lýst í máli og myndum, með áherslu á nytjasveppi og sveppi er geta skaðað fólk, dýr, ræktaðar plöntur eða matvæli.

Sveppabókin er ekki flóra í venjulegri merkingu þess orðs, þar sem í henni er ekki að finna lýsingar á nema um fjórðungi þeirra um 2000 sveppategunda sem skráðar hafa verið hér á landi. Áherslan er á stærri sveppi, en meginhluti skráðra sveppa hérlendis eru smásveppir á mörkum þess að sjást með berum augum og eiga því minna erindi við almenning. Sveppabókin er byggð á könnun og söfnun höfundar á íslenskum sveppum í 50 ár, auk rannsókna fjölmargra annarra fræðimanna í yfir eina öld.

Sveppir eru einn af grundvallarþáttum lífríkisins, en þá er næstum alls staðar að finna þar sem eitthvert líf þrífst. Þeir mynda svepprætur með blómplöntum og trjám og án þeirra væri skógrækt á Íslandi ekki möguleg. Þeir eru stofninn í fléttum og skófum, sem vaxið geta á beru grjóti. Þrátt fyrir það hafa sveppir lengst af verið í litlu áliti hjá okkur Íslendingum – við höfum nefnt þá gorkúlur eða myglu – en það viðhorf er sem betur fer óðum að breytast.

Sveppabókin er ætluð almenningi jafnt sem fræðimönnum og flestir ættu að geta fundið sér þar eitthvað áhugavert. Hún er um 600 blaðsíður að stærð og inniheldur mörg hundruð skýringarmynda og litmyndir af íslenskum sveppum. Bókin kemur út í október og hægt er að tryggja sér hana í forsölu til 1. október á afsláttarkjörum (2000 kr. afsláttur) hjá Skruddu.

sveppabokin

Tré ársins 2010

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands hefur valið  „Tré ársins” árið 2010 en það er undraverður álmur (Ulmus glabra) er stendur við Heiðarveg 35 í Vestmannaeyjum.

Er tréð íturvaxið og  hefur að geyma all merkilega sögu. Útnefningu sem „Tré ársins“ fær álmurinn fyrst og fremst vegna sérstöðu sinnar þegar haft er í huga hvar á landinu tréð vex. Vestmannaeyjar hafa lengst af ekki verið taldar með heppilegustu vaxtarsvæðum landsins og í raun er það með ólíkindum að tréð hafi lifað af Heimaeyjargosið.

Tréð mun hafa verið gróðursett árið 1945. Húsið sem nú stendur við Heiðarveg 35 er byggt af Ólafi Á. Kristjánssyni og það mun hafa verið kona hans, Marý Friðriksdóttir, sem gróðursetti álminn.

Álmurinn á Heiðarvegi 35 er sönnun þess að hægt er að umvefja bæinn gróðri og gera hann fegurri og skjólsælli með því að hvetja fleiri bæjarbúa til að gróðursetja álm, hlyn og ótalmargar tegundir af runnum og rósum sem þegar er vitað að þrífast í Vestmannaeyjum. Til þess að leggja þessu starfi lið geta allir lagt Skógræktarfélagi Vestmannaeyja lið og gengið í það og eflt þannig það starf sem félagið vinnur að á ári hverju. Skógræktarfélag Vestmannaeyja var endurvakið árið 2000, en áður hafði verið stofnað og starfað félag sem m.a. vann að ræktun í Herjólfsdal.

Tréð var formlega útnefnt við athöfn þann 10. september. Við athöfnina lék Lúðrasveit Vestmannaeyja nokkur lög og síðan tók Margrét Lilja Magnúsdóttir, varaformaður Skógræktarfélags  Vestmannaeyja við. Sagði hún að það gæfi starfinu í Eyjum byr undir báða vængi að slík viðurkenning væri veitt í Eyjum. Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands flutti stutt ávarp og veitti síðan eigendunum á Heiðarvegi 35 viðurkenningu af þessu tilefni, þeim Huldu Pétursdóttir og Sigurði Franz Þráinssyni. Þá flutti Páley Borgþórsdóttir, fulltrúi Vestmannaeyjabæjar, kveðju og sagðist fagna slíku framtaki og það væri mikil hvatning og fyrirmynd fyrir bæjarbúa að sjá að athygli væri beint á ræktunarstarf í Eyjum hún væri þess fullviss að bæjarbúar héldu áfram að fegra og bæta bæinn.

Tréð var síðan mælt hátt og lágt og reyndist vera  6,5 m að hæð. Meginstofnar voru sex og var þvermál og ummál þess stærsta mælt og var hann 17,5 cm í þvermál og 22,2 cm í ummál. Félagar úr lúðrasveitinni léku svo síðustu tóna þessarar athafnar.

