Skip to main content
Flokkur

Ýmislegt

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson: Opið fyrir umsóknir

Með Ýmislegt

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða fimm milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 31. janúar 2019.

Hjálmar R. Bárðarson, f.v. siglingamálastjóri, ánafnaði Landgræðslusjóði 30% af eigum sínum, en hann lést 7. apríl 2009. Óskaði hann eftir því að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar, „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“, eins og segir í erfðaskránni.

Ákveðið var að verja hluta arfsins til stofnunar sjóðs, sem starfa mun í 10 ár, með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðsla ríkisins, sem erfði Hjálmar til jafns við Landgræðslusjóð, lagði sjóðnum einnig til fé. Er sjóðnum ætlað að heiðra minningu Hjálmars og konu hans Else Sörensen Bárðarson, sem andaðist 28. maí 2008.

Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar.

Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð er að finna á heimasíðum Landgræðslunnar, Skógræktarinnar og Skógræktarfélags Íslands.

Líf í lundi laugardaginn 23. júní

Með Ýmislegt

Líf í lundi er útivistar- og fjölskyldudagur í skógum landsins, sem skógaraðilar á Íslandi standa sameiginlega að. Markmið hans er að fá almenning til að heimsækja skóga landsins og stunda hreyfingu, njóta samveru og upplifa skóga og náttúru landsins. Boðið verður upp á fjölmarga viðburði í skógum landsins um land allt á laugardeginum 23. júní. Að deginum standa Skógræktarfélag Íslands og aðildarfélög þess, Skógræktin og Landssamtök skógareigenda, í samvinnu við aðrar stofnanir og félagasamtök, auk þess sem Arion banki styður almennt við verkefnið.

Nánari upplýsingar um viðburði verður hægt að finna á Skógargátt-vefsíðunni – https://www.skogargatt.is/ og á Facebook-síðu Líf í lundi – https://www.facebook.com/lifilundi/, auk þess sem einstakir viðburðahaldarar verða með kynningu á sínum miðlum.

 

Viðburðir:

Ferðafélag Íslands: Skógarganga í Ferðafélagsreitnum í Heiðmörk kl. 10:30. Gönguferð og F.Í. ratleikurinn.

Garðyrkjufélag Íslands og Grasagarður Reykjavíkur: Fræðsluganga í Kálfamóa við Keldur kl. 13. Jóhann Pálsson segir frá gróðri og gróðurframvindu á svæðinu.

Skógræktarfélag Akraness: Skógardagur í Slögu. Tálgun, bakstur yfir eldi, axarkast og fleira.

Skógræktarfélag Austur-Húnvetninga: Skógardagur að Gunnfríðarstöðum kl. 14. Fræðsla, skógarganga, ketilkaffi og fleira.

Skógræktarfélag Austurlands, Skógræktin, Félag skógarbænda á Austurlandi og fleiri: Skógardagurinn mikli 2018 í Mörkinni, Hallormsstað kl. 12-16. Söngur, þrautir, tónlist, skógarhöggskeppni, skemmtiskokk, grill og fleira.

Skógræktarfélag Bíldudals: Skógardagur í Seljaskógi kl. 13. Skógarganga, listaverkagerð og skógarhressing.

Skógræktarfélag Borgarfjarðar, Skógræktin og Félag skógarbænda á Vesturlandi: Skógardagur í Selskógi í Skorradal kl. 13-16. Skógarganga, tálgun, leikir, ketilkaffi og fleira.

Skógræktarfélag Djúpavogs: Samvera í Hálsaskógi kl. 19. Leikir, skógarskoðun, kaffi og lummur.

Skógræktarfélag Eyfirðinga, Skógræktin, Félag skógarbænda á Norðurlandi, Sólskógar og Akureyrarbær: Skógardagur Norðurlands kl. 14-17. Skógarganga, skúlptúragerð með keðjusög, flautugerð, tálgun, leikir, skógarkaffi og með því.

Skógræktarfélag Garðabæjar og Skógræktarfélag Íslands: Fullveldisgróðursetning í Sandahlíð kl. 14-16. Hægt að mæta hvenær sem er og prófa að gróðursetja.

Skógræktarfélag Grindavíkur: Skógardagur í Selskógi kl. 10-12. Fróðleikur, tálgað í tré og brauð á teini.

Skógræktarfélag Hafnarfjarðar og Íshestar: Fjölskyldudagur í Höfðaskógi kl. 14-17. Skógarganga, ratleikur og hressing, yngri kynslóðin fær að prófa að fara á hestbak.

Skógræktarfélag Kópavogs: Gróðursetning aldingarðs í Guðmundarlundi kl. 16. Fræðsla um ræktun aldintrjáa og berjarunna, grill og gleði.

Skógræktarfélag Mosfellsbæjar: Skógardagur í Meltúnsreit kl. 11-13. Ketilbjölluæfingar, axarkast, leikir, eldað yfir eldi og fleira.

Skógræktarfélag Reykjavíkur og Ásatrúarfélagið: Skógarblót í Öskjuhlíð kl. 21. Auk blóts gefst gestum tækifæri til að kíkja á hof Ásatrúarfélagsins, sem er í byggingu.

Skógræktarfélag Skilmannahrepps: Skógarganga í Álfholtsskógi kl. 13-15. Fræðsla, kaffi og með því.

Skógræktarfélag Suður-Þingeyinga: Skógardagur í Fossselsskógi kl. 13. Fræðsla og þrautir fyrir börnin.

Skógræktarfélagið Landbót: Skógardagur í skógarlundi í Vopnafirði, utan og ofan við Lónin. Ratleikur, skógarfræðsla og fleira.

Skógræktarfélagið Skógfell: Ganga að Háabjalla kl. 13. Gengið frá leikskólanum. Grillað brauð og útivera.


Brunavarnir í gróðri: Kynning

Með Ýmislegt

Starfshópur um brunavarnir í gróðri heldur blaðamannafund fimmtudaginn 24. maí kl. 14 í húsakynnum Skógræktarfélags Reykjavíkur að Elliðavatni. Þar verður formlega kynntur nýr bæklingur um brunavarnir í gróðri ásamt veggspjöldum og nýrri vefsíðu, grodureldar.is.

Gróðurbrunar á Íslandi hafa hingað til einskorðast að mestu við sinubruna, en með aukinni skógrækt um land allt og vaxandi útbreiðslu íslenska birkisins er hættan á skógarbrunum og kjarreldum nýr veruleiki sem takast þarf á við.

Stórir skógarbrunar, eins og fréttist af frá útlöndum, verða ekki á Íslandi enda engin skilyrði fyrir slíkt hérlendis. Þó hefur hætta á gróðureldum margfaldast á undanförnum áratugum í takt við hlýnandi veðurfar og aukna áherslu á landvernd og skógrækt. Kröfur um auknar varnir og viðbúnað hafa ekki haldist í hendur við þessar breytingar. Víða getur skapast mikil hætta vegna gróðurelda og við því þarf að bregðast. Mörg þessara svæða eru vinsæl útivistar- og sumarhúsasvæði og þar eru mikil verðmæti fólgin í bæði skógi og mannvirkjum.

Skráningar á gróðureldum undanfarinna ára sýna að langflestir gróðureldar kvikna af mannavöldum og flestir af völdum íkveikju. Helstu orsakirnar eru íkveikja, atvinnustarfsemi og frístundaiðkun fólks en einnig kemur fyrir að kvikni í gróðri vegna eldinga.

Til að bregðast við þessari vá var settur saman stýrihópur um mótun vinnureglna um brunavarnir í skógi og öðrum gróðri. Síðustu misseri hefur hópurinn greint vandann og leitað leiða til úrbóta. Samin hefur verið greinagerð með niðurstöðum og tillögum stýrihópsins um forvarnir og rétt viðbrögð við gróðureldum. Auk stýrihópsins unnu sjálfstæðir vinnuhópar að mótun afmarkaðra þátta brunavarna í gróðri.

Afrakstur þessarar vinnu birtist í nýjum bæklingi sem kynntur verður að Elliðavatni á fimmtudag. Í honum er að finna leiðbeiningar sem gagnast m.a. eigendum skóga og sumarhúsa. Einnig hefur verið útbúið veggspjald með helstu aðalatriðum um þessi efni sem gott er að festa upp á góðum stað til að vekja athygli á réttum vörnum og viðbúnaði við gróðureldum.

Á fimmtudaginn verður jafnframt opnuð formlega ný vefsíða á slóðinni www.grodureldar.is. Á síðunni verður efni bæklingsins birt á aðgengilegan hátt ásamt veggspjaldinu. Auk þess verður þar ítarefni sem nota má til að gera áætlanir um brunavarnir í gróðri, hvort sem er fyrir skóg eða önnur gróðursvæði svo sem sumarhúsalönd.

Í stýrihópnum sátu fulltrúar frá Skógræktinni, Skógræktarfélagi Íslands (fulltrúi skógræktarfélaganna), Landssamtökum skógareigenda, Mannvirkjastofnun, Félagi slökkviliðsstjóra/Brunavörnum Árnessýslu, Landssambandi sumarhúsaeigenda og Verkfræðistofunni Verkís (viðauki 10). Fulltrúi Skógræktarinnar leiddi stýrihópinn. Hönnun bæklings og veggspjalds var í höndum Forstofunnar, en Verkís sá um ritun greinargerðar á grundvelli framlagðra upplýsinga.

 

Dagskrá:

14:00 – Gestir boðnir velkomnir             
Björn Bjarndal Jónsson, formaður vinnuhópsins

14:10 – Ný vefsíða, www.grodureldar.is
Pétur Pétursson, formaður Félags slökkviliðsstjóra og slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu

14:20 – Samræmd framsetning upplýsinga í brunavörnum                                                    
Björn Traustason, sérfræðingur Mógilsá

14:30 – Brunavarnir í gróðri við sumarhús
Dóra Hjálmarsdóttir, sérfræðingur Verkís

14:40 – Almenn ávörp

Lok klukkan 15:00


Leiðarlýsing að Elliðavatni: https://ja.is/skograektarfelag-reykjavikur-ellidavatni

Sumardagurinn fyrsti hjá Garðyrkjuskóla Landbúnaðarháskóla Íslands

Með Ýmislegt

Opið hús verður sumardaginn fyrsta í Garðyrkjuskólanum á Reykjum í Ölfusi kl. 10:00-17:00. Sumarið er komið í garðskálanum og hægt er að heimsækja hitabeltið í bananahúsinu og pottaplöntusafninu. Verkefni nemenda í skrúðgarðyrkju verða til sýnis í verknámshúsinu og við inngang skólans. Kaffiveitingar og markaðstorg með garðyrkjuafurðir. Ýmis konar afþreying er í boði fyrir börnin, s.s. andlitsmálun. Hátíðardagskrá verður kl. 14 – 15 þar sem afhent verða Garðyrkjuverðlaun Landbúnaðarháskóla Íslands,  Umhverfisverðlaun Hveragerðis og Umhverfisverðlaun Ölfuss.

Dagskrá:

14:00 – 14:05 Setning – Guðríður Helgadóttir staðarhaldari á Reykjum.

14:05 – 14:25 Garðyrkjuverðlaun 2018 – Landbúnaðarráðherra Kristján Þór Júlíusson

14:25 – 14:30 Tónlistaratriði

14:30 – 14:40 Umhverfisverðlaun Hveragerðis 2018 – Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson

14:40—14:50 Umhverfisverðlaun Ölfuss 2018- Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson

14:50—14:55 Tónlistaratriði

14:55—15:00 Dagskrárlok

Íslendingar mjög hlynntir skógrækt

Með Ýmislegt

Vilja að skógrækt verði nýtt sem vopn í baráttunni við loftslagsbreytingar

Langflestir landsmenn eru mjög jákvæðir fyrir skógrækt og þeim fjölgar sem telja að auka beri skógrækt til að binda koltvísýring og hamla gegn loftslagsbreytingum. Jákvæðastir mælast ungir Íslendingar, háskólamenntaðir og íbúar nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur.

Gallup gerði netkönnun dagana 8.-21. mars þar sem spurt var tveggja spurninga um skógrækt. Þessar tvær spurningar voru samhljóða tveimur spurningum úr viðamikilli könnun á viðhorfum landsmanna til skógræktar sem Gallup lagði fyrir þjóðina árið 2004. Að könnuninni nú standa Skógræktin, Skógræktarfélag Íslands og Landssamtök skógareigenda.

Spurningarnar sem spurt var nú voru þessar:

Spurning 1. Telur þú að skógar hafi almennt jákvæð eða neikvæð áhrif fyrir landið?
Spurning 2. Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér að binda kolefni í skógum?

Landsmenn jákvæðir sem fyrr

Í stuttu máli gefa svörin til kynna mjög svipaðar niðurstöður og í könnuninni 2004. Langflestir eru jákvæðir þótt heldur fleiri hafi fallið í jákvæðasta flokkinn 2004 en nú. Samanlagt eru mjög jákvæðir og frekar jákvæðir þó álíka margir og voru 2004.

Athyglisvert er hins vegar að sjá að þeim sem voru neikvæðir fækkar marktækt þegar kemur að spurningunni um bindingu kolefnis. 7,3% svarenda voru neikvæðir fyrir slíkum hugmyndum 2004 en aðeins 3,1% nú. Stuðningur við aukna skógrækt til kolefnisbindingar hefur samkvæmt því aukist meðal þjóðarinnar.

Ef litið er til þjóðfélagshópa mælist lítill munur í könnuninni nú. Þó er ungt fólk, háskólamenntaðir og fólk búsett í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar heldur jákvæðara gagnvart skógum en aðrir landsmenn.

Nær enginn telur áhrifin mjög neikvæð

Ef litið er nánar á tölurnar telja 62% svarenda að skógar hafi almennt mjög jákvæð áhrif fyrir landið og 31% telur að áhrifin séu frekar jákvæð. Samanlagt telja því 93% svarenda að skógrækt hafi almennt jákvæð áhrif fyrir landið. 5,4% eru hlutlaus en aðeins 0,1% telur áhrifin mjög neikvæð.

Svipaða sögu segja svörin við spurningunni um kolefnisbindinguna. Aðspurð segja 51,6 prósent svarenda mjög mikilvægt að binda kolefni í skógum og 35% frekar mikilvægt. Hlutlausir eru 10,3% (hvorki né) og einungis 3% telja þetta frekar eða mjög lítilvægt. Ef tölurnar nú eru bornar saman við könnunina 2004 kemur í ljós að þeim sem telja kolefnisbindingu með skógrækt frekar eða mjög lítilvæga hefur fækkað að mun, úr 7,9% í 3,1%. Samtals telja 86,6% svarenda að þetta sé frekar eða mjög mikilvægt en sambærileg tala frá 2004 var 83,8% sem er innan skekkjumarka.

Unga fólkið jákvæðast

Nokkur munur sést eftir búsetu á fjölda þeirra sem telja skógrækt mjög jákvæða og að kolefnisbinding með skógrækt sé mjög mikilvæg. Mestur stuðningur við skógrækt er í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur þar sem 70% telja skógrækt mjög mikilvæga á móti 64% í Reykjavík og 54% í öðrum sveitarfélögum landsins. Eindreginn stuðningur við skógrækt eykst eftir því sem menntun fólks er meiri og eins eru ungir Íslendingar á aldrinum 18-34 ára hlynntastir skógrækt af öllum landsmönnum.

Í úrtakinu nú voru 1.450 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallups. Alls svöruðu 814 manns spurningunum tveimur en 636 svöruðu ekki. Þátttökuhlutfallið er því 56,1 prósent. Helmingur þátttakenda var spurður fyrri spurningarinnar á undan og hinn helmingurinn seinni spurningarinnar á undan. Ekki sást munur á meðaltölum eftir röðun spurninganna.

Skrifstofa Skógræktarfélags Íslands lokuð 10. – 12. apríl

Með Ýmislegt

Skrifstofa Skógræktarfélags Íslands verður lokuð eftir hádegi 10. apríl og allan daginn dagana 11. – 12. apríl, þar sem starfsfólk Skógræktarfélags Íslands verður á Fagráðstefnu skógræktar á Akureyri. Skrifstofan opnar svo aftur á venjulegum tíma föstudaginn 13. apríl.

Ef nauðsynlega þarf að ná í starfsmann má finna netföng og farsímanúmer starfsfólks hér á heimasíðunni.

Garðyrkjuverðlaunin 2018 – tilnefningar óskast!

Með Ýmislegt

Garðyrkjuverðlaunin verða afhent í þrettánda sinn á sumardaginn fyrsta þann 19. apríl n.k. við hátíðlega athöfn á opnu húsi hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum. Með verðlaunaveitingunni vill Landbúnaðarháskóli Íslands heiðra þá sem staðið hafa sig vel í að vinna að framgangi garðyrkjunnar á ýmsum sviðum hennar. Sú hefð hefur skapast að afhenda verðlaun í þremur flokkum en fleiri en einn geta fengið verðlaun í hverjum flokki, það er í höndum dómnefndar í hvert skipti að ákveða það.

Dómnefndina skipa eftirtaldir starfsmenn skólans: Björgvin Eggertsson, brautarstjóri skógur og náttúra, Guðríður Helgadóttir, forstöðumaður Starfs- og endurmenntunardeildar og Guðrún Þórðardóttir, bókasafnsfræðingur.

Það er metnaður skólans að sem flestir komi að því að velja þá aðila sem heiðraðir eru hverju sinni. Óskað er eftir tilnefningum frá öllum þeim sem láta sig málið skipta í þessa þrjá flokka. Hverri tilnefningu þarf að fylgja örstutt röksemdafærsla fyrir því af hverju viðkomandi á verðlaun skilið.

Verðlaunaflokkarnir eru eftirfarandi:

1) Heiðursverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir tilnefningum um einstaklinga sem skarað hafa fram úr á sviði garðyrkjunnar að mati stéttarinnar og skólans.

2) Verknámsstaður ársins => Hér er óskað eftir að tilnefndur verði verknámsstaður ársins 2017, staður sem hefur staðið sig sérlega vel við að leiðbeina nemendum skólans í verknámi.

3) Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar => Hér er óskað eftir að tilnefndir verði aðilar sem eru að vinna að athyglisverðum og framsæknum nýjungum í greininni og eiga skilið að fá hvatningu til að halda áfram á sömu braut.

Tilnefningar þurfa að berast skólanum í síðasta lagi fimmtudaginn 5. apríl 2018 á netfangið bjorgvin@lbhi.is.

Andri Snær Magnason nýr formaður Yrkjusjóðs

Með Ýmislegt

Andri Snær Magnason rithöfundur er nýr formaður Yrkjusjóðs, samkvæmt tilnefningu Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Tekur hann við af Sigurði Pálssyni skáldi, sem lést á síðasta ári.

Yrkjusjóður heitir fullu nafni Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins. Forsaga sjóðsins er sú, að árið 1990 var gefin út bókin Yrkja í tilefni 60 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur sem þá var forseti Íslands. Hagnaður af sölu bókarinnar, ásamt öðrum framlögum, var settur í sjóð sem Vigdís stofnaði árið 1992. „Markmið sjóðsins er að kosta trjáplöntun íslenskra skólabarna á grunnskólastigi á ári hverju“ stendur í skipulagsskrá hans. Með þessu er honum ætlað að kynna mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar. Árlega hafa um 100 grunnskólar sótt um og fengið úthlutað trjáplöntum.

Matthías Johannessen, skáld og fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, var fyrsti formaður sjóðsins, en hann lét af störfum að eigin ósk árið 2003 og tók Sigurður Pálsson þá við sem formaður og gegndi því starfi til dauðadags.

Opið fyrir styrkumsóknir: Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson

Með Ýmislegt

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Til úthlutunar verða fimm milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 31. janúar 2018.

Hjálmar R. Bárðarson, f.v. siglingamálastjóri, ánafnaði Landgræðslusjóði 30% af eigum sínum, en hann lést 7. apríl 2009. Óskaði hann eftir því að fénu yrði varið til landgræðsluskógræktar, „þar sem áður var lítt gróið bersvæði, ef til vill þar sem gróðursett lúpína hefur gert landsvæði vænlegt til skógræktar“, eins og segir í erfðaskránni.

Ákveðið var að verja hluta arfsins til stofnunar sjóðs, sem starfa mun í 10 ár, með það markmið að styrkja rannsóknir í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. Landgræðsla ríkisins, sem erfði Hjálmar til jafns við Landgræðslusjóð, lagði sjóðnum einnig til fé. Er sjóðnum ætlað að heiðra minningu Hjálmars og konu hans Else Sörensen Bárðarson, sem andaðist 28. maí 2008.

Styrkþegar geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og opinberir aðilar.

Umsóknareyðublað, ásamt reglum um úthlutun styrkja og skipulagsskrá sjóðsins má nálgast hér.

Sjá nánar: http://land.is/minningarsjodur/