Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Áhugaverð umfjöllun um skógrækt í Glettingi

Með Ýmislegt

Nýtt tölublað hins vandað tímarits Glettings, sem fjallar um austfirsk málefni, er komið út. Meðal efnis er áhugavert viðtal Magnúsar Stefánssonar ritstjóra við Eymund Magnússon, landskunnan bónda í Vallarnesi á Héraði. Í viðtalinu kemur fram að auk lífrænnar ræktunar hefur skógrækt og skjólbeltarækt verið stunduð af krafti. Brot úr viðtalinu: „Þótt ég hefði ekki gert neitt annað finnst mér þetta raunverulega það sem ég er stoltastur af sem mínu ævistarfi – að skilja eftir þennan skóg í Vallanesi. Og lífið sem þessi skógur hefur skapað – það skal ekki vanmeta. Hingað hafa komið bændur utan af Héraði og orðið þögulir hérna á hlaðinu hjá mér og undrast hversu fuglalífið er mikið. Þetta er sannarlega hinn andlegi gróði af skóginum, fuglalífið og þetta mikla skjól sem skógurinn hefur skapað. Um leið myndast skjól fyrir ræktunina sem gerir mér kleift að rækta fleiri tegundir og rækta betur en ég gæti annars á berangri. Munurinn er gífurlegur, maður gengur inn í skjól á milli beltanna en um leið og farið er út af hinu skýlda svæði er komið í vindstreng. Rakinn helst betur í jörðinni, jarðvegurinn verður heitari og allt vex betur“.

Viðtalið í heild sinni má lesa á heimasíðu Glettings (hér). 

Skóm plantað

Með Ýmislegt

Það hafa ýmsar aðferðir verið notaðar við sáningu fræja og gróðursetningu í gegnum tíðina. Hollenskt skófyrirtæki hefur komið fram með alveg nýja leið, með framleiðslu á skóm sem má grafa í mold eftir að hefðbundinni notkun lýkur og vex þá upp af þeim tré. Í skónum eru trjáfræ og er efni skónna þannig að það leysist upp í mold með tímanum.

Nánar má lesa um skóna á heimasíðu fyrirtækisins (hér).

Munið eftir skógarfuglunum (og öðrum fuglum)!

Með Ýmislegt

Nú er fallegt vetrarveður víða um land og reyniberin á þrotum. Því er mikilvægt að gefa smáfuglunum svo þeir nái að þreyja þorrann. Ekki sakar að ef gefið er reglulega bætast ýmsar framandi tegundir í hópinn.

Á myndinni má sjá silkitoppur gæða sér á góðgæði  í húsagarði í vesturbæ Reykjavíkur sunnudaginn 6. febrúar.

silkitoppur

Til hamingju Helgi Hallgrímsson!

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands óskar Helga Hallgrímssyni til hamingju með að hafa hlotið Íslensku bókmenntaverðlaunin 2011 í flokki fræðirita fyrir Sveppabókina.

Helgi hefur unnið að bókinni í hartnær tvo áratugi, en hún kom út nú í haust. Í bókinni er farið yfir það helsta tengt sveppum hérlendis, meðal annars er fjallað um mat- og eitursveppi, ræktun matsveppa, sögu svepparannsókna hérlendis og fjölmörgum íslenskum tegundum lýst í máli og myndum, með áherslu á nytjasveppi og sveppi er geta skaðað fólk, dýr, ræktaðar plöntur eða matvæli. Sveppabókin er byggð á könnun og söfnun Helga á íslenskum sveppum í 50 ár, auk rannsókna fjölmargra annarra fræðimanna í yfir eina öld.

Sveppir eru einn af grundvallarþáttum lífríkisins, en þá er næstum alls staðar að finna þar sem eitthvert líf þrífst. Þeir mynda svepprætur með blómplöntum og trjám og án þeirra væri skógrækt á Íslandi ekki möguleg.

sveppir
(Mynd: RF).

Umsögn Skógræktarfélags Íslands um tillögu að breytingum á náttúruverndarlögum.

Með Ýmislegt

Þann 14. desember setti umhverfisráðuneytið í kynningu tillögur nefndar að breytingum á náttúruverndarlögum.

Skógræktarfélag Íslands sendi ráðuneytinu bréf ásamt athugasemdum við uppgefnar tillögur og má lesa athugasemdir félagsins hér (pdf).

Samantekt:

Frumvarpið er ekki unnið í samráði við hagsmunaaðila, þvert á fögur fyrirheit þar að lútandi við upphaf starfs þeirrar nefndar sem vann drögin.

Nefndin hefur ekki leitað samráðs út fyrir hópinn, er einsleit að samsetningu og hugmyndafræðilega einsýn. Í nefndinni sitja m.a. forstöðumenn tveggja stofnana sem leggja sem slíkir til víðtækar gjaldtökur sem renna eiga sem sértekjur til viðkomandi stofnana. Er það óviðunandi í ljósi ákalls um breytt og siðleg vinnubrögð í stjórnkerfinu.

Samningurinn um líffræðilega fjölbreytni er ranglega túlkaður í frumvarpinu þar sem horft er eingöngu á eina grein samningsins, 8(h), og hún tekin úr samhengi við heildarmarkmið samningsins. Samningurinn fjallar fyrst og fremst um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda, aðgang þjóða að þeim og samvinnu þeirra um réttláta skiptingu arðs af þeim og verndun þessara auðlinda til hagsbóta fyrir manninn. Samninginn ber að túlka í því ljósi en ekki valinna atriða sem varða vernd lífvera eða búsvæða þeirra.

Frumvarpið í óbreyttri mynd heggur í lögbundin ákvæði Stjórnarskrár Íslands.

Þörfin fyrir breytingar á 41. gr. núgildandi laga er órökstudd og óþörf. Ef vísindaleg rök hníga að því að ein eða fleiri tegund jurta sé á góðri leið með að útrýma einni eða fleiri tegundum eða vistgerðum á landsvísu þá gætu það verið gild rök til að bregðast við. Engin dæmi eru hins vegar þekkt um tjón af völdum ágengra framandi plantna sem hefur orðið á gildistíma núgildandi náttúruverndarlaga og tilgátur um yfirvofandi tjón og ógn hafa ekki verið rökstuddar. Ekkert bendir til þess að stærð vandamálsins réttlæti þær verulegu skerðingar á athafnafrelsi og eignarrétti manna til að rækta framandi plöntur á Íslandi sem felst í frumvarpsdrögunum. Ekkert bendir til að núverandi athafnafrelsi ræktenda ógni stöðugleika, jafnvægi og fjölbreytni lífríkis landsins.

Frumvarpið, í óbreyttri mynd, leggur íþyngjandi kröfur á alla ræktendur í landinu, skaðar allt ræktunarstarf á Íslandi, en er jafnframt óþarft og ólíklegt til að ná því óljósa markmiði sem að er stefnt, þ.e. verndun líffjölbreytni Íslands.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkir fækkun aspartrjáa í miðborginni

Með Ýmislegt

Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað þann 18. janúar að fela garðyrkjustjóra Reykjavíkur að móta áætlun um fækkun aspartrjáa í miðborginni.

Samkvæmt tillögu Besta flokksins og Samfylkingarinnar á að hefjast handa við að fjarlægja aspir og setja önnur tré í staðinn, en í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna lýsti Jón Gnarr borgarstjóri því yfir í pistli að garðahlynur og birki væru mun fallegri tré sem hentuðu betur í borginni (sjá nánar á mbl.is).

Ekki deila þó allir þessum smekk borgarstjóra (sjá hér og hér).

Alþjóðlegt ár skóga 2011 sett af stað á Bessastöðum

Með Ýmislegt

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árið 2011 alþjóðaár skóga og er því ætlað að auka vitund fólks um mikilvægi skóga og styrkja sjálfbæra umhirðu, vernd og vöxt skóga til hagsbóta fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, setti árið formlega við athöfn á Bessastöðum 12. janúar. Var forsetanum afhentur fáni með íslenskri útfærslu alþjóðlegs merkis Sameinuðu þjóðanna um ár skóga 2011 við það tækifæri af fulltrúum skógargeirans á Íslandi.

Ýmsir viðburðir eru fyrirhugaðir á árinu í tengslum við ár skóga og verða þeir kynntir jafnóðum.

 

arskoga2011-bessastadir
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, ásamt fulltrúum frá Skógrækt ríkisins, Skógræktarfélagi Íslands, Landssamtökum skógareigenda, Landshlutaverkefnum í skógrækt, Nýsköpunarmiðstöð, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

Tillaga að breytingu á náttúruverndarlögum

Með Ýmislegt

Á vefsíðu umhverfisráðuneytisins eru nú kynntar tillögur nefndar að breytingum á náttúruverndarlögum (sjá hér). Jafnframt er öllum boðið að senda inn athugasemdir við tillögurnar til ráðuneytisins og hefur frestur til þess verið lengdur til og með 21. janúar.

Töluverðar umræður hafa spunnist um þessar tillögur (sjá hér) og eru allir hvattir til að kynna sér drögin og koma með athugasemdir.

Gleðilegt nýtt ár!

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands óskar landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs á alþjóðaári skóga 2011!

Þökkum skógræktarfélögum um land allt – og öðrum vinum, samstarfs- og styrktaraðilum – fyrir ánægjulega samvinnu á liðnu ári.

gledilegtnyttar

Gleðileg jól!

Með Ýmislegt

Skógræktarfélag Íslands, landssamband skógræktarfélaganna, óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Sérstakar kveðjur fá aðildarfélög og félagsmenn þeirra, einnig aðrir velunnarar, samstarfs- og styrktaraðilar.

gledilegjol