Tréð er frískleg og heilbrigt og gefur vísbendingar um að í Vestmannaeyjum sé hægt að rækta marga fagra hrísluna.

trearsins-web-1

Sigurður Franz Þráinsson, Hulda Pétursdóttir og fjölskylda, eigendur Heiðarvegar 35 (Mynd: BJ).

trearsins-web-2

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, flytur ávarp (Mynd: BJ).

trearsins-web-3

Margrét Lilja Magnúsdóttir, varaformaður Skógræktarfélags Vestmannaeyja, flytur ávarp (Mynd: BJ).

trearsins-web-4

Páley Borgþórsdóttir, fulltrúi Vestmannaeyjabæjar, flytur ávarp (Mynd: BJ).

trearsins-web-5

Tré ársins 2010 (Mynd: BJ).

 

Birki tólf-faldar hæð sína á einu ári

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands fékk sendar eftirfarandi myndir frá Gunnari Björnssyni í Garðabæ. Gunnar gróðursetti litlar birkiplöntur af yrkinu Embla í júní 2009 og voru það þá um 15 cm háar bakkaplöntur, fengnar frá gróðrarstöðinni Hvammi á Flúðum.

Voru plönturnar settar niður við sumarhús í landi Efra-Sels á Flúðum.  Megnið af þeim er búið að ná um metra hæð eftir árið, nokkrar í um 1,5 m hæð, en ein sker sig úr og er búin að ná tæplega 1,8 m hæð, eða um tólf-falda hæð við gróðursetningu! Verður það að teljast góður árangur á einu ári.

vaxtarbirki1

Hér má sjá hæðarmálið á besta birkinu.

vaxtarbirki2

Plantan er orðin alveg mannhæðarhá.

 

Grein: Er ösp hættuleg mannvirkjum í Reykjavík?

Með Ýmislegt

Af og til síðustu árin hefur því verið haldið fram að ösp sé hættuleg mannvirkjum. Í júlímánuði var viðtal við Sigurð Helga Guðjónsson, formann Húseigendafélagsins, í morgunútvarpi Rásar 2 og kom þar fram að rætur aspa skemmdu eða eyðilegðu gangstéttar, slitlag vega, lagnir og hús, auk þess sem öspin „trylltist“ við þegar hún færi að drepast, við 40-50 ára aldur, og færi að skjóta rótarskotum í allar áttir.

Til að leita upplýsinga um þetta tjón sendi undirritaður byggingarfulltrúa Reykjavíkur, Magnúsi Sædal, erindi og óskaði eftir upplýsingum um umfang tjóns í Reykjavíkurborg. Spurt var sérstaklega um skemmdir af völdum aspa á gangstéttum eða hellum, malbiki götum eða vegum, lögnum, byggingum og dæmi um „árás“ aspa á umhverfi sitt.

Í svari Magnúsar kemur fram að engar formlegar kvartanir séu skráðar hjá embættinu vegna skemmda af völdum aspartrjáa á gangstéttum, hellulögnum, malbiki, götum eða vegum. Þó sé vitað að á stöku stað hafi trjárætur valdið lyftingu á gangstéttum og hellulögnum, en ekki sé þar sérstaklega um aspartré að ræða. Svipað gildi um lagnirnar, engar formlegar kvartanir hafi borist embættinu. Þó sé þekkt í einhverju tilviki að trjárætur  hafi þrengt sér inn í holræsakerfi, en í í þeim tilvikum sé iðulega um bilaðar eða illa frágengnar lagnir að ræða. Í þessu tilviki virðist það hafa verið rætur af einhverjum runna sem fór í lögnina. Hafa verði í huga að lagnir eigi að liggja í frostfríu dýpi [Skv. upplýsingum hjá Orkuveitu Reykjavíkur eru raf-og hitaveitulagnir að öllu jöfnu lagðar á 70 cm dýpi og kaldavatnslagnir á minnst 120 cm dýpi]. Hjá byggingarfulltrúa eru ekki skráð dæmi um tjón á byggingum vegna trjágróðurs. Lauf og annað affall af trjám getur fallið á þök lægri bygginga, sest í þakrennur, stíflað niðurföll og valdið vatnstjóni, ef rennur eru ekki þrifnar. „Tryllingur“ fimmtugra aspa er óþekkt fyrirbæri. Taka má fram að samkvæmt erlendum heimildum geta aspir náð allt að 200 ára aldri.

Af svari byggingarfulltrúa Reykjavíkur má ráða að aspir hagi sér ekki öðruvísi en aðrar trjátegundir gagnvart híbýlum manna og götum. Við umræðu um trjárækt í okkar ágætu borg væri því heppilegra að beina umræðunni að mikilvægari atriðum, s.s. skjóli, skuggamyndun, rykmengun, útsýni og hljóðmengun.

Hvað skjólið varðar hefur ösp, vegna ýmissa flökkusagna um hana, verið felld í töluverðum mæli. Verði þetta ekki hamið er veruleg hætta á að í skjólsælum hverfum nái vindstrengir sér aftur á strik í þeim og afleiðingarnar verði aukið viðhald húsa og minni útivera í görðum og þar með minni lífsgæði. Hvort tveggja getur lækkað fasteignaverð.

Í þróun borgarinnar hefur þess lengst af verið gætt að mannvirki verði ekki mjög há. Við höfum fáa sólardaga og við viljum njóta þeirra allra. Þetta er skynsamlegt viðhorf íbúa á norðurslóðum þar sem skuggar geta orðið langir. Borið saman við aðrar þjóðir er ekkert tré orðið stórt á Íslandi, né gamalt, en þau verða það. Því er mikilvægt að skipuleggja gróðurinn þannig að skuggi verði sem minnstur af stórum trjám og það er vel hægt. Útsýni er flóknari hlutur að skipuleggja, fer eiginlega eftir við hvað maður er alin upp við eða er vanur. Að horfa út um glugga á tré er ákveðið útsýni, ef tréð er höggvið kemur í ljós hús sem er þá önnur gerð af útsýni, eða haf eða fjall eða eitthvað annað.

Einnig er vert að skoða áhrif trjágróðurs á hljóð- og loftmengun. Tré geta hafa veruleg áhrif á hvorutveggja. Tré geta, eftir hæð og þéttleika, dregið verulega úr hávaða og liggja fyrir mælingar á því. Einnig fanga þau rykagnir og binda koltvísýring (CO2). Því mætti skoða hvort ávinningur væri af því að láta gróðursetja verulegt magn krónumikilla trjáa í og við sem flest umferðarmannvirki og bifreiðaplön, en víða erlendis er markvisst verið að auka magn trjágróðurs í borgum vegna mengunarsjónarmiða.

Allar trjátegundir hafa sína kosti og galla við ræktun, sem og annar gróður, og er öspin þar engin undantekning. Það er hins vegar engin ástæða til að taka hana sérstaklega fyrir sem ógn við mannvirki hér í borg. Ætlum öspinni ekki meira en henni ber.

Helgi Gíslason
framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Er nauðsynlegt að eiturúð‘ana – lúpínuna?

Með Ýmislegt

Skógrækt ríkisins og Skógræktarfélag Íslands boða til kynningar í fundarsal þeirra síðarnefndu að Skúlatúni 6 í Reykjavík, fimmtudaginn 1. júlí, kl. 14:00 á umsögn um lúpínuskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins. Umsögnin, Athugasemdir til umhverfisráðherra um skýrsluna „Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting”verður formlega kynnt og fyrirspurnum fjölmiðlafólks svarað af fulltrúum Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands. Allir eru velkomnir.

Niðurstöður sérfræðinga Skógræktar ríkisins og Skógræktarfélags Íslands eru í stuttu máli:

Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins hefur ekki verið sýnt fram á né færð rök fyrir þvílíkri skaðsemi eða ógn af lúpínu eða skógarkerfli að það réttlæti kostnaðarsamar aðgerðir hins opinbera til útrýmingar þessara plöntutegunda. Hins vegar er fyllsta ástæða til að rannsaka vistfræðilega hegðun og útbreiðslu þeirra nánar til að hægt verði að komast að því hvort slík ógn sé fyrir hendi og þá hvar og í hversu miklum mæli. Einungis ber að skoða mögulega ógn út frá forsendum sem snúa að líffræðilegri fjölbreytni, en ekki t.d. hugmyndum um ásýnd lands (sem er háð smekk og ekki hægt að ræða á hlutbundinn hátt). Þar með falla niður rök fyrir því að eyða lúpínu á öllu hálendinu, í hraunum og öðrum gosminjum yfirleitt og á a.m.k. sumum friðlýstum svæðum. Skoða ber bæði jákvæð og neikvæð áhrif lúpínu og skógarkerfils á alla þá þætti líffræðilegrar fjölbreytni sem varpa má ljósi á með vönduðum rannsóknum áður en ákvarðanir eru teknar um upprætingu. Ekki er réttlætanlegt að loka landinu fyrir nýjum tegundum sem styrkt gætu íslensk gróðurlendi, gert landið byggilegra og betur í stakk búið að standast ytri áföll, og jafnframt gert landnýtingu hér á landi sjálfbærari.

Bæði umsögnin og skýrslan eru aðgengileg á vefnum:

Athugasemdir til umhverfisráðherra um skýrsluna „Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi:Útbreiðsla, varnir og nýting (pdf)

Alaskalúpína og skógarkerfill á Íslandi: Útbreiðsla, varnir og nýting (pdf)


lupinuskyrsla

(Mynd: RF).

Við eigum afmæli í dag…

Með Ýmislegt

Í dag á Skógræktarfélag Íslands 80 ára afmæli, en það var stofnað þann 27. júní á Alþingishátíðinni á Þingvöllum árið 1930.

Skógræktarfélagið vill þakka aðildarfélögunum og öðrum samstarfsaðilum, styrktaraðilum og öllum vinum og velunnurum fyrir samvinnu, stuðning og velvild í gegnum árin.

skogarstigur

Gunnarshátíð í Haukadal

Með Ýmislegt

Í tilefni þess að Gunnar Freysteinsson skógfræðingur hefði orðið fertugur í ár boða Skógfræðingafélag Íslands og vinir og vandamenn til Gunnarshátíðar í Haukadal sunnudaginn 27. júní, en Gunnar lést af slysförum árið 1998. Allir velkomnir.

Dagskrá:

Kl. 11:00 Vinna og skemmtun
Safnast saman. Gróðursetning og umhirða í Gunnarslundi.

Kl. 13:00 Bara skemmtun

Setning og ávarp: Aðalsteinn Sigurgeirsson, formaður Skógfræðingafélags Íslands.

Hugvekja sjera Sigvalda Ásgeirssonar skógarprests

Skógarleikar (fyrir alla aldurshópa)

Samkomuslit: Ragnhildur Freysteinsdóttir

Tónlist:  
Nikulás Magnússon, harmonikka.
Jón Ásgeir Jónsson, gítar.

Gestir eru beðnir um að hafa með sér trjá/greinaklippur, skóflur og fötur, sem og það nesti sem þeir vilja, en ketilkaffi verður á hlóðum á staðnum.

Allir eru hvattir til að hafa með sér trjáplöntu, helst af fágætri tegund, hvort sem er barr-eða lauftré.  Fyrir þá sem ekki dunda sér við ræktun á slíku heima hjá sér má benda á Gróðrarstöðina Nátthaga í Ölfusi, þar sem finna má ýmsar áhugaverðar tegundir. Ef keypt er planta þar endilega láta skrá þar að þetta sé fyrir Gunnarshátíð, þar sem það auðveldar allar merkingar á trjánum síðar meir að hafa allar tilhlýðilegar upplýsingar frá gróðrarstöðinni, auk þess sem það tryggir 10% afslátt. Gróðrarstöðin opnar kl. 9 á sunnudagsmorgninum.

gf

Skógardagurinn mikli 2010

Með Ýmislegt

Hinn árlegi Skógardagur verður haldinn að venju í Mörkinni í Hallormsstaðaskógi þar sem allir eru velkomnir að njóta skemmtunar í skóginum. Nú verður sú nýbreytni tekinn upp að hefja Skógardaginn mikla á föstudagskveldinu 25. júní með því að sauðfjárbændur grilla lambakjöt ofan í gesti og gangandi kl. 20:00 í Mörkinni.

Dagskrá laugardagsins 26. júní er nokkuð hefðbundin en þar má m.a. finna:
 
Skógarhlaup 14 km ræsing í Mörkinni kl. 12:00
Fjölskylduhlaup 4 km ræsing í Mörkinni kl 12:30

Formleg dagskrá hefst kl. 13:00 með Íslandsmóti í skógarhöggi 
Heilgrillað Egilsstaðanaut borið fram af skógarbændum.
Pylsur í hundraðavís
Lummur og ketilkaffi
Sumardrykkir í boði MS
Skógarþrautir
Pjakkur og Petra skemmta ungviðinu 
Kötturinn Klói mætir á svæðið
Hinn eini sanni Freyr Eyjólfsson skemmtir á sviðinu
Ásgrímur Ingi stjórnar samkomunni á borgfiska vísu.

Allir hjartanlega velkomnir að eyða góðri kveldstund og dagstund í skóginum.

ATH! Frítt verður á tjaldstæðin í Hallormsstaðaskógi aðfaranótt laugardagsins 26. júní

Skógarhlaupið

Hlaupið byrjar í Trjásafninu skammt innan við byggðina, skráning á staðnum og ræsing kl. 12:00. Hlaupið er á mjúkum skógarstígum í frábæru umhverfi skógarins.
Einnig er boðið upp á 4 km fjölskylduhlaup með ræsingu kl. 12:30. Verðlaun eru einstakir útskornir gripir úr íslensku birki.

skogardagurinn