Skip to main content
Flokkur

Skógræktarverkefni

Völvuskógur – Opinn skógur á Skógum undir Eyjafjöllum opnaður

Með Skógræktarverkefni

Völvuskógur á Skógum undir Eyjafjöllum var formlega opnaður sem Opinn skógur sunnudaginn 15. september. Af því tilefni var efnt til hátíðardagskrár í skóginum.

Þrátt fyrir heldur leiðinlega veðurspá var vel mætt á opnunina, en hún hófst með göngu upp í skóginn, þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði skóginn formlega með því að klippa á borða við stíg inn í skóginn. Að því loknu tóku við ávörp frá Magnúsi Gunnarssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands, Sigurði Inga, Ágústi Árnasyni, fulltrúa fyrrum nemenda Skógaskóla, en hann var einn af þeim sem tóku þátt í fyrstu gróðursetningunni, og Ísólfi Gylfa Pálmasyni, sveitarstjóra Rangárþings eystra. Inn á milli ávarpa tók Viðarbandið vel valin lög.

Að ávörpum loknum tók við ratleikur um skóginn fyrir yngri kynslóðina (og unga í anda!). Einnig var boðið upp á kaffihressingu og lauk dagskránni svo með gönguferð um skóginn. Kom þar vel í ljós hversu gott skjól skógurinn veitir, en inni í skóginum var hægur vindur, þótt fyrir utan hann væri hávaðarok.

Markmiðið með verkefninu „Opinn skógur“ er að opna fjölmörg skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaga og gera þau aðgengileg almenningi. Verkefnið nýtur styrkja frá Skeljungi og Arion banka. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi sé góð og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu.

Myndir frá opnuninni má skoða á Facebook-síðu Skógræktarfélagins (hér).

Opinn skógur að Fossá í Hvalfirði opnaður

Með Skógræktarverkefni

Laugardaginn 27. ágúst var skógurinn að Fossá í Hvalfirði formlega tekinn inn í verkefnið Opinn skóg. Af því tilefni var boðað til hátíðar í skóginum og mættu hátt í þriðja hundrað manns á hátíðina.

Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tók á móti gestum með vel völdum lögum, en formleg dagskrá hófst á því að Eiríkur Páll Eiríksson, formaður Fossár, skógræktarfélags, bauð gesti velkomna. Að því loknu opnaði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skóginn formlega, með því að klippa á borða við stíg inn í skóginn.

Því næst gengu gestir á vit seiðandi harmonikkutónlistar í lundi í skóginum, Vigdísarlundi, sem nefndur  er í höfuðið á Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta.  Vígði Vigdís lundinn formlega með því að afhjúpaða skilti sem markar lundinn og ávarpa fundargesti. Að ávarpi Vigdísar loknu fluttu ávörp Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, Bragi Michaelsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs,  og fulltrúar styrktaraðila Opinna skóga, Guðný Hansdóttir, starfsmannastjóri Skeljungs, og  Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka. Bragi nýtti einnig sitt ávarp til að gera Hjördísi Erlu Pétursdóttur að heiðursfélaga Skógræktarfélags Kópavogs og afhenti henni skjöld og blómvönd í tilefni þess.

Inn á milli atriða tók svo Karlakór Kópavogs lagið, auk þess sem Brynhildur Ásgeirsdóttir lék á þverflautu.

Að ávörpum loknum var svo boðið upp á hressingu – kaffi, kakó og bakkelsi, ásamt hollu grænmeti frá garðyrkjubændum, undir harmonikkuleik. Einnig var boðið upp á skemmtidagskrá fyrir börnin, meðal annars andlitsmálningu, klifurvegg og sögustund í skóginum.  Tókst hátíðin í alla staði vel, enda veður með eindæmum gott, sól og blíða. Nýttu margir tækifærið eftir að hátíð lauk til að fara í berjamó, enda víða góðar berjalendur í Hvalfirðinum.

Markmiðið með verkefninu „Opinn skógur“ er að opna fjölmörg skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaga og gera þau aðgengileg almenningi. Verkefnið nýtur styrkja frá Skeljungi og Arion banka. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi sé góð og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu.

osfossa

 

 

Opinn skógur að Fossá í Hvalfirði formlega opnaður

Með Skógræktarverkefni

Laugardaginn 27. ágúst verður Opinn skógur að Fossá í Hvalfirði opnaður með pompi og prakt. Formleg dagskrá hefst kl. 14:00 og eru allir velkomnir.

Dagskrá:
Lúðrasveit leikur við samkomutjald frá kl. 13:45 en dagskráin hefst þar kl. 14:00.
1. Ávarp. Eiríkur Páll Eiríksson, formaður Fossár, skógræktarfélags.
Gengið frá samkomutjaldi að Vigdísarlundi.
Karlakór Kópavogs syngur.
2. Vigdísarlundur formlega opnaður. Vigdís Finnbogadóttir flytur ávarp.
3. Óður til skógarins. Einleikur á flautu: Brynhildur Ásgeirsdóttir.
4. Ávörp flytja:
   Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra
   Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands
   Bragi Michaelsson, formaður Skógræktarfélags Kópavogs
   Fulltrúi styrktaraðila Opinna skóga 2011 (Arion banka og Skeljungs)
Karlakór Kópavogs syngur.
5. Barnadagskrá við samkomutjald í umsjón Skógræktarfélags Mosfellsbæjar og Skátafélagsins Mosverja.
6. Kaffiveitingar í samkomutjaldinu í umsjón skógræktarfélaganna, auk þess sem boðið verður upp á grænmeti frá garðyrkjubændum.
Harmonikkuleikur á meðan á veitingum stendur.

Skátar úr Skátafélaginu Kópum úr Kópavogi verða í útilegu með tjaldbúðir á Fossá þessa helgi.

Allir velkomnir,
Fossá, skógræktarfélag
 Skógræktarfélag Kjalarness
 Skógræktarfélag Kjósarhrepps
 Skógræktarfélag Kópavogs
 Skógræktarfélag Mosfellsbæjar

Nýr samningur Skógræktarfélags Íslands við Arion banka

Með Skógræktarverkefni

Skógræktarfélag Íslands hefur nú gert samstarfssamning við Arion banka um verkefnið Opinn skóg og útgáfu og kynningu á skógræktarsvæðum á Íslandi. Samninginn undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka fimmtudaginn 19. maí.

Markmið samningsins er styrkja skógræktarstarf á Íslandi og miðla og kynna almenningi alhliða upplýsingar um tré og skóg.

Nú þegar hafa ellefu svæði verið opnuð undir hatti Opinna skóga og það tólfta verður opnað í sumar að Fossá í Hvalfirði. Með samkomulaginu verður tryggð endurnýjun og viðhald eldri svæða Opinna skóga og unnið að því að opna ný svæði og gera þau að fyrirmyndar útivistar- og áningarstöðum. Auk þess mun Arion banki styðja ýmis konar fræðslustarf Skógræktarfélagsins.

Meðal þeirra hluta sem verður unnið að í Opnum skógum er uppbygging fyrirmyndar útivistaraðstöðu, svo sem skógarstíga, bekkja, merkinga og leiðbeininga, bílastæða o.fl. 

undirskrift-arion

Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arion banka og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, takast í hendur að lokinni undirskrift.

Skeljungur nýr styrktaraðili að Opnum skógi

Með Skógræktarverkefni

Skógræktarfélag Íslands hefur nú gert samning við Skeljung um stuðning við verkefnið Opinn skóg. Undirrituðu Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, undir samninginn þriðjudaginn 17. maí.

Samstarfssamningurinn lýtur að víðtækum stuðningi við skógrækt vegna uppbyggingar á skógræktarsvæðum víðsvegar um land.  Markmið samningsins er að auka aðgengi og kynningu á skóglendum með markvissum hætti. Nú þegar hafa ellefu svæði verið opnuð undir hatti Opinna skóga og það tólfta verður opnað í sumar að Fossá í Hvalfirði.

Með samkomulaginu verður tryggð endurnýjun og viðhald eldri svæða Opinna skóga og unnið að því að opna ný svæði og gera þau að fyrirmyndar útivistar- og áningarstöðum. Meðal annars verður unnið að uppbyggingu ýmissa innviða, svo sem borða, bekkja, göngustíga, bílastæða o.fl., uppsetningu merkinga og upplýsingaskilta og almennrar umhirðu, svo sem grisjun.

samningurskeljungur

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Skeljungs, og Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, við undirskrift samningsins (Mynd: RF).

opinnskogur-yfirlit

 

Samstarfssamningur Toyota á Íslandi og Skógræktarfélags Íslands

Með Skógræktarverkefni

Toyota á Íslandi hf. og Skógræktarfélag Íslands hafa gert með sér samstarfssamning og var hann undirritaður af Úlfari Steindórssyni, forstjóra Toyota og Magnúsi Gunnarssyni, formanni Skógræktarfélags Íslands, fimmtudaginn 5. maí síðast liðinn. Hefur samningurinn að markmiði að efla ákveðin skógræktarsvæði, með aukið útivistargildi og jákvæð umhverfisáhrif að leiðarljósi. Er þetta framhald á fyrra samstarfi, en Toyota hefur frá árinu 1990 verið einn helsti stuðningsaðili Skógræktarfélags Íslands.

Samkvæmt samningnum mun Toyota leggja til fjármagn til margvíslegrar uppbyggingar á svæðunum, s.s. gróðursetningar, grisjunar og umhirðu, stígagerðar, merkinga o.fl., en Skógræktarfélag Íslands og viðkomandi aðildarfélög munu sjá um verklegar framkvæmdir. Auk þess mun Toyota lána Skógræktarfélagi Íslands bifreiðar til afnota á helsta athafnatíma  félagsins.

Toyota-skógarnir sem um ræðir eru sex talsins um land allt og eru þeir á Ingunnarstöðum í Brynjudal, í Esjuhlíðum, í Kjarnaskógi, í Reyðarfirði, á Söndum í Dýrafirði og í Varmalandi í Borgarfirði.

samningurtoyota

Magnús Gunnarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands og Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota, takast í hendur að undirskrift samnings lokinni (Mynd: Brynjólfur Jónsson).

Umsókn um styrk úr Minningarsjóði Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson

Með Skógræktarverkefni

Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu. 

Til úthlutunar verða samtals 4 milljónir króna.  Styrkirnir eru lausir til umsóknar frá og með 1. desember 2010 og umsóknum skal skilað eigi síðar en 10. janúar 2011.  Umsóknareyðublöð er að finna á heimasíðum Landgræðslu ríkisins (land.is), Skógræktar ríkisins (skogur.is) og Skógræktarfélags Íslands (skog.is).

Umsókn ásamt fylgigögnum skal skila í einu pappírseintaki og á tölvutæku formi (á geisladiski sem rtf, pdf eða word skjal).  Ófullgerðum umsóknum verður vísað frá.  Umsóknum skal skila til: Landgræðslusjóðs, Skúlatúni 6, 105 Reykjavík.  Skrifa skal skýrt á umslag: „Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson“.

Samningur undirritaður í Garðabæ um störf eitt hundrað ungmenna í sumar

Með Skógræktarverkefni

Síðast liðinn þriðjudag undirrituðu Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, Magnús Gunnarsson formaður Skógræktarfélags Íslands, og Barbara Stanzeit, gjaldkeri Skógræktarfélags Garðabæjar, samning um atvinnuátak sem mun skapa 100 ungmennum í Garðabæ vinnu við margvíslega umhirðu og ræktunarverkefni í tvo mánuði á þessu sumri. Samningurinn er hluti af sameiginlegu verkefni sem Skógræktarfélag Íslands í samvinnu við samgönguráðuneytið hóf á síðasta ári.

Verkefnin sem ungmennin vinna að eru ýmis konar ræktunar- og umhirðuverkefni á svæðum Skógræktarfélags Garðabæjar, m.a. í Smalaholti og Sandahlíð. Á umræddum svæðum hefur Skógræktarfélag Garðabæjar unnið að ræktun útivistarskógar á annan áratug. Skógurinn er smám saman að verða að veruleika en þar hafa komið að gróðursetningu og ræktun fjölmargir sjálfboðaliðar, einstaklingar, samtök og stofnanir. Með vinnu og umhirðu á svæðunum, svo sem stígagerð, og uppbygginu á áningarstöðum, er sköpuð enn betri aðstaða fyrir gesti. Eftir því sem trén hafa stækkað hafa íbúar í vaxandi mæli heimsótt svæðin og með betri aðstöðu er hægt að fylgja eftir brýnni þörf á bættu aðgengi.

Atvinnuátak Skógræktarfélags Íslands og samgönguráðuneytisins hófst á síðasta ári og var hugsað sem þriggja ára verkefni árin 2009-2011. Í fyrra voru sköpuð störf fyrir tæpa 400 einstaklinga og það sem af er þessu ári hafa verið sköpuð 230 störf hjá 9 aðildarfélögum með fulltingi og aðkomu jafn margra sveitarfélaga. Vonir standa til að á næsta ári verði hægt að bæta um betur og skapa vinnu fyrir enn fleiri einstaklinga til að slá á ríkjandi atvinnuleysi ungs fólks.

samningurgbr
Barbara Stanzeit, Gunnar Einarsson og Magnús Gunnarsson við undirritun samningsins (Mynd: BJ